Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Sól eg sá,
svo þótti mér,
sem eg sæi göfgan guð;
henni eg laut
hinsta sinni
aldaheimi í.
Þetta vers er hluti af Sólarljóðunum. Þau eru trúlega eitt
þekktasta, kristna helgikvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu. Höfundurinn
er óþekktur en Sólarljóðin urðu að öllum líkindum til á 13. öld. Þau tilheyra
svo kölluðum leiðslubókmenntum, vegna þess að þau lýsa andlegri sýn sem
höfundurinn hefur orðið fyrir, í þessu tilfelli leiftursýn inn í sjálfa Paradís.
Sólarljóðin eru ekki fyrirferðarmikil í nútímanum en minna reyndar á sig í
stofunni heima hjá mér og mörgum öðrum, einmitt fyrir þessi jólin. Ástæðan er
sú að Kærleikskúlan í ár, sem er árlega seld til styrktar fötluðum – meðal
annars af Soroptimistum hér fyrir austan – birtir að þessu sinni orðin Sól ég sá í fallegri hönnun eftir
listakonuna Ólöfu Nordal.
Eins og við heyrðum
hefur höfundi Sólarljóðanna verið gefin opinberun, og þar sér hann Guð sjálfan
birtast eins og skínandi sól.
Heyrum annað erindi úr
kvæðinu:
Sól eg sá
sanna dagstjörnu
drúpa dynheimum í;
en Heljar grind
heyrðag á annan veg
þjóta þungliga.
Hver er þessi dagstjarna sem
þarna birtist?
Bókmenntafræðingarnir hafa velt því fyrir sér og komið með ýmsar tilgátur,
en margir hallast vitaskuld að því að hér sé einfaldlega átt við Jesú Krist –
enda er Jesús kallaður „morgunstjarnan“ bæði í Opinberunarbók Jóhannesar
(22.16) og í Síðara Pétursbréfi (1.19).
Allt þetta myndmál, um sólina og morgunstjörnuna – og um ljósið sem
Jóhannes guðspjallamaður er svo hrifinn af að vísa í – það talar til okkar hér
norður á kalda og dimma Íslandi á þessum árstíma. Í dag eru jú vetrarsólhvörf
og dagsbirtan ósköp lítil. Einmitt þá er svo stórkostlegt að sækja sér styrk í birtu
trúarinnar, og sjá fyrir sér hvernig Guð vill koma eins og skínandi sól til
okkar í Jesú Kristi og lýsa inn í hjartaræturnar okkar.
Á seinni hluta aðventunnar er, samkvæmt gamalli hefð, persóna og boðskapur
Jóhannesar skírara gjarnan til íhugunar í kirkjunni. „Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið“ (Jh 1.8)
segir guðspjallið um köllun Jóhannesar. Hann átti að undirbúa jarðveginn fyrir
komu Jesú í heiminn.
Það felst falleg táknfræði í tímasetningu á messudögum þeirra Jóhannesar og
Jesú miðað við sólarganginn í okkar heimshluta. Jónsmessa, sem er tileinkuð
Jóhannesi skírara, er jú haldin þegar sól er hvað hæst á lofti og eftir hana
fer birtan að minnka. Jólin eða Kristsmessan (Christmas á ensku) er svo haldin
þegar sólin er aftur að byrja að hækka á lofti. Þetta getur minnt á orð
Jóhannesar um Jesú: „Hann á að vaxa, en ég á að minnka.“
Jóhannes steig ekki fram í þeim tilgangi að auglýsa sjálfan sig, hvað þá að
afla sér auðs eða vinsælda. Hann steig fram til að benda á Jesú, til „að vitna
um ljósið og vekja alla til trúar á það“ – og um leið til að kalla fólk til að
iðrast og bæta breytni sína.
Það má kannski líka telja það táknrænt að hugsa til Jóhannesar svona stuttu
fyrir hátíðina, þegar margir eru á kafi í jólahreingerningunni. Meðan ýmsir eru
duglegir að þurrka innan úr skápunum og skúra undir sófasettið, erum við minnt
á að mikilvægast af öllu því sem við gerum fyrir jólin er að hreinsa til hið
innra.
Margir sjá ekki til
sólar í lífinu. Syndin truflar víða sólarsýn, því að hún veldur græðgi, illsku
og óréttlæti, sem elur af sér fátækt, fordóma og ofbeldi, svo nokkuð sé nefnt. Vanlíðan,
kvíði og ofneysla vímuefna byrgir líka sólarsýnina hjá allt of mörgum.
Ef við horfumst í augu við okkur sjálf og leggjum fortíðina okkar og
syndirnar allar fram fyrir Guð, þá getur gleðin yfir jólunum orðið okkur ennþá
dýpri. Þá gleðjumst við innilega yfir því að Kristur kom til okkar, til að vísa
rétta veginn, og til að deyja fyrir brestina okkar.
Sól eg sá,
svo þótti mér,
sem eg sæi göfgan guð;
henni eg laut
hinsta sinni
aldaheimi í.
Okkur eru ef til vill ekki gefnar sýnir eins og höfundi Sólarljóðanna, en Guð vill samt kalla okkur til að beina sjónum okkar að ljósi Jesú Krists. Þá getum við bæði séð til sólar, og verið sólarberar Guðs í kringum okkur!
Amen.