Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Matt 8.23-27
Moldviðri
Yfirskrift guðspjallsins, sem er texti okkar hér í dag, er “í stormi” og er það að mörgu leyti vel viðeigandi, því báturinn í frásögninni, sem inniheldur Jesú og lærisveinana er í rauninni táknmynd kirkjunnar, en þessa dagana verður ekki annað sagt, en að kirkjan búi við nokkuð stormviðri, sem af sumum er reyndar kallað “moldviðri” en moldviðri er haft um það þegar talað er af miklum móð um eitthvað á villandi hátt.
Sjálfur er ég ósáttur við að orðinu “moldviðri” sé kastað fram í tengslum við þessa umræðu sem nú er efst á baugi í sambandi við kirkjuna og réttindabaráttu hinna samkynhneigðu, því það er sannfæring mín, að moldviðri hafi ekki á nokkurn hátt verið þyrlað upp, heldur hafi verið fjallað um málin af prýðilegri yfirvegun og þekkingu, og umfram allt á málefnalegan hátt þar sem af öllum aðilum hefur verið reynt að tefla fram rökum og skynsamlegum sjónarmiðum.
Að mínum dómi verður því ekki sagt að umræðan hafi verið villandi eða málflutningur ósanngjarn, og í þessu sambandi mætti t.d. nefna, að ekki hefur verið tekist á um persónur og þær ataðar auri, eins og stundum vill verða, nema þá ef vera skyldi að tekist hafi verið á um persónu kirkjunnar, sem auðvitað þarf eins og allir aðrir að hafa fyrir því að vera til og reynast trúverðug.
“Hin óheiðarlega kirkja”
Öll þessi umræða er hins vegar á þann veg að við hljótum að spyrja okkur að því hvert eðli kirkjunnar sé?
Hvers konar fyrirbæri er kirkjan, sem við öll tilheyrum en vitum ekki alltaf hvernig við eigum að haga okkur gagnvart, því stundum virkar hún svo hátt upp hafin og fjarlæg, að það er engin almennileg leið til að nálgast hana?
Í nýlegri bók, sem gefin var út í Bandaríkjunum fyrir u.þ.b. þremur árum síðan, tekst höfundurinn, Jack Good sem sjálfur hefur verið prestur í um 40 ár, á við spurningar um það hvað kirkjan sé og hver séu vandamál hennar í nútímanum.
Bókina kallar hann því beinskeytta nafni “The Dishonest Church” eða “Hin óheiðarlega kirkja” þannig að óhætt er að segja að hann skafi ekki utan af hlutunum.
Með þessu er hann þó ekki að gefa í skyn að kirkjan sé eitthvað óheiðarlegri stofnun en hver önnur eða að þar ríki eitthvað meiri eða verri spilling en annars staðar í samfélagi okkar mannanna, heldur er hann fyrst og fremst að fjalla um kirkjuna í ljósi þess vanda sem hún stendur frammi fyrir í boðuninni.
Höfundurinn bendir á, að alls staðar sjái hann dæmi um það sama, en það er það, að prestar og leiðtogar kirknanna þori ekki almennilega að bera á borð fyrir meðlimi safnaðanna hina opinskáu og hreinskilnu umræðu, sem svo oft á sér stað um guðfræðileg og trúarleg efni á meðal hinna lærðu, og þá sérstaklega á vettvangi akademíunnar og háskólanna.
Fyrir vikið vill hann meina, að hinir leiku – þ.e. hinir óbreyttu meðlimir safnaðanna, sem ekki skarta neinnir sérstakri trúarlegri menntun – fari á mis við mikilvægar forsendur þeirrar trúarlega glímu, sem sérhver maður þarf í rauninni að takast á við, eigi trúarlíf hans að geta vaxið og þroskast. Bendir hann á, að af einhverjum ástæðum, sem séu í rauninni óljósar, þá sé eins og prestarnir og leiðtogarnir líti jafnan þannig á, að hinir leiku séu ekki almennilega í stakk búnir til að takast á hendur þá trúarlegu glímu, sem þeir sjálfir hafa í rauninni þurft að ganga í gegnum til þess að trú þeirra mætti vaxa og dafna. Leggur hann síðan áherslu á, að með þessu, sem hann kallar “óheiðarleika kirkjunnar”, sé vegið að rótum trúarinnar, því trúin, rétt eins og allt annað, þurfi sín vaxtarskilyrði þar sem fólki sé gefið tækifæri til að takast á við trúarlegar og andlegar spurningar, en sé ekki bara sagt hverju það eigi að trúa í blindni án þess að kröfur séu gerðar þar um skilning.
