Þjóðkirkjan — valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?

Þjóðkirkjan — valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?

Í kjölfar kosninganna ætti Þjóðkirkjan að íhuga stöðu sína og hlutverk. Í ljósi eðlis síns og sögu getur hún valið hvorum hún vill samsama sig með, gömlu flokkunum fjórum eða grasrótarhreyfingunum sem víða eru að spretta fram í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar og nú síðast við sveitarstjórnaskosningarnar.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
03. júní 2010

Grasrót

Um liðna helgi fékk heill hópur fólks falleinkunn. Það reyndist hafði einangrast í lokuðu umhverfi og tala mál sem hætt er að höfða til almennings. — Nei, hér er ekki verið að hjakka á prestum Þjóðkirkjunnar. Þau sem átt er við er stjórnmálastétt landsins og þau sem verst urðu úti eru frambjóðendur gömlu flokkanna fjögurra í stærstu sveitarfélögum landsins.

Stöðnun eða endurnýjun

Flest atvinnufólk í íslenskum stjórnmálum er alið upp í ungliðafélögum flokkanna og hefur skólast þar í frösum og plotti. Margt hefur það keypt sér efstu sætin á listum flokkanna af eigin efnum eða með styrkjum frá stórfyrirtækjum. Uppboðsmarkaðurinn gengur undir heitinu prófkjör. Þess eru jafnvel dæmi að ætterni skili fólki í forystusæti. Þegar til lengdar lætur veldur slíkur bakgrunnur stöðlun og stöðnun. Í sveitarstjórnakosningunum sagði þjóðin hingað og ekki lengra. Í kjölfarið hljóta flokkarnir að ákveða hvort þeir ætla að taka þátt í endurnýjuninni eða einangrast enn frekar. Kosningarnar og úrslit þeirra sýna að með þjóðinni býr umbótavilji, kraftur og djörfung. Fólk situr ekki auðum höndum. Þau eru mörg sem tilbúnin eru til að taka frumkvæði. Margir hafa bent á að ástand á borð við það sem nú ríkir bjóði hættum heim. Þegar vantraust og þreyta ríkir í garð stjórnmálaflokka sem ætlað er að efla lýðræðið er hætt við að öfgaöfl grafi um sig. Það hefur ekki gerst okkar á meðal. Það er þó ekki sjálfsagt að svo verði áfram. Það er sameiginleg skylda okkar allra að koma í veg fyrir að það gerist. Við þurfum sennilega helst að vera á varðbergi gegn þjóðernisöfgum. Sterkt þjóðarstolt gæti komið okkur í koll ef við gætum okkar ekki.

Hvert vill Þjóðkirkjan að stefna?

Í kjölfar kosninganna ætti Þjóðkirkjan að íhuga stöðu sína og hlutverk. Í ljósi eðlis síns og sögu getur hún valið hvorum hún vill samsama sig með, gömlu flokkunum fjórum eða grasrótarhreyfingunum sem víða eru að spretta fram í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar og nú síðast við sveitarstjórnaskosningarnar. Í aðra röndina er Þjóðkirkjan stofnun með fast skipulag, uppbyggingu, menningu og orðfæri. Að því leyti á hún sammerkt með stjórnmálaflokkunum og öðrum valdastofnunum. Út frá öðrum bæjardyrum séð er Þjóðkirkjan almannasamtök, félagshreyfing. Að því leyti er hún í takt við þau öfl sem tóku völdin í Reykjavík, á Akureyri og víðar í nýafstöðnum kosningum. Hvorum megin hryggjar kjósum við þjóðkirkjufólk að lifa og starfa á komandi tíma?

Margt bendir til að framundan sé mikil félagsleg gróska á Íslandi þar sem vegur almannasamtaka, grasrótarhreyfinga og sjálfboðins starfs fer í vöxt. Í slíku umhverfi hefur Þjóðkirkjan mikilvægu hlutverki að gegna. Hún býr að félagslegu neti sem spannar landið allt. Víða er hún einn mikilvægasti þátturinn í nærumhverfi fólks. Enn er hún líka í hópi þeirra samtaka sem reglulega nær til hvað flestra eða hvaða félag safnar jafnmörgum til vikulegra samfunda og hún? Við núverandi aðstæður ber Þjóðkirkjunni að taka höndum saman við öll þau samtök sem vilja efla félagslegt starf, beina því í hollan farveg og byggja upp Nýtt Ísland. Þannig verður hún áfram þjóðkirkja í jákvæðri merkingu.