Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8
Meistari Marteinn Lúther segir um fyrirgefningu syndanna: “Þar sem er fyrirgefning syndanna þar er líf og sáluhjálp”. Hvað á hann við? Hann á við að fyrirgefning syndanna er grundvallaratriði trúarinnar. Í því atriði er kraftur trúarinnar. Og auðvitað er þetta miklu meira en atriði – item – í huga Lúthers.
Kirkjudeild okkar sem er kennd við Lúther þvert á móti vilja hans hefur oft á tíðum í skynsemi sinni og upplýsingu misst sjónar á þessu atriði. Kirkjan er oft á tíðum að kljást við einhvern ytri ramma. En Lúther hafði enga eyrð í sér til þess. Hann var að fást við lífið og þar með var hann að tala um Guð. “Þar sem er fyrirgefning syndanna þar er LÍF”.
Lífskrafturinn er Guðs
Það er þessi lífskraftur sem guðspjall dagsins er að lýsa, sem leysir úr læðingi frumöfl sálarinnar, tengir okkur við Guð, það sem er mönnum eiginlegt en truflað. Í þessar frásögn mætum við engum öðrum en Guði, Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guði Jesú Krists. Og það er engin kveifarleg mannsmynd, aumingjaskapur og undirlægjuháttur, heldur lífskrafturinn sjálfur sem blasir við okkur.
Fyrirgefning syndanna hefur með Guð að gera. Það var mikið rétt hjá fræðimönnunum. Enda hvað mynduð þið segja ef ég færi að lýsa yfir að einhverjum væri fyrirgefið sem hefði gert á hlut annars manns en mín, troðið honum um tær eða sagt einhver særandi orð? En þannig gekk Jesús um og fyrirgaf á báða bóga og allt var upp í loft meðal fræðamannanna út af þessu eins og við heyrum í guðspjallinu.
Hugsum aðeins betur um þetta atriði. Jesús tók sér vald til að fyrirgefa syndir (Mark. 2.5) Þá á hann við allar syndir, ekki eitthvað, sem gert hefur verið á hluta hans sjálfs. Þannig getum við öll fyrirgefið. Ef sá sem segir: “Barnið mitt, syndir þínar eru þér fyrirgefnar”, er ekki Guð, er fullyrðingin hjákátleg. Hann býður fyrirgefningu þegar þú hefur farið illa með aðra, talað illa um aðra, tekið eitthvað frá öðrum, eyðilagt fyrir öðrum. Í munni allra, nema þess sem er Guð, myndi slíkt tal aðeins bera vitni um yfirgengilegan kjánaskap og ímyndunarveiki. En sé hann Guð þá hefur það afleiðing í tvær áttir. Þá ber ég ábyrgð gagnvart Guði í nærveru sálar, það sem ég segi við aðra og geri snertir Guð. Og hins vegar að Guð Jesú Krists tekur úr sambandi lögmál endurgjaldsins sem er þegar djúpt er skoðað undirstöðuatriði í mannlegu samfélagi.
Vald Guðs er mildin
Nú segir Matteus þannig frá í guðspjalli að Jesús hefur vald. Síðustu orð hans í guðspjallinu er ekki lítil fullyrðingu sem við erum eflaust flest hætt að heyra. Jesús sagði: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu…” Þá er það nokkuð ljóst hvernig ásigkomulag þessa manns er ef hann er ekki Guð. En í þeim sögðu orðum er hann upprisinn frá dauðum. Hann hafði gengið píslargöngu sína til enda á krossi. Tekist á við andlegt að því er virtist ofurefli en haft sigur. “Allt vald” – þýðir að lífið sigrar dauðann og allt hið illa. Í þessum hluta guðspjallsins sjáum við að Jesús hefur vald yfir illum öndum, storminum og vanmætti. Það er verið að segja okkur að Jesús er Guðs sonur sem hefur sigrað.
