Þynnkumórallinn

Þynnkumórallinn

ég veit ekki hvað ég lá lengi í faðmi vetur konungs en mig rámar í annarlega vellíðan sem dró úr mér mátt til að rísa á fætur. Þarna fékk ég hins vegar að reyna að það er til nokkuð sem heitir innri rödd og hún á sér skýringar utan hins sýnilega veruleika
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
05. ágúst 2012
Flokkar

Það eru eflaust margir sem hafa vaknað með nístandi móral í morgun, það er nú einu sinni sunnudagur um verslunarmannahelgi. Þetta er vond tilfinning, vond líðan að vakna upp eftir næturbrölt og drykkju sem manni þótti þó fullkomlega þess virði á meðan á henni stóð. Það eru margar ástæður fyrir hinum svokallaða þynnkumóral, bæði líffræðilegar og félagslegar, það er vitað að áfengi dregur úr magni serótóníns í heila en serótónín er það boðefni sem stjórnar andlegri líðan og skortur á því ýtir undir kvíða og sjálfsfyrirlitningu. Já samspil líffræði og félagsfræði er grundvallandi í mennsku okkar. Ég heyrði haft eftir orðheppnum manni að eilífðin væri ekki endilega trúarlegt viðfangsefni, í hans huga er eilífðin tíminn sem það tekur leigubíl að koma eftir að þú hefur vaknað í ókunnugu húsi við hliðina á ókunnugri manneskju. Það er sjálfsagt skrýtið að prestur sem lifir og hrærist í ögurstundum fólks skuli viðurkenna það að samúð hennar sé sjaldnast jafn mikil og þegar hún ekur niður eftir Eyrarlandsvegi á sunnudagsmorgni áleiðis til kirkju og sér ungmenni skakklappast eftir gangstéttinni, með brakandi munnþurrk og brostin augu. Í mér bærist þá ýmist móðurleg umhyggja, húmor fyrir eymdinni og samhygð þess sem gekk þessa götu oftar en hún man á menntaskólaaldri. Og hér stend ég í dag og get ekki annað, þrátt fyrir alla „happy hour“ tímana á Góða dátanum í „denn“ og Torginu sem þá var og hét. Einu sinni lent ég þó í lífsháska. Það var miður janúarmánuður og ég var 17 ára í stuttermabol og leðurjakka sem bróðir minn hafði keypt á flóamarkaði í París, það var jakki sem gekk þar allt árið en var til lítils gagns á íslenskum útmánuðum. Mér hafði verið boðið í partý hjá fjórðu bekkingum, það vissi á gott a.m.k hvað veigar varðar. Um nóttina hélt ég síðan fótgangandi áleiðis á heimavist menntaskólans sem þá var löngu lokuð í von um að Guffi vinur minn gæti opnað leyniinnganginn. Ég öslaði skaflana í vetrarnóttinni og kuldinn næddi um vínslegnar æðarnar svo mér var í raun bæði heitt og kalt. Ef Þórunnarstrætið hefur einhvern tímann minnt mig á veginn til eilífðar, þá var það þarna, samt var Glerártorg ekki risið þá. Um miðja vegu varð mér fótaskortur í gömlu hermannaklossunum og ég féll með þunga niður í mjúkan skafl sem greip mig eins og skýjabólstri á himni, ég veit ekki hvað ég lá lengi í faðmi vetur konungs en mig rámar í annarlega vellíðan sem dró úr mér mátt til að rísa á fætur. Þarna fékk ég hins vegar að reyna að það er til nokkuð sem heitir innri rödd og hún á sér skýringar utan hins sýnilega veruleika, ég fæ aldrei almennilega skilið hvað varð til þess að ég reif mig upp úr draumkenndum faðmi vetursins og hélt áfram að ösla snjóinn milli þess sem herra Captain Morgan brá fyrir mig fæti með sverði sínu og skildi. Og ég komst heim og Guffi opnaði leyniinnganginn en ástand mitt var þá einfaldlega með þeim hætti að það gat ekki farið framhjá elskulegri húsmóður heimavistarinnar sem tók festulega en samt fallega á móti týndu dótturinni , bar hana inn í rúm og háttaði undir sæng, merkilegt að hugsa til þess að sú góða kona heitir María. Morguninn eftir var mér gerð grein fyrir atburðum næturinnar og þeim lífsháska er að mér hafði steðjað og samkvæmt reglum skólans var ég send á fund hæstvirts skólameistara sem