Þjóðríki, þjóðkirkja

Þjóðríki, þjóðkirkja

Orðið þjóðkirkja er ekki heiti heldur verklýsing, stefnuskrá. Hin evangelísk- lútherska kirkja hefur skyldum að gegna við íslenska þjóð, stofnanir og samfélag.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
04. apríl 2011

Fræðsluerindi í Hallgrímskirkju, 3. apríl 2011.

IMG_0931

Ég þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér á þessum fræðslumorgni. Þetta er mikilvægur dagur í mínu lífi og sem ég er afar þakklátur fyrir að eiga hér í Hallgrímskirkju. Í dag eru 50 ár liðin frá því ég fermdist hér í kirkjunni, 3. apríl 1961. Þetta var annar í páskum. Ég man svo sem ekki margt frá athöfninni nema hughrif og einstaka myndir. Ég man eftir henni Margréti Einarsdóttur sem klæddi okkur í fermingarkirtlana. Það var hennar hlutverk þá og lengi síðar. Og fermingarfaðir minn, séra Jakob Jónsson, Guð blessi minningu hans, hann lagði út af guðspjalli dagsins, um Emmaus-förina. Um hann sem kom upp að hlið vinanna sorgmæddu á páskadag og þeir þekktu hann ekki, fyrr en hann braut brauðið. Þetta man ég svo vel, vafalaust vegna þess að hún mamma minntist á það í bílnum á leiðinni úr kirkjunni að vart væri hægt að hugsa sér yndislegri fermingartexta en einmitt þessa frásögn. Og það stimplaði þetta svona inn í huga minn að það hefur ekki horfið mér úr minni. Og alltaf er þessi texti sérstaklega hugstæður mér.

Athöfn og iðkun

Þegar ég hugsa um það hvað þjóðkirkjan er þá staldra ég einatt við það það að hún er athöfn og iðkun sem kemur til langflestra Íslendinga á krossgötum ævinnar og tengir við hið eilífa, stóra, kraft og trú. Það er siðurinn. Og í kringum það er ekki bara presturinn heldur miklu fleiri, hún Margrét og mamma, verk og orð og umhverfi og aðstæður, hátíð og helgi.

Ytri aðstæður breytast, samfélagið tekur miklum breytingum, við lifum byltingatíma á Íslandi í dag, tíma uppgjörs og kröfu um endurmat á öllu. Samt eru þúsundir ungmenna að ganga upp að altari kirknanna um þessar mundir og játa trúna á Jesú Krist, ásamt jafnöldrum sínum, fjölskyldum, vinum. Og samfélagið allt er með einum eða öðrum hætti markað þessu, þessum sið, þessari hefð, þessari hátíð þegar unglingurinn er í miðdepli athygli og umhyggju, trúar og vonar og kærleika. Og er það ekki undursamlegt?

Þetta er hefð, siður sem grípur inn í þjóðarsálina. Eins er um skírnir og jarðarfarir. Þarna er þjóðkirkjan sýnileg sem samfélag og vettvangur sem leggur okkur til orð og athöfn og merkingarmynstur á mikilvægum krossgötum. Þegar nýr einstaklingur er kominn í heiminn þá kemur kirkjan upp að hlið okkar tekur utanum barnið, foreldrana, samfélagið með orði sínu og atferli og minnir á að þetta varnalausa barn er þáttur í samhengi sem er meira, stærra, dýpra, hærra, auðugra en fjölskyldan, samfélagið, þjóðin, ríkið, sem það tilheyrir. Og skoðanir og trúarstyrkur og afstaða einstaklinganna sem að þessu koma. Þegar unglingurinn er á krossgötum frá bernsku til fullorðinsára þá gerist það sama. Einstaklingur, samfélag, samhengi, orð og athöfn, hátíð sem kveður það sem að baki er í kærleika og fagnar því sem framundan er í von og trú. Þú ert ekki einn, þú ert ekki ein, segir þetta samhengi, þú gengur troðna slóð, þrátt fyrir allt. Við höfum fetað þessa leið, við sem eldri erum, já og gengnar kynslóðir. En einn er sá sem gengið hefur leiðina alla og á enda, og lengra. Það er frelsarinn Jesús. Þetta er þjóðkirkjan umfram allt, þetta samhengi, mynstur, athöfn og orð. Og hún verður það svo lengi sem hún snertir samfélagið, heimilin og fjölskyldurnar, þjóðlífið.