Það er þvert á okkar vanabundnu hugmyndir um Guð, því af náttúrunnar hendi er okkur tamt að hugsa eftir brautum nauðhyggjunnar um Guð eða jafnvel að Guð sé endurgjaldslögmálið sjálft. Ef ég geri vilja Guðs þá verður Guð að launa mér eða ef ég brýt gegn vilja Guðs þá á ég þetta eða hitt skilið sem yfir mig gengur. Á tímum Jesú var gjarnan litið á sjúkadóma sem afleiðingu synda. Það eru nokkur dæmi um það í Nýja testamentinu eins og þetta. Og auðvitað er því þannig farið enn í hugsun okkar. Reykingar geta leitt til sjúkdóma, ofdrykkja kallar böl yfir fjölskyldur, ofbeldi er niðurlæging sem brýtur niður einstaklinga. En Jesús talar þannig að hann vekur von og hjálpar til iðrunar og bótar. Hann stimplaði ekki menn sem vonlaus tilfelli heldur slæst í för með hverjum þeim sem með honum vill ganga.
Með hjálpræðisverki sínu setur hann líf okkar í annað samhengi en vanahugsun okkur bindur okkur í. Ytra líf okkar og tilvera kanna að fara eftir ákveðnum lögmálum, en líf með Guði, sem er engu bundinn, er eins og guðspjallið greinir frá aðeins háð Guði sem mætir barni sínu með opnum örmum.
Þess vegna mild menning
Vald Jesú er öðru vísi en vald í mannlegu samfélagi. Eins og hann nálgast okkur í mildi eins kennir hann okkur að vera í mannlegu samfélagi, að vera manneskjur fyrst og fremst, semferðafólk, þar sem næmleiki Guðs fyrir mannlegri neyð er okkur í blóð borinn og leiðarljós okkar í samskiptum við aðra. Við getum kallað það manneskjulega menningu eða milda menningu. Það er fyrirgefning syndanna sem skapar þessa menningu, Guð Jesú Krists.
Bernharður Guðmundsson, fráfarandi rektor í Skálholti, skrifaði grein á trú.is nú fyrir helgi, sem hann nefnir Vonarneistinn varð veruleiki. Hún er frábært dæmi um það sem ég er að tala um. Í starfi sínu á alþjóðavettvangi var hann staddur í Kólombíu hitti þar félaga sinn Manúelo sem starfar í Bogota. Hann lýsir upplifun sinni af þessu svæði, fegurðinni, gróskunni, grænir akrar. En að bændurnir urðu að rækta kókaplöntuna sem fíkniefnið kókaín er unnið úr til að komast af. Þó hafði Manúelo með þróunaraðstoð kirkjunnar kennt bændunum að rækta nytjaplöntur og annast um kvikfénað. Milliliðirnir tók of stóran skerf. En nú sá Manúelo leið í Fair-trade samtökum í Hollandi. Það hefur verið þýtt sanngjörn viðskipti. Leið sem Hjálparstarf kirkjunnar er að kynna hér á landi. Margvíslegar afurðir að sunnan er komið til neytenda á Vesturlöndum og tryggt er að framleiðendur fái eðlilega þóknun fyrir framleiðsluna sem gefur þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi líf. Auðvitað mætir slíkt fyrirtæki andstöðu.
En Bernharður lýsir svo í grein sinni gleði sinni þar sem hann áratug síðar sér frétt af þessu svæði og mynd af Manúelo sem hefur elst talsvert. Það eru ekki lengur kókoplöntur sem vaxa þar heldur sykurreyr. Vonarneistin varð að veruleika.
Þarna hefur þessi leið komið á þessari mildu menningu, ekki átakalaust né án erfiðis. Þetta er talandi dæmi um að kristinn trú ögrar oft á tíðum grundvallargildum í mannlegum samfélögum. Gæti ég nefnt fleiri dæmi þar sem andstæðan hefur orðið gífurleg. En við boðum og störfum í þeirri trú að það sé óhætt og meira en það að það sé köllun Guðs að ganga þannig fram til að skapa milda menningu. Menning okkar og samlíf á að mótast af Guði þó að allir spekingar kunni að mæla á móti því.
Líf með Guð og mönnum til eilífðar
Fyrirgefning syndanna gefur einsaklingum nýtt líf með Guði, þar sem grundvallargildi og lífsgrundvöllur eru undir skarpri gagnrýni, samviska mannsins fær nýjar viðmiðanir sem snúast um samband mannsins við Guð. Það er Guð einn sem gefur okkur LÍFIÐ. Og það hefur þær afleiðingar fyrir samfélag manna að samskipti okkar mótast af mildi Guðs, að við keppumst við hvert í okkar stétt og stöðu að skapa milda menningu sem ber Kristi vitni. Og það gerum við þó að á móti blási í trú og von um eilíft LÍF.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.