þá var Valdimar Gunnarsson frá Rein í Eyjafjarðarsveit. Ég settist með munnþurrki og mórölsku máttleysi í sófann og beið þess sem verða vildi, en það var eftirfarandi: Skólameistari hóf stillilega að gera mér grein fyrir þeim alvarlegu aðstæðum sem ég hafði skapað sjálfri mér um nóttina ásamt því að hafa brotið reglur skólans, hann talaði af hófsemd og stillingu en þó með mjög alvarlegum undirtón þannig að ef það hefði ekki verið fyllilega runnið af mér, þá gerðist það þarna. Merkilegast þótti mér þegar hann bað mig að fara skilmerkilega yfir allar þær víntegundir sem ég hefði bragðað og ekki var laust við að ég fylltist dálitlum kjánahrolli yfir sjálfri mér þegar ég nefndi orðið Malibu á nafn eins og ég væri einhver ægileg heimsdrottning. En Valdimar lét sér hvergi bregða og hlýddi á upptalningu mína rétt eins og ég hefði verið að gera grein fyrir heimsálfunum á landafræðiprófi, ég hafði að vísu lokið því prófi um nóttina með miklum „bravör“. Ég áttaði mig engan veginn á því hvað þetta ætti að fyrirstilla en sé eftir á hvað bjó að baki, þegar hann hafði farið vandlega yfir málið og gert mér grein fyrir ábyrgð minni stóð ég á fætur og gerði mig líklega til að yfirgefa kontor meistarans, þá heyrði ég sagt mildum rómi að baki mér „ Hildur Eir, svo veistu að þetta þarf ekki að fylgja þér alla tíð.“ Þessi lífsreynsla kom upp í huga minn við lestur á guðspjalli dagsins sem og í samhengi þeirrar helgar er senn rennur sitt skeið. Það eru margir með móral akkúrat núna og í raun myndi ég kannski gera mest gagn með því að trítla upp á tjaldstæðið í Þórunnarstræti og flytja þessa prédikun þar. Guðspjall dagsins fjallar um í raun um miskunnsemi. Það liggur kannski ekki í augum uppi en kjarni þess fjallar um það að Guð fílar ekki kennarasleikjur þó hann vissulega elski þær. Þjónustan við Guð er ekki þjónusta við Guð heldur náungann, þess vegna snýst preststarfið t.d. fyrst og fremst um það að vera manneskja, ef svo er ekki þá er presturinn eins og ráðsmaður sem sóar eigum húsbónda síns, því eigur hans eru mennska og miskunnsemi, framar öllu öðru. Og þó að guðspjall dagsins fari dálítið óvenjulegar leiðir í því að undirstrika þennan sannleika, þá er undirtónninn sá að við eigum að sýna náunga okkar miskunnsemi. Miskunnsemi er ekki meðvirkni, Valdimar skólameistari var engan veginn meðvirkur með Malibu drottningunni þar sem hún sat með rauðsprungin augu fyrir framan hann, heldur lét hana þvert á móti horfast í augu við alvarleika málsins. Og það sem meira er, hann lét hana sjálfa afhjúpa stjórnleysi sitt þar sem hún taldi upp allar víntegundirnar er höfðu runnið inn fyrir hennar varir þá um nóttina, þar var hann kænn. Lokaorðin voru hins vegar sprottin af miskunnsemi. „Þetta þarf ekki að fylgja þér alla tíð.“ Það er svo skrýtið að ég hef aldrei hugsað með skelfingu til þessa fundar, í fyrsta lagi vegna þess að ég var ekki niðurlægð, í öðru lagi vegna þess að allir héldu stillingu og í þriðja lagi vegna þess að mér var auðsýnd alvöru miskunn. Og veistu hvað? Ég hætti kannski ekki að skemmta mér en ég sjálf hef hins vegar aldrei aftur stefnt lífi mínu í voða með einum eða öðrum hætti. Kærleikur og miskunnsemi eru ekki bara falleg orð á prenti, þau eru lífgefandi gildi í bókstaflegri merkingu. Unga fólkið sem ég sé liðast upp Eyrarlandsveginn á sunnudagsmorgnum eftir skrall næturinnar, þarf ekki á hirtingu að halda, heldur umhyggju og miskunnsemi, lífið er fullt af krókaleiðum sem við þurfum stundum að fara, hvort sem þær teljast æskilegar eða ekki. Mórallinn hefur nokkuð sjálfstæðan vilja, hann er bæði lífefna og félagsfræðilegur, en mennska er val og miskunnsemi er mennska. Amen