Þjóðkirkjan

Þjóðkirkjan er eldri en ríkið, þó að heitið verði til í stjórnarskránni 1874, þá er hún sem veruleiki og samfélag sem nær til kristnitöku árið 1000. Í þúsund ár hafa íslensk börn verið skírð, signd, þeim kennt að biðja í Jesú nafni. Þetta er órofa samhengi sem við stöndum í. Og af rótum þess spretta mikilvægustu gildi samfélagsins. Orðið þjóðkirkja kemur inn í stjórnarskrána 1874. Það á sér rætur í kenningum þýska heimspekingsins Schleiermacher og danska prestsins Grundtvig.

Í Þýskalandi notuðu menn fremur orðið „landskirkja.“ Hugsunin er sú sama, að kirkjan er landfræðilega mörkuð, og þjónar öllum landsmönnum. Sóknaskipan hjá okkur sem á rætur allt aftur á 12. öld, tryggir það, enginn blettur á landinu er utan sóknar, sem heyrir til prestakalli, prófastsdæmi og biskupsdæmi, með öðrum orðum, landsmenn allir eiga aðgang að iðkun og athöfn kirkjunnar, óháð skoðunum, trúarþeli eða andlegu atgervi eða stétt, stöðu og efnahag.

Þjóðkirkjan með sóknaskipan sinni er samfélag og samhengi, ekki skoðanasamfélag, kristinn söfnuður er ekki að tjá skoðanir sínar þegar farið er með trúarjátninguna, heldur staðsetja sig í tveggja árþúsunda samhengi, biðja og þakka og vona í því samhengi sem tók okkur á arma sína þegar við komum í þennan heim og mun væntanlega bera okkur út þegar við kveðjum.

Ríki og kirkja

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju fær vængi enn og aftur. Stór hluti landsmanna hefur lýst sig fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju í skoðanakönnunum. Gjarnan höfðað til þess að um óeðlilega mismunun sé að ræða og að nútímaþjóðfélag krefjist þess að skilið sé milli ríkis og trúarbragða, ríki skuli vera hlutlaus í trúarefnum.

En hvað merkir það? Hér eru ríki og kirkja að miklu leyti aðskilin. Samkvæmt Evrópudómstólnum telst það ekki mismunun þó ríki hafi sérstakan áskilnað um trúarbrögð meirihlutans, setji lög og geri samninga þar að lútandi.

Í öllum Evrópuríkjum láta ríkin sig trúmál varða og setja um það lög. Við erum í þeim efnum samferða hinum Norðurlöndunum, þar er samband ríkis og kirkju með ýmsu móti, en þó tilbrigði við sama stef. Í Svíþjóð varð aðskilnaður árið 2000, eða breytt samskipti, kalla þeir það nú. Þar er staða kirkjunnar svipuð og hér síðan 1998, ríkið innheimtir meðlimagjöld til allra skráðra trúfélaga, og leggur auk þess til umtalsverða fjármuni til viðhalds kirkna, það er menningarminja. Eins hafa stjórnmálaflokkarnir mikil völd í sóknarnefndunum, sem eru pólitískt kjörnar.

Í Þýskalandi varð aðskilnaður ríkis og kirkju eftir fyrri heimsstyrjöld. Þar njóta hins vegar meirihlutakirkjunar, mótmælendur og kaþólskir, sérstöðu og teljast opinberar stofnanir.

Fyrir einni öld var skilið milli ríkis og kirkju í Frakklandi, og gengið fram af mikilli hörku gegn kirkjunni. En ríkið tók allar kirkjubyggingar í sína eigu, þannig að allar kirkjubyggingar í Frakklandi sem eldri eru en frá 1905 eru eign og á ábyrgð ríkisins. Eins skipar forseti Frakklands erkibiskupinn í Reims. Í Bretlandi þar sem er þjóðkirkja sem hefur afar sterka stöðu í stjórnkerfinu, erkibiskupinn í Kantaraborg, t.d. er næstur drottningu í tignarröðinni, þar leggur ríkið ekkert til kirkjunnar, ekki eyri. Hún hefur hins vegar haldið stórum hluta eigna sinna og tekjustofna. Svo þetta er nú flóknara en í fljótu bragði sýnist.

