„Spurðu ekki hvað landið þitt geti gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir landið þitt“, sagði John F. Kennedy í frægri innsetningarræðu sinni í janúar 1961. Spurðu ekki hvað einhver annar geti gert fyrir þig heldur hvað við getum gert saman, var inntak næstu setningar ræðunnar. Lokaorðin voru hins vegar þessi:
Einu öruggu verðlaun okkar eru góð samviska og sagan hinn endanlegi dómari yfir verkum okkar en göngum fram í forystu fyrir landið sem við elskum og biðjum Hann um blessun og hjálp, vitandi það að Guðs verk á jörðu verður sannarlega að vera okkar eigið verk.
Samviskan Kennedy heitinn talaði um góða samvisku sem okkar einu öruggu verðlaun fyrir að berjast góðu baráttunni, svo við notum orðalag postulans (2Tím 4.7). Í ritningarlestrum dagsins – Amos 5.14-15, 2Tím 4.5-8 og Lúk 12.42-48 - heyrum við um verðlaun og við heyrum líka um dóm. Það er hugarfarið og hjartalagið, viðleitni okkar sem er til umfjöllunar, er hún góð eða látum við stjórnast af illum hvötum? Það er hollt að skoða sjálfa(n) sig í ljósi þessara texta: Eflum við réttinn í samfélaginu? Erum við algáð í lífsmáta okkar, ekki bara þannig að við drekkum okkur ekki drukkin af víni (Ef 5.18) heldur sýnum aðgæslu og sjálfsaga á öllum sviðum lífsins? Varðveitum við trúna, sýnum við trúfesti og hyggindi gagnvart því sem okkur er trúað fyrir? Eða erum við hirðulaus í okkar daglega lífi, hyglum okkur sjálfum, látum eftir græðgi og eigingirni?
Samviskan er merkilegt fyrirbæri og hafa verið skrifaðir lærðar ritgerðir um hana. Að sönnu er erfitt að finna henni stað með raunvísindalegum sönnunum en þrátt fyrir það þekkjum við vonandi flest bit hennar þegar okkur verður á. Samviskan er hluti af okkar daglega tali, við dæmum mann og annan sem „samviskulausann“ á meðan það þykir góður kostur að vera samviskusöm. Samviskan getur verið bæði góð og vond og er þá átt við afleiðingar gerða okkar sem valda mismunandi tilfinningum innra með okkur.
Þannig má taka undir með forsetanum þegar hann líkir góðri samvisku við verðlaun. „Nú get ég farið með góðri samvisku í sumarfrí“, hugsum við kannski þegar við höfum lokið brýnustu verkum í vinnu og heima – og verðlaunum okkur með því að sinna okkar hugðarefnum, gleðjast með börnum, við bóklestur, hreyfingu, á ferðalagi eða hvað það nú kann að vera.
Verðlaun fyrir viðleitni Í biblíutextunum er líka talað um verðlaun fyrir vel unnin verk og réttláta viðleitni. Í fyrsta lagi eru verðlaunin líf og nærvera Guðs: „Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munuð þér lifa og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður…“ (Amos 5.14). Þá er talað um miskunn Guðs og „sveig réttlætisins“ (2Tím 4.8) sem verðlaun þeirra sem hafa hugarfar trúfesti og sjálfsstjórnar.
Guðspjallið segir að hið trúa og hyggna ráðsfólk gefi þeim sem þau eru sett til að annast „skammtinn á réttum tíma“ (Lúk 12.42). Það er vert að íhuga hvað sú lýsing á réttu hugarfari og góðri viðleitni merkir í okkar lífi. Hver eru þau sem þér hefur verið falið að annast? Athugaðu að það er kannski ekki bara fólk eða verkefni á heimili þínu eða vinnustað. Hér gæti verið um að ræða eitthvað sem er fjarlægt þér á þessari stundu en þú finnur samt köllun til að annast. Gefur þú þeim skammtinn á réttum tíma – sinnir þú þeim af alúð og samviskusemi?
Þá eru verðlaunin þessi: „Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar“ (Lúk 12. 44). Hvað merkir það? Jú, þá ert þú í liði með Guði, í verki með höfundi lífsins, hluthafi í því undri sem kærleikur Guðs vill koma til leiðar í þessari veröld. Ekki lítil verðlaun það.
Að vinna Guðs verk „Here on earth, God's work must truly be our own“, sagði forsetinn forðum og minnti um leið á nauðsyn þess að biðja um blessun og hjálp Guðs. Hvað átti hann við með því að Guðs verk á jörðu verði að vera okkar eigið? Mér finnst líklegast að hann sé að minna á þá gagnkvæmni sem þarf að ríkja í viðhorfi okkar til Guðs og góðra verka. Við erum hendur og fætur Krists, er stundum sagt, ein af leiðum Guðs til að koma kærleikans verki til leiðar á jörðu. Og góða viðleitnin okkar þarfnast hjálpar og blessunar Guðs til að bera ávöxt í góðum verkum, það er mín reynsla í gegn um lífið.
