Draumur sebrahestsins
Ljónið, sebrahesturinn, gíraffinn og flóðhesturinn eru bestu vinir. Þau búa í glæsilegum dýragarði í miðri New York borg. Lífið er í föstum skorðum og engar óvæntar uppákomur. Á föstudögum eru skólaheimsóknir og þá flykkjast nemendur í dýragarðinn með tilheyrandi gleðilátum og gamni. Þegar dýragarðurinn lokar tekur starfsfólkið við, þrífur og sópar og býr í haginn fyrir notalega hvíld dýranna. Þeim er séð fyrir mat og umhirðu og þurfa aldrei að lyfta hendi - eða loppu. Þau eru örugg, og vel geymd í búrunum sínum. Þau þekkja ekkert annað og dreymir ekki um neitt.
Á þessu er ein undantekning. Sebrahesturinn hefur óljósa hugmynd um að einhvers staðar langt í burtu sé eitthvað sem heitir óbyggðir. Þar geti dýr hlaupið um án hindrana. Þar séu engar manneskjur sem ráðskast með þau. Þar séu engir múrar. Sebrahesturinn fer að leggja á ráðin hvernig hann geti brotist út úr öryggi dýragarðsins og komist í paradísina sem hann þráir, óbyggðirnar þar sem frelsið og fegurðin ein ríkir.
Borða, sofa, vinna
Átt þú svona draum? Draum um að vera á staðnum sem þú átt að vera, upplifa frelsi, gleði og líf? Þegar ég var unglingur fór ég á kristilega fundi með jafnöldrum mínum. Einu sinni kom gestur á fundinn og stjórnaði hópefli þar sem við áttum m.a. að skrifa hvað við sæjum okkur sjálf þegar við yrðum fullorðin, eftir svo og svo mörg ár. Ég er löngu búin að gleyma hvað ég setti á miðann minn - en man eftir einu svari frá einhverjum strák sem skrifaði þetta á miðann sinn: borða-sofa-vinna.
Mér þótti þetta frekar metnaðarlaust og hugmyndasnautt hjá honum. Hann myndi algjörlega fara á mis við gleðina í lífinu. En sannleikurinn er að með þessari knöppu framsetningu hitti hann naglann á höfuðið. Þegar við erum orðin fullorðin virðist tíminn okkar ótrúlega oft hreinlega sogast inn í brauðstrit og lífsbaráttu og enginn tími er eftir til að sinna neinu öðru.
Aðstæður okkar geta þá verið eins í dýragarðinum þar sem Alex, Melman, Gloria og Marty búa. Við höfum það svo sem ágætt en erum föst í hugsunarhætti og rými sem við erum ekki sköpuð fyrir. Handan þess að borða, sofa og vinna allar stundir, er lífið sjálft. Það kallar á okkur, eins og óbyggðirnar á sebrahestinn.
Borða, biðja, elska
Það má hugsa sér að hnika framtíðarsýn unga mannsins aðeins - í ljósi annarrar kvikmyndar sem heitir Borða, biðja, elska. Þar er líka framtíðarsýn, en grunngildin eru önnur. Við byrjum eins, á næringunni sem er forsenda lífsins en svo horfum við til bænarinnar sem í senn himintenging jarðtenging okkur og síðast til ástarinnar sem er lýsing á fallegum tengslum okkar við aðra. Á konudegi eru þetta gildi, grunngildi, sem er að horfa til.
Því það skiptir máli að horfa til lífsins sem við viljum lifa. Horfa til himinins og vænta þess góða. Horfa til annars fólks og vænta þess góða. Sjá það fyrir okkur, melta, dreyma það, bragða það og heyra það. Trúa því.
Bartímeus og Halldór Sævar
Við lesum í guðspjallinu um Bartímeus sögu um blindan mann sem sá fyrir sér lífið sem hann vildi lifa. Þegar tækifærið kom, vissi hann hvað hann þyrfti að gera til að draumurinn rættist. Og trú hans bjargaði honum.
Í Morgunblaðinu í vikunni var viðtal við ungan mann sem hefur nýlega misst sjónina eftir að hafa verið mjög sjónskertur allt sitt líf. Hann hefur gengist undir ótrúlega margar aðgerðir, til þess að reyna að bjarga sjóninni en eftir síðustu aðgerðina þá kom í ljós að hann var búin að missa hana alveg.
Það krefst mikillar vinnu að aðlaga sig tilveru án sjónar, segir Halldór Sævar Guðbergsson, sem býr á Akureyri með fjölskyldu sinni. Það er heldur ekki spurning um að sætta sig við orðinn hlut - miklu frekar að læra að lifa með honum.
Meik, feik, steik
Halldór segir við blaðamann: Auðvitað eru dagarnir misgóðir. Mig langar heldur ekki að gefa þau skilaboð að það að vera blindur sé ekkert mál. Eina mínútuna finnst mér ég vera gjörsamlega að „meika það“, næstu mínútuna er ég að „feika það“ til þess að „meika það“ og þriðju mínútuna er ég alls ekki að „meika það“. Þá er allt í steik.
Lýsing Halldórs Sævars á lífi hins blinda snertir okkur, vegna þess að hún dregur fram hversu mikið hin sjáandi geta tekið hlutum sem sjálfssögðum og gefnum, á meðan þau sem eru blind geta það ekki. Lífsbarátta hinna blindu krefur þau um annars konar nálgun - en Halldór segir að hann sé sannfærður um að það sé hægt að lifa með þessari fötlun. Það sýna honum dýrmætar fyrirmyndir sem hann hefur kynnst í gegnum árin.
Til að geta lifað með blindunni, þurfa því ákveðnir hlutir að vera í lagi. Því vill Halldór berjast fyrir. Það þarf, segir hann, að auka menntunar- og starfsúrræði fyrir blinda, það þarf að hækka hlutfall langskólagenginna meðal blindra og það þarf að tryggja virkniúrræði fyrir blint fólk á öllum aldri.
Hér birtist falleg og heilbrigð sýn á manneskjuna sem vill vaxa og dafna og láta drauma sína og drauma annarra rætast – og er tilbúin að leggja á sig baráttu til að svo megi verða. Slík trú, sem skilar sér í verki, bjargar.
Tveir karlar, margar konur
Orð og verk Jesú gera hann að fyrirmynd okkar í lífinu. Þau beina sjónum okkar upp úr lífi sem snýst eingöngu um að borða, sofa og vinna til lífs þess sem horfir upp og borðar, biður og elskar.
Halldór Sævar er fyrirmynd. Hann mætir erfiðum aðstæðum með því að halda áfram og vinna að breytingum sem koma öðrum til góða. Hann innir af hendi kærleiksþjónustu til að draumar annarra megi rætast.
Konurnar í lífi okkar líka eru fyrirmyndir. Á konudegi skulum við minnast framlags þeirra og þakka fyrir mæðurnar og systurnar, formæðurnar, ástkonurnar og dæturnar. Við skulum þakka fyrir lífið saman; kannski borða góðan mat, biðja og elska.
Því þannig er lífið gott.
Guðspjall: Mrk 10.46-52