Óreiða
Í framhaldi af þessari gagnrýni sinni, leggur hann svo áherslu á, að mikilvægt sé að greina misjafnar og ólíkar þarfir þeirra sem eru að fást við glímutök trúarinnar, og bendir á að á trúarinnar góðu göngu séu menn auðvitað misjafnlega á vegi staddir og með ólíkar þarfir og ólíkar spurningar sem kirkjan þarf að geta mætt með margvíslegum hætti.
Sumir eru þannig, segir hann, að þeir þurfa helst alltaf að hafa fast land undir fótum – hafa allt í röð og reglu, og vita af hverjum hlut á sínum stað.
Öðrum er hins vegar þannig farið, að þeir geta lifað við mikla óreiðu og er sama þótt þeir þurfi að búa við óvissu og óöryggi, og þurfi að troða marvaðann um stund, því þeir gera sér grein fyrir afstæði hlutanna, og gera sér grein fyrir því að afstaða okkar til manna og málefna geta verið ólík eftir því hver bakgrunnur okkar er, og hver staða okkar gagnvart þeim kann að vera.
Óreiðuþol okkar er m.ö.o. afar ólíkt.
Sumir vilja fá skýr svör við öllu strax, á meðan aðrir gera sér ljóst að stundum getur verið betra að búa við óvissu um hríð frekar en að sitja uppi með ófullkomin svör.
Í þessu sambandi kemur mér í hug spjall nokkurra háskólanema, sem ég var þátttakandi í þegar ég fyrir nokkrum misserum síðan nam kennslufræði til kennsluréttinda við Háskólann.
Vorum við samankomnir nokkrir nemendur eftir kennslustund til að tala saman um eitt námskeiðið, þegar ung kona í hópnum sagði að hún hefði áður verið búin að taka áþekkt námskeið með öðrum kennurum sem hún sagði að sér hefði fundist öllu betra en það námskeið sem við sátum og vorum að ræða saman um. Var greinilegt að þetta námskeið sem hún hafði áður tekið við Háskólann hafði haft allnokkur áhrif á hana og opnað henni nýja sýn á margt og nýjan skilning sem hún ekki hafður áður haft.
Karlmaður í hópnum hafði einnig tekið þetta sama námskeið og hún. Hafði honum hins vegar ekki fundist það eins gott og henni, og í rauninni orðið fyrir vonbrigðum með það, og sagði hann ástæðuna vera þá, að sér hefði fundist námskeiðið svo laust í reipunum, að jaðrað hefði við glundroða. Unga konan var fljót að samsinna þessu með glundroðan og óreiðuna á allri framsetningu námsefnisins, en sú óreiða hafði henni hins vegar fundist einn helsti kostur námskeiðsins, því þarna hafði hún fundið fyrir einhverskonar frelsi til að tileinka sér það sem til umfjöllunar var, en ekki fundið fyrir neinskonar þrýstingi eða skilaboðum um það hvernig hún ætti að skilja eða tileinka sér umfjöllunarefnið.
Þarna voru því tvær manneskjur með ólíkt óreiðuþol, ef svo má að orði komast. Fyrir öðru þeirra var óreiðan kostur sem fól í sér frjálsræði, en fyrir hinu var óreiðan ókostur, sem gerði það að verkum að sá hinn sami fann sig sem í lausu lofti og var kannski fyrir vikið ekki eins tilbúinn til að tileinka sér það sem um var að ræða.
Við sjáum á þessu hvað við mennirnir getum verið ólíkir og hvað það er misjafnt sem talar til okkar og verður til að gefa okkur nýjan skilning.
Kaos og kosmos
Stjórnunarfræðingurinn og háskólakennarinn, Stephen Covey - en bækur eftir hann hafa m.a. verið þýddar á íslensku - segir að í starfi sínu sem kennari hafi hann komist á þá skoðun að mörg af allra bestu námskeiðunum sem hann hafi haldið hafi verið þannig fram sett, að jaðrað hafi við glundroða, því staðreyndin er nefnilega sú, að glundroði getur falið í sér sköpunarmátt. “Kosmos” – hinn skipulagði heimur – sprettur upp úr “kaos” – óreiðunni.
Þetta þekkjum við sem hér erum auðvitað af fyrstu versum Ritningarinnar, þar sem talað er um að jörðin hafi verið auð og tóm, og að myrkur hafi verið yfir djúpinu, en djúpið er það sem felur í sér hið óræða og óskiljanlega.