Bænin er þar í lykilhlutverki. Sem kristið fólk getum við ekki bara brunað út í daginn og ætlast til þess að Guð sé með okkur eins og vant er, af gömlum vana. Nei, við þurfum að tengja okkur uppsprettunni, minna okkur á hver við erum í Kristi og biðja heilagan anda Guðs að leiða okkur í vandasömum verkefnum, hvort sem er inni á heimlinu – ekki síst þar! – eða utan dyra og á vinnustað. Þessi tenging við Guð á sér stað í daglegum lestri okkar í Biblíunni og í bæn upphátt og í hljóði, án afláts í hjartanu.
Þar mótast hugarfarið, þar fær heilagur andi unnið sitt verk, mótað okkur til myndar Krists, því án hans er viðleitni okkar sem viljum kalla okkur kristin, harla máttlaus. Það er fyrir náð Guðs sem góðu verkin verða til eins og sagt er við hverja skírn í þjóðkirkjunni eftir að minnt er á Jesú sem ljós heimsins (Jóh 8.12): ,,Þér eruð ljós heimsins. Þannig lýsi ljós yðar mönnunum, til þess að þeir sjái góðverk yðar og vegsami föður yðar sem er í himnunum”, eða með orðum 2007-þýðingarinnar: ,,Þér eruð ljós heimsins. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum” (Matt 5.14, 16).
Ábyrgð okkar er mikil Því ábyrgð okkar er mikil. Við erum erindrekar Krists, boðberar sáttar og friðar inn í mannlegt samfélag (sbr. 2Kor 5.20: „Ég er því erindreki Krists sem Guð notar til að hvetja ykkur. Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð“). Í því ljósi þurfum við að skoða lokaorð guðspjallsins sem gætu vissulega fengið okkur til að andvarpa eins og lærisveinarnir við annað tækifæri: Þung er þessi ræða! (Jóh 6.60).
Því hvað á Jesús við með eftirfarandi orðum? „Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barin mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð“ (Lúk 12.48). Jú, hér minnir Drottinn á ábyrgð okkar sem höfum fundið köllun hans inn í líf okkar með einum eða öðrum hætti, höfum þegið náð á náð ofan (Jóh 1.16).
Köllun til góðra verka, köllun til lífs Við erum kölluð til að vera boðberar kærleikans í lífi og verki og öll viðleitni okkar á að taka mið af því. Viðleitni, segi ég, því þó klisjan um mannlegu mistökin - errare humanum est - komi stundum eins og blaut tuska í andlit þeirra sem verða fyrir afleiðingum þeirra, megum við þó aldrei gleyma að öllum verður okkur á. Fullkomnunartakmarkinu sem Jesús setur okkur í Fjallræðunni er ekki náð (sjá Matt 5.48 og Kól 2.10, 4.12 en líka Fil 3.12). Það er hins vegar hjartalagið og trúfestin við kærleika Guðs sem öllu máli skiptir – og sönn iðrun þegar við römbum út af þeim vegi.
Það er mikill munur á því að þekkja vilja Guðs og velja að fara ekki eftir honum og svo því að vita ekki hvað er rétt að gera, vita ekki betur. „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þér gera“, sagði Jesús á krossinum (Lúk 23.34). Höfundur Jakobsbréfsins segir berum orðum: „Hver sem því hefur vit á að gera gott en gerir það ekki, hann drýgir synd“ (Jak 4.17).
Kæru vinir. Minnumst ábyrgðar okkar sem samverkamenn Guðs (1Kor 3.9). Spyrjum ekki hvað Guð geti gert fyrir okkur heldur hvað við getum gert fyrir Guð. Sinnum því verkefni saman, hvert fyrir annað og hvert með öðru í þágu mannkyns sem enn líður, rúmri hálfri öld eftir hvatningarræðu Kennedys um samstöðu fyrir bættum kjörum fólks um allan heim. Leitum hins góða en ekki hins illa, eflum réttinn í samfélaginu, sýnum sjálfsaga, trúfesti og hyggni í allri okkar þjónustu við Guð og samferðafólk okkar í veröldinni. Það er sjálfsögð og eðlileg viðleitni kristinnar manneskju.
Okkur hefur verið gefið mikið. Lítum á það sem heiður að Guð krefur okkur mikils á móti í umönnun þeirra sem hann hefur sett okkur til að þjóna. Verðlaunin eru líf í nálægð Guðs, líf sem vex fyrir tilstuðlan heilags anda, líf í fullri gnægð (Jóh 10.10).