Prédikun flutt í rittúlkaðri kvennamessu Langholtskirkju 18.03 2012
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og drottni Jesú Kristi.
Fólkið fylgdi Jesú því það vildi hlusta á hann og sjá táknin sem hann gerði. Það hafði farið um langan veg til þess að fylgja honum og var orðið hungrað og þyrst. Jesú var næmur á þarfir þeirra og vildi mæta þeim. Hann spurði því Filippus hvar þeir gætu fengið brauð fyrir fjöldann. Filippus sagði að þeir gætu ekki keypt brauð fyrir allt þetta fólk þótt þeir hefðu 200 denara sem voru jafnvirði 6 mánaða launa á þessum tíma. Hann var því vonlítill um að geta fengið mat handa öllum þessum fjölda. En Andrés hafði von, hann gerði það sem hann gat. Hann fann og kom með ungan dreng fram fyrir Jesú og treysti Kristi til að sjá um næstu skref. „Hér er piltur með fimm byggbrauð og tvo fiska.“ Drengurinn hafði ekki mikið að bjóða en Jesú gat nýtt það og gert úr því kraftaverk. Vonin brást því ekki.
Jesú tók matinn, gerði þakkir og deildi með fjöldanum. Hann gaf fólkinu líkamlega og andlega fæðu. Fæðu sem gaf af sér von, sátt og þakklæti, næringu sem var sett fram í kærleika. Það er einmitt þetta sem ég vonast til að gefa dætrum mínum þegar við förum með borðbænir. Við þökkum alltaf fyrir matinn heima, mér finnst það dýrmætur partur dagsins og einstakur hluti í uppeldi dætra minna. „Maðurinn lifir jú ekki á brauði einu saman heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.“
Í frásögn Jóhannesarguðspjalls er Jesú í umönnunarhlutverkinu sem við konur þekkjum svo vel. Í umhyggju sinni tjáir Jesú elsku sína, en við vitum að þetta er ein leið ástartjáningar. Að næra þá sem við elskum. Að elda mat og þjóna. Allt snýst þetta um kærleik. Við þráum öll að vera elskuð og þá helst skilyrðislaust. Við þráum það svo heitt að við leitum jafnvel leiða til þess að vinna okkur inn ást. Í vinnu minni með konum hef ég séð að allt of oft skortir á sjálfstraust kvenna. Sjálfsmynd þeirra er ekki sterk, það er líkt og afgangar gamalla hugmynda búi enn í viðhorfum þeirra, hugmynda um að konur séu ekki nógu góðar, þær séu ekki vel greindar, ekki rökvissar og geti ekki tekið ákvarðanir. Allt of oft leitast konur við að vera yfirmáta duglegar og skilningsríkar. Þær leggja mikið á sig til þess að líta vel út, þær fara í lýtaaðgerðir og erfiða megrunarkúra, allt til þess að upplifa sig elskuverðar. Kærleikur Guðs er slíkur að það er ekki hægt að vinna sér hann inn. Það þarf einungis að meðtaka skilyrðislausa elskuna og njóta þess að vera elskað barn Guðs. Guð elskar þig eins og þú ert, fullkomið sköpunarverk.
Við leitum öll að einhverju sem hreyfir við okkur, líkt og fjöldinn gerði sem fylgdi Jesú. Það sem ég staðnæmdist við í sögunni var þegar Jesú dró sig frá fjöldanum og fór upp á fjallið áður en hann kom til þeirra aftur. Hann dró sig í hlé til þess að næra sig og hvíla áður en hann hélt áfram að mæta fólkinu. Hann setti sjálfum sér mörk til þess að sinna sjálfum sér. Brotin sjálfsmynd kvenna sem ég nefndi hér áðan verður til þess að þær eiga erfitt með að setja mörk. Mörk sem eru undirstaða heilbrigðis. Mörk eins og Jesú setur hér. Jesú sýnir okkur þannig tvöfalda kærleiksboðorðið í verki. Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig, hlúðu að þér svo þú getir hlúð að öðrum. Það er einmitt þetta sem hreyfir við mér, þessi skilyrðislausa elska sem Kristur sýndi og sú skýra framsetning að við getum ekki elskað náunga okkar án þess að elska okkur fyrst. Sem betur fer hafa margar okkar náð því að tileinka sér þetta viðhorf þrátt fyrir andstreymi. Í gegnum aldirnar hefur verið gert lítið úr konum. Kvenréttindabaráttan hefur skilað miklum árangri en því miður er enn í dag svo fjarri því að konur séu viðurkenndar til jafns við karla. Sumsstaðar mega konur ekki sitja meðal karla, í strætó eða á veitingastöðum. Allt of margar konur sæta ofbeldi og misnotkun og sjálfstæði kvenna er víða óþekkt hugtak. Nýlega birtist frétt um konu sem var nauðgað og í kjölfarið refsað fyrir. Við þurfum ekki að leita til annarra trúarbragða, því miður viðgangast vondir hlutir einnig í skjóli kristinnar trúar. Það er í algjörri mótsögn við orð og gerðir Jesú sem hafði kærleikann alltaf að leiðarljósi.
Í eingyðistrúarbrögðunum, gyðingdómi, kristni og íslam er Guð karllægur. Ójafnvægi kynjanna sést vel innan kirkjunnar enda endurspeglar kirkjan það samfélag sem hún er í. Ennþá hafa konur ekki aðgang að vígðri þjónustu í stórum kirkjudeildum. Rómversk kaþólska kirkjan í bandalagi við múslimsk ríki hefur sett af stað átak sem brýtur á réttindum kvenna til að stjórna eigin barneignum.
Hlutfall kvenna og karla sem gegna áhrifastöðum þarf að vera jafnt innan kirkjunnar. Íslenska kirkjan er sett undir jafnréttislög og hefur leitast við að vera leiðandi og boðandi, fyrirmynd. Það er því alls ekki ásættanlegt að ekki sé unnið markvissum höndum í samræmi við jafnréttisstefnuna sem var samþykkt á kirkjuþingi 2009. Raunveruleikinn er því sá að enn sitjum við ekki öll við sama borð. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Réttindabarátta á ekki bara við um jöfnuð á milli karls og konu. En barátta kvenna þarf að eiga sitt rými. Konur þurfa hvatningu til þess að halda áfram að blása í lúðrana og keppa eftir þeim mannréttindum að konur séu viðurkenndar til jafns við karla í öllum málum.
Sagan sem við heyrðum áðan úr Jóhannesarguðspjalli sýnir okkur afstöðu Jesú. Hann valdi ekki bestu bitana fyrir sig og lærisveinana né fyrir nokkurn annan, þeir sátu ekki við háborð. Hann gaf ekki bara útvöldum að borða. Allir voru velkomnir, þau voru öll jöfn, þau sátu öll við sama borð. Þegar við göngum að borði Drottins hér á eftir þá erum við öll velkomin og öll jöfn. Þau sem standa að þessari rittúlkuðu kvennamessu gera það í von, þau koma fram fyrir Drottinn með sitt framlag og vænta. Eins og Andrés gerði. Kvennamessan hvetur konur til dáða og rittúlkunin opnar nýjar leiðir fyrir þá sem lifa við skerta eða enga heyrn.
Við eigum öll að hjálpast að í jafnréttisbaráttunni, við erum öll jöfn, við sitjum öll við sama borð frammi fyrir Kristi. Öll kyn, allar persónur, öll sköpuð í mynd Guðs.
Munum að Vonin, hún bregst okkur ekki.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.