Andi Guðs sveif hins vegar yfir vötnunum og Guð sagði “verði ljós og það varð ljós” en með ljósinu, sem segja má að sé grundvallarbyggingareining sköpunarinnar, tók hið skipulagða og skiljanlega við af hinu óskipulagða og óskiljanlega.
“Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?”
Kirkjan stendur um þessar mundir frammi fyrir ákveðnum glundroða og óreiðu, því það eru uppi kröfur sem ekki fyrir svo mörgum áratugum síðan hefði þótt með öllu óhugsandi að nokkru sinni yrðu settar fram.
Þau sem um aldir hafa verið felum, því þau hafa þurft að skammast sín fyrir hneigðir sínar og innstu kenndir, eru nú komin fram í dagsljósið, og gera þá kröfu að verða viðurkennd til jafns við aðra og að fá réttindi til jafns við aðra.
Allt hefur þetta orðið til þess, að það stendur styr um kirkjuna, þannig að óhætt er að segja að rétt eins og í guðspjallinu þá gangi bylgjur yfir bátinn.
Það er svo alveg ljóst að óreiðuþol okkar gagnvart þessu öllu saman er misjafnt, og á meðan sumum finnst sem allt varðandi kirkjuna sé á hverfanda hveli, verði orðið við óskum homma og lesbía um að fá að ganga í heilagt hjónaband, þá er það líka ljóst, að þeir eru margir innan kirkjunnar sem finnst að hér sé ekki um tiltökumál að ræða sem auðvelt eigi að vera að ráða fram úr.
Á meðan þetta mál er hins vegar ekki til lykta leitt á vettvangi kirkjunnar, þá ganga bylgjurnar yfir og óeining ríkir, þannig að sumum er það efst í huga að kirkjan hljóti að skaðast, og jafnvel farast. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ef Kristur er raunverulega með í för – ef hann sannarlega er með í bátnum sem er táknynd kirkjunnar í guðspjallinu – þá sé ekkert að óttast.
“Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir,” segir hann við lærisveinana í guðspjalli dagsins, og þetta eru þau orð sem einnig beinast að okkur hér í dag í okkar aðstæðum.
Okkur er nefnilega svo tamt að hafa áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum, sérstaklega ef okkur virðist þeir ekki ætla að fara alveg nákvæmlega á þann veg, sem við helst viljum.
Það er hins vegar ekkert að óttast.
Ég held að við þurfum m.ö.o. að vera reiðubúin til að verða svolítið óreiðuþolnari en við jafnan erum, og átta okkur á því, að þó hlutirnir fari á annan veg en okkur kann að þykja henta best, að þá getur það líka bara verið í góðu lagi og gert það að verkum seinna meir að við förum að sjá og skilja á nýjan hátt.
“Óttist ekki”
Verum minnug þess að Kristur hvetur okkur í Fjallræðunni til að vera ekki áhyggjufull um líf okkar, og hvað eftir annað í guðspjöllunum segir hann “me fóbú” eða “óttist ekki” – “verið ekki hrædd”. Varðandi þau mál, sem nú eru efst á baugi í okkar vestræna og kristna samfélagi, og varða réttindi hinna samkynhneigðu, þá er ég sannfærður um að það sé ekkert að óttast og að ekkert það geti gerst sem skaðið geti kjarnann í boðskap Krists þó samkynhneigðum verði veitt aukin mannréttindi. Verum minnug þess að kirkjan hefur ætíð þurft að takast á við samtíma sinn, og þegar hún hefur gert það af hreinskilni og einlægni, þá hefur henni tekist best upp, og þá hefur hún jafnvel átt frumkvæðið að stórstígum framförum mannsandans.
Gætum samt að því að fara ekki með trúna sem feng okkar og förum ekki heldur með hjónabandið sem feng okkar.
Kristur fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur, eins og segir í Filippíbréfinu, heldur lægði hann sjálfan sig og varð mönnum líkur, og því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.
Við sem gagnkynhneigð erum munum ekki glata neinu þó skilgreining hjónabandsins muni verða útvíkkuð og muni einnig ná til þeirra sem samkynhneigðir eru.
Verum minnug þess að hjónabandið er band einingar og kærleika, ástar og trúfesti. Það kallar okkur til ábyrgðar, og það hlýtur að vera vilji okkar allra, að öllum sem unnast á hugheilan hátt verði gefinn kostur á að játast og innsigla þær tilfinningar sínar undir merkjum Jesú Krists.
Verum minnug þess, að ef við erum hrein og einlæg í því sem við tökum okkur fyrir hendur, þá er ekkert að óttast, því hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið, mun ávallt vakna til að sinna okkur, hasta á vindinn og vatnið, og endurreisa bústað réttlætisins.