Margs er að minnast um þessar mundir. Þennan dag fyrir 96 árum, þann 19. júní 1915, á 25 ára afmælisdegi Önnu Klemensdóttur, staðfesti konungur loks kosningarétt íslenskra kvenna yfir fertugu sem urðu þar með fyrstar í heimi til að öðlast almennan kosningarétt og kjörgengi (Árni Björnsson 1993, Saga daganna). Fjórum árum áður, þann 17. júní árið 1911, fyrir eitthundrað árum, var Háskóli Íslands stofnaður, ekki síst fyrir atbeina kvenna eins og Þorbjargar Sveinsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur, sem stóðu að Hinu íslenska kvenfélagi (stofnað 1894). Og þann 17. júní 1811 fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð lítill snáði sem fékk nafnið Jón og var Sigurðsson.
Það eru því margir jákvæðir leiðarsteinar í sögu Íslands sem við minnumst þessa dagana. Við slík tímamót, þegar skyggnst er til baka, er líka þarft að taka stöðuna á deginum í dag. Hvað framtíðin ber í skauti sér látum við alvísan Guð um.
Sjálfstæði og frelsi Jón Sigurðsson er líklega umfram annað táknmynd sjálfstæðis og frelsis í augum okkar Íslendinga. Minning hans undirstrikar orð skáldkonunnar Huldu:
Hver dagur liti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð.Hulda: "Hver á sér fegra föðurland", 1944
Þegar litið er til ársins 2011 verður þó ekki hjá því komist að viðurkenna það alþjóðlega samhengi sem hver þjóð er umvafin. Það þarf ekki að vera í neinni mótsögn við frelsið og sjálfstæðið að við tökum ábyrgð á stöðu okkar í samfélagi þjóða. Auðvitað erum við hvert öðru háð í samfélagi þjóðanna, menningarlega, efnahagslega og lagalega séð, að ógleymdu hinu sameiginlega vistkerfi jarðar sem engin þjóð getur skorast undan að taka ábyrgð á. Hvernig sambandi okkar við aðrar þjóðir er háttað á hverri tíð hlýtur hins vegar að vera þjóðarinnar að taka ákvörðun um með farsæld og heill landsins að leiðarljósi.
Litla lútherska kirkjan okkar Og okkar litla íslenska þjóðkirkja er líka hluti mun stærri heildar, hinnar kristnu fjölskyldu hérlendis sem erlendis. Það er lærdómsríkt fyrir íslenskan lútheran að sækja kirkjulega fundi og ráðstefnur erlendis og átta sig á að evangelíska-lútherskar kirkjur eru víðast hvar minnihlutahópur. Þá verður áherslan á það sem sameinar svo miklu mikilvægari en að einblína á það sem sundrar. Það gerðum við hér í Hallgrímskirkju á 17. júní þegar við komum saman fleiri hundruð manns úr á öðrum tug kristinna trúfélaga til að lyfta landi og þjóð upp til Guðs í bæn.
Hið stóra samhengi kristinnar trúar í gegnum aldir og ár minnir líka á að kristin kirkja sem lífræn og andleg eining lætur ekki bugast af mannlegum brestum og dapurlegum vandamálum líðandi stundar. Hinn mannlegi vandi sem einstaka kirkjur hafa mátt standa frammi fyrir á ekki síðasta orðið. Kristur yfirgefur ekki líkama sinn, kirkjuna, og fyrir kraft heilags anda vaxa fram nýjir sprotar í stað þeirra sem brotna.
Kvenréttindadagurinn og dagur hinna villtu blóma Kosningaréttur kvenna er minningarefni dagsins í dag. Við höfum nefnt 19. júní kvenréttindadaginn af því tilefni. Það er líka mikilsvert að minnast þess að með lögum frá 1909 sem komu til framkvæmda með stofnun Háskóla Íslands fengu íslenskar konur fullt jafnrétti á við karla til menntunar, námsstyrkja og embætta. Það eru sem sagt eitt hundrað ár frá því að konur gátu orðið prestar á Íslandi, lagalega séð, þó það yrði ekki að veruleika fyrr en árið 1974.