Trúnaður og jafnræði

Á Íslandi er nokkuð ljóst að ríkið telur sig ekki bundið trúnaði við þjóðkirkjuna eina, heldur beri að sýna jafnræði. Af ummælum forsætisráðherra um þjóðkirkjuna sl. sumar, þegar múgæsingin var sem mest og hvatt var óspart til fjöldaúrsagna úr þjóðkirkjunni, mætti draga þá ályktun að ákvæði stjórnarskrárinnar að ríkinu beri að styðja og vernda Þjóðkirkjuna sé í hugum ráðamanna vart nema dauður bókstafur. Nei, það vísar til samhengis sem er dýpra og mikilvægara en goluþytur almenningsálitsins.

Þegar ámóta múgæsing greip um sig í Finnlandi s.l. haust þá gengu forystumenn ríkisstjórnar Finnlands og formenn þingflokkanna fram fyrir skjöldu og réðu fólki frá því að yfirgefa þjóðkirkjuna, hún væri svo mikilvæg finnsku samfélagi. Hér virðist lýðskrumið hins vegar vera í fyrirrúmi og það hjálpar lítt. Það er nauðsynlegt að ná sátt um skipan þessara mála, sem snúast ekki bara um hagsmuni trúfélaga eða trúlausra. Ljóst er að breyting verður á, öll þróunin hefur verið í átt til aðgreiningar um langa hríð. En lokaskrefin snúast ekkert síður um það hvers eðlis íslenska þjóð – ríkið er.

Skv. stjórnarskrá segir: „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Þjóðin og kirkjan

Það er þjóðarinnar að taka af skarið. Þetta er eina ákvæði stjórnarskrárinnar sem tilgreinir þjóðaratkvæði. Merkilegt hve sú staðreynd liggur einatt í þagnargildi í slagorðunum um ríkiskirkju og kröfunni um aðskilnað. Það er ekki ríkið sem hefur stofnað þessa kirkju, á hana né ræður framtíð hennar. Heldur þjóðin.

En hvað gerist ef ákvæði stjórnarskrárinnar er fellt út? Ég er hins vegar hreint ekki viss um að mikið myndi breytast til að byrja með.

Kirkjujarðasamkomulag ríkis og kirkju stæði væntanlega óhaggað. Lög um sóknargjöld mjög líklega og helgidagalöggjöfin áreiðanlega. Það fyrsta sem við sæjum hverfa væri guðsþjónusta í tengslum við innsetning forseta Íslands og setningu alþingis, hin fræga prósessía milli þinghúss og dómkirkju félli niður. Og etv ekki útaf fyrir sig eftirsjá í því. En það er miklu meira sem hangir á spýtunni.

Þjóðkirkjan er stofnun, en jafnframt því er hún hreyfing.

Hún er fjöldahreyfing á 3. hundrað safnaða. En hún er líka opinber stofnun, lögbundin. Þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju þá er mikilvægt að hafa þetta í huga og sjá fyrir sér hvað menn vilja. Ég sé ekki fyrir mér að almennur vilji sé fyrir því að söfnuðir kirkjunnar verði skilgreindir á vettvangi frjálsra félagasamtaka, þótt þau séu ómetanleg samfélaginu. Ég held ekki að vilji sé til þess að söfnuðirnir verði lokaðir trúar- eða landsmálapólitískir klúbbar. Ég hef talið að það væri samfélagslegur styrkur fólginn í því að kirkjan er opinber stofnun, með opið aðgengi óháð skoðunum og stöðu, bundin lögum, svo sem stjórnsýslu og jafnréttislögum, fjármál hennar undir eftirliti Ríkisendurskoðunar, svo eitthvað sé nefnt.

