Mig langar til að segja ykkur frá einstökum manneskjum sem ég hef verið svo lánsamur að starfa með undanfarin tvö ár. Þetta eru einstaklingar sem eru virkilega fórnfúsir, með stórt hjarta og sterka réttlætiskennd. Ég er að tala um unglingana í Garðabæ sem hafa tekið þátt í æskulýðsstarfinu í Vídalínskirkju.
Í ,,svörtu vikunni” í október þegar landið okkar lagðist á hliðina og bankarnir hrundu, var æskulýðsfundur eins og venjulega. Þau voru búin að heyra fréttir af ástandinu í fjölmiðlum, í skólanum og heima hjá sér. Ég bjóst við að mæta tættum og óttaslegnum unglingum sem væru hræddir um framtíð sína og sinna nánustu. Hræddir eins og allt hitt fullorðna fólkið sem ég hafði hitt í þeirri viku.
Þarna mættu þau full af orku (eins og vanalega) en þau voru ekki sátt. Ekki sátt við hvernig væri talað um Ísland né hvernig komið væri fyrir orðspori okkar meðal annara þjóða. Þau sögðust vera stoltir Íslendingar og þó útlitið væri kannski slæmt núna, þá myndum með samtakamætti ná okkur út úr þessari kreppu. Eftir smá umræður um sjálfstæði Íslands og allskonar hugmyndir um lán frá hinum og þessum sem Ísland virtist þurfa á að halda, þá kom að því sem ég var búinn að búa mig undir. Það kom í ljós að þau voru óttaslegin, já hrædd. (Ég vissi það, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég var bara hissa á því hvað það tók þau langan tíma að byrja að tala um óttann því auðvitað væru þau hrædd, auðvitað væru þau óttaslegin um framtíð sína og sinna nánustu.)
En eins og svo oft áður komu þau mér á óvart, skemmtilega á óvart. Þessi ótti sem var að gerjast innra með þeim var ekki kominn fyrst og fremst vegna þeirra eigin aðstæðna. Þau voru óttaslegin fyrir hönd annara. Fyrir hönd þeirra sem þau voru að berjast fyrir. Æskulýðsfélagið var nefnilega að safna pening og vekja athygli á aðstæðum þrælabarna á Indlandi. Þau voru hrædd um að þegar það kæmi svona fjármálakreppa þá myndu allt of margir gleyma þeim sem minnst mættu sín í þessum brothætta heimi okkar.
Þau voru hrædd um að manneskjur sem ættu allt undir að alþjóðasamfélagið hjálpaði því í neyð þeirra og fátækt, myndu nú standa sig enn þá verr í því að setja peninga í þróunar- og hjálparstarf. Þau bentu á að Íslendingar mættu ekki hætta að gefa peninga í hjálparstarf þó við gætum ekki gefið eins mikið og áður. Alveg eins og við þyrftum á hjálp að halda frá erlendum löndum sem hafa það betur en við, þyrftu svo margir á hjálp okkar að halda sem hafa það verr en við.
Þau voru staðráðin í því að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að leggja Hjálparstarfi kirkjunnar lið. Og spurðu hvort það væri ekki eitthvað fleira sem þau gætu gert. Og hvort það væri ekki öruggt að þau mættu aftur hjálpa til fyrir jólin í matarúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar.
Það er gaman að segja frá því að fyrir viku síðan létu þau Hjálparstarf kirkjunnar fá 400.000. kr. sem þau hafa safnað frá árinu 2007. Þessir peningar munu fara í að leysa þrælabörn á Indlandi úr skuldaánauð. Á sama tíma hófu þau næstu söfnun sína sem mun standa næstu tvö ár. En þau ætla að safna fyrir munaðarlaus börn í Úganda og fyrir hjálparstarfið á Íslandi. Þau eru búin að stofna tvær hljómsveitir til að vekja athygli á söfnun sinni og æskulýðsfélagið er búið að vera með ýmiskonar uppákomur. Næstu verkefni eru flóamarkaður í kirkjunni og útgáfa á geisladisk með hljómsveitunum.
Ég hvet okkur öll til þess að taka þetta unga fólk okkur til fyrirmyndar og leggja okkar að mörkum til þess að tryggja að hugsað sé um okkar minnstu bræður og systur.
Guð blessi okkur öll.