Um þetta má lesa í merkri bók Valborgar Sigurðardóttur, Íslenska menntakonan verður til (2005). Þar segir frá skrifum Ólafíu Jóhannsdóttu í Ársrit hins íslenzka kvennfjelags árið 1895 og segist hún vera sannfærð um að ekki líði á löngu þar til konur eigi jafnt og karlar aðgang að menntastofnunum landsins og „gefist færi á að nota hæfilegleika sína og krafta eftir því sem þær óska og geti við komið“. Orð hennar rættust sannarlega og nú, rúmri öld eftir að þetta var skrifað, eru konur í meirihluta á öllum námsstigum Háskóla Íslands (www.hi.is).
Að dagurinn í dag, þriðji sunnudagur í júní, skuli líka vera samnorrænn dagur hinna villtu blóma, www.floraislands.is, finnst mér dálítið táknrænt. Það minnir mig á þá grósku sem við höfum þegið frá skapara okkar og að líta megi á okkur mannfólkið sem fjölbreytta flóru. Fegurð karla og kvenna er litrík og fjölbreytt og sum okkar þurfa skjólsælt umhverfi á meðan önnur eru harðgerðari, þola jafnvel ágengan vind upp til fjalla og seltu sjávar í fjöruborðinu. Öll eigum við þó sama upphaf, í vilja hins þríeina Guðs, sem lífið gefur.
Hin sanna viska, hið sanna líf, hin sanna elska Eitthundrað ára afmæli Háskóla Íslands minnir okkur á að huga að því hvaðan hin sanna viska er fengin. Gróskan í kennslu Háskólans með fjölda gagnlegra fræðigreina er fagnaðarefni. Það er sannarlega landinu okkar til heilla og farsældar að við skulum geta menntað fólkið okkar á svo mörgum sviðum. En guðspjall dagsins dregur fram óþægilega staðreynd: Spekingar og hyggindamenn vita ekki alltaf allt. Leyndardómar guðsríkisins opinberast smælingum, segir Jesús.
Við sem höfum lagt á okkur langskólanám erum kannski ekki ánægð með þessi orð Jesú, ekki frekar en íslenska orðatiltækið að bókvitið verði ekki í askana látið. Okkur finnst kannski einmitt að nútíminn sýni að hugvit geti verið gróðavegur og fært þjóðinni hagvöxt og heimilunum mat á borðið. Hvað á Jesús þá við? Hvað er það sem er hulið spekingum og hyggindamönnum – á þeim tíma líkast til rabbíum Ísraels og gáfumönnum Grikkja?
Það er hið sanna líf sem um ræðir – að skynja birtingu Drottins í daglega lífinu, líkt og Abraham forðum í Mamrelundi (1Mós 18.1-5 og áfram). Lífið er fólgið í Kristi. Og það opinberast þeim sem hann kýs að opinbera það. Það minnir á orð Jesú í Jóhannesarguðspjalli (14.21): „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er“. Í elskunni birtist Guð, eins og segir líka í pistli dagsins (Tít 3.4-5): „En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanann, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni“. Í elsku Guðs til okkar birtir hann sjálfan sig. Aðeins þegar við elskum hann á móti getum við skynjað hver hann er.
Óháð kyni, aldri, menntun og fyrri störfum Leyndardómar Guðs verða ekki lærðir með bókvitinu. Þar dugar okkur ekki skynsemin. Við þurfum á annars konar þekkingu að halda. Við höldum að við getum allt sjálf – öðlast frelsi og jafnrétti og fullan skilning á öllum fyrirbærum veraldar – en þegar allt kemur til alls eru hinstu leyndardómar veraldar sveipaðir hulu. „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis“, skrifar Páll postuli í óði sínum til kærleikans (1Kor 13.12). „Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja“ eins og ég er sjálf gjörþekkt orðin. Aðeins í ást Guðs getur þetta orðið, í þeirri ást sem leysir út eilífa lífið í okkur, aðeins með því að taka á móti gjöf lífsins í Jesú Kristi fyrir heilagan anda fáum við skyggnst inn í leyndardóma Guðs.
Frammi fyrir heilögum þríeinum Guði finnum við okkur smá. Þar erum við óháð hinum mannlega mælikvarða sem telur eftir kyni, aldri, menntun og fyrri störfum. Þar erum við öll smælingjar, öll jöfn, enginn öðrum fremri. Öll þurfum við að baða okkur „í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega fyrir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors“ (Tít 3.5-6). Þvílíkt fagnaðarefni, þvílíkur léttir að þurfa ekki að vinna frægðarverk til að fá að líta auglit Guðs. Þess vegna lofum við Guð og tökum undir með Jesaja spámanni, svo sem í hverri altarisgöngu: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð“ (Jes 6.3b).
Já, dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.