En ríkið á talsverðra hagsmuna að gæta, vegna þess að þessi stofnun, sem umlykur fjöldahreyfingu sem telur 250 þúsund manns innan vébanda sinna er vörslumaður mikilla verðmæta, andlegra og sögulegra verðmæta sem eru umtalsverður þáttur í því hver við erum sem samfélag og hvers eðlis okkar þjóð- ríki er. Og í þessari mannræktarhreyfingu á sér stað ómissandi samfélagsuppbygging, af því að hún staðsetur okkur í þessu djúpa og víða samhengi sem brúar bil kynslóðanna og hamlar gegn miðflóttaafli sjálfhverfunnar og sjálfdæmishyggjunnar.

Mér finnst mikilvægt að muna að orðið þjóðkirkja er ekki heiti heldur verklýsing, stefnuskrá. Hin evangelísk- lútherska kirkja hefur skyldum að gegna við íslenska þjóð, stofnanir og samfélag. Að samhengi hefðar og siðar haldist, að sagan um Jesú sé sögð og boðskapur hans nái eyrum nýrra kynslóða um landið hér.

Okkur mörgum rennur til rifja ófullkomleiki kirkjunnar og vandkvæði sem hrjá hana. Það er rétt sem forsætisráðherra sagði sl. sumar að þar er vandræðagangur og vandamál. En á það ekki meir og minna við allar stofnanir íslensks samfélags í því ölduróti sem þjóðin er í?

Kirkjan er sjaldnast eins og við viljum hafa hana, vonbrigðin eru einatt á næsta leiti hjá okkur sem hana elskum og þráum að sjá hana blómstra og vaxa. Hún er ekki hugarsýn í hæðum fullkomleikans. Hún er samfélag við Orðið sem varð hold, sýnilegur á okkar jörð, í mannlegri sögu. Drottinn Jesú Krist. Og eitt er alveg víst um mannlega sögu og okkar jörð, þar er vandræðagangur og vandamál. Líka þar er Guð að verki. Kirkjan er. Hún er ekki það sem við gerum fyrir Guð og í nafni Guðs til að halda fram málefnum hans. Hún er þrátt fyrir það allt. Hún mun lifa það af, presta og biskupa, en ekki ef mæðurnar, foreldrarnir hætta að tengja börn sín við samhengið djúpa og stóra. Guð veit hvað hann er að gera með því að gefa okkur einmitt þessa kirkju sem við fæddumst inn í, sem ól okkur við móðurbrjóst sín, sem leiðir okkur fram fyrir auglit hans og að lindum orðs hans og borðs í samfélagi við annað fólk. Guð blessi það allt og þau öll sem hann elska.

Á þjóðkirkjan sér framtíð? Hvað ákvarðar framtíð hennar? Er það alþingi, ríkisstjórn, stjórnlagaráð? Þessir aðilar hafa sannarlega mikil áhrif. En framtíð þjóðkirkjunnar er samt í þinni hendi. Þjóðkirkjan er lýðræðislega uppbyggð og því háð því fólki sem þar vill taka þátt. Þjóðkirkjan er háðari þér en ríkinu. Það er mikilvægt að minnast þess, þjóðin á þjóðkirkjuna og ræður framtíð hennar. En svo er ekki síður mikilvægt að muna að það fólk sem skráð er í þjóðkirkjuna í Þjóðskrá heldur uppi þjónustu hennar í sinni sókn, þar sem það býr, tryggir með sóknargjaldi sínu starfsemi og þjónustu kirkjunnar í heimabyggð sinni. Án þess getur hún vart sinnt hlutverki sínu.

Síðast en alls ekki síst vil ég nefna það hlutverk sem er að elska Guð og biðja og leitast við að elska náungann og hlúa að lífinu. Þar er líftaugin í því sem kirkjan er og vill koma til leiðar í samfélaginu. Það fólk sem iðkar sína trú og leitast við að þroskast í trú og styðja við það að sagan um lausnarann, bænin, vonin, kærleikurinn og trúin eigi athvarf í okkar samfélagi, það er ómetanlegt kirkju og þjóð. Ef þú ert einn af þessu góða fólki þá vil ég þakka þér sérstaklega fyrir það og bið Guð að launa það og blessa. Það er nú svo að því meir sem þú lætur kirkjunni í té þeim mun betri möguleika hefur hún á að lifa af. Framtíð þjóðkirkjunnar er í þinni hendi!