Það var stelpa í Stykkishólmi sem hitti Jesú Krist. Hún var venjuleg fermingarstúlka í venjulegri fjölskyldu sem fór í venjulegt sumarfrí til Spánar. En þar varð óvenjulegur atburður. Stelpan og Jesús Kristur hittust. Hún tók þennan fund, samtalið og samskiptin svo alvarlega að hún breyttist. Fjölskylda hennar átti í erfiðleikum með að sætta sig það sem stúlkan sagði og gerði. Þau héldu að hún væri orðin klikkuð og sendu hana til geðlæknis. Trú var allt í einu orðin sjúkdómur.
Stúlkan hét Alma. Í ljósi nýrrar lífsreynslu tók hún allt til endurskoðunar. Vinatengslin breyttust. Foreldrar vinkonu hennar vildu ekki að þær hittust. Alma ólst upp í stóru þorpi og hafði margvísleg áhrif í margflóknu smásamfélagi. Orð hennar og athafnir reyndu þanþol margra. Í fermingarfræðslunni vissi presturinn sem ekki hvernig hann ætti að bregðast við. Ölmuguðspjallið var allt í einu eins og nýtt guðspjall í plássinu, Jesús var nærri.
Ég ætla ekki að segja ykkur alla söguna um Ölmu. En það gerir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir frábærlega vel í margslunginni bók sem nefnist Englaryk. Guðrún Eva lýsir nærfærnislega brothættu samfélagi sem hefur allt í viðkvæmum skorðum en veit ekki hvernig á að glíma við stærstu gáturnar um líf, tengsl og möguleika. Í bókinni er þyrlað upp ágengum spurningum um hvað trú sé í nútímasamfélagi og hvort við séum á flótta. Hvað gerist ef hið guðlega snertir einstaklinga og hvernig höndla þeir trú og fjölskyldur þeirra? Texi Guðrúnar Evu er fyndinn og nærfærinn. Fíngerður húmorinn og glitrandi ljóðræna seitla inn í sálina.
Alma var á breytingaskeiði unglingsáranna þegar flest er tekið til skoðunar, viðhorf og siðferði. Höfundurinn opnar skápinn og leyfir okkur að fylgjast með þegar ung kona þorir að mæta Guði. Alma gerði mistök og neyddist til að læra að greina milli trúar og afleiðinga. Það er hlutverk okkar manna að þora að breytast en einnig læra af áföllunum. Fjölskyldan gerði líka mistök. En þannig er það hjá venjulegu fólki í venjulegum fjölskyldum í venjulegu íbúðarhúsum. Lífið er ekki klisja. Það býður upp plús - meira en við eigum von á. Stóru spurningarnar um tilgang lífsins læðast inn í okkur. Börnin spyrja, við glímum við tengsl okkar við fólkið okkar og svo verða slys, hamingjudagar koma sem og sólardagar og hversdagsverkefni. Í öllu þessu er spurt um hvort Guð sé til, hvort líf hafi tilgang, hvort heimurinn sé meira en bara efni og efnaferli. Alma var opin fyrir að hversdagsleg veröld væri dásamleg. Hún opnaði fyrir möguleika lífsins.
Tabú Íslands – kynlíf, dauði, trú
Þorir þú að hugsa um trú og tala um trú? Höndlum við þegar fólk verður fyrir vitrun sem breytir lífi þess? Afskrifum við þau sem klikkuð? Viljum við helst bara flýja – og troða þar með stærstu og erfiðustu spurningunum inn í skáp þagnarinnar. Í samfélagi okkar hafa verið þrjú tabú sem ekki hefur mátt tala opinskátt um. Í uss-uss-skápana hafa þessi þrjú verið sett: Trú, kynlíf og dauði.
1 Reyndar er kynlífið að losna úr skápnum en fólk hefur tilhneigingu til að hrapa í hina öfgana, klámið. Við þurfum vera auðmjúk og tilbúin að ræða hvatir, fjölbreytileika, tilraunir, sjúkleika og heilbrigði kynlífsins. Við foreldrar vitum best hvað það er mikilvægt að flýja ekki þegar ungviðið spyr.
2 Svo er það dauðinn sem hefur ekki verið í tísku nema í kvikmyndum. Dauðinn hefur ekki verið hitamál á kaffihúsunum síðan Jean Paul Sartre og tilvistarspekingarnir þorðu að færa hann í tal. En þó lítið sé talað um dauðann er það þó að breytast. Í fortíðinni var dauðinn fléttaður inn í líf fólks. Fólk dó heima og lík voru gjarnan á heimilum dagana á undan greftrun. Dauði dýranna á sveitabæjunum var eins raunverulegur og fæðing þeirra og líf. Spítalavæðingin svifti fólk dauðanándinni en nú leitar dauðinn úr skápum stofnanavæðingar. Ef við getum rætt um horfst í augu við dauðann og rætt um hann erum við enn betur fær um gott líf og lífsleikni.
3 Svo er þriðja tabúið og trú hefur líklega verið mesta tabúið, innst í skáp þagnarinnar. Hvað er trú? Alma hitti Jesú. Það verða ekki allir fyrir slíkri reynslu, fundurinn með Jesú er almennt ekki svo dramatískur en engu ómerkilegri. Meðan við lifum verðum við öll fyrir reynslu sem opnar og knýr okkur til að ákveða hvað við erum, til hvers við lifum.
Þrenns konar trú
Og við tökum okkur stöðu gagnvart heiminum, hvort við viljum litla, meðalstóra eða stóra tilveru.
1 Ef við viljum að veröldin sé aðeins efni og tilfallandi efnaferli án Guðs þá er það guðlaus trú og tilveran lítil. Það er ekki hægt að sanna þessa lífsskoðun eða afsanna en það er ákvörðun af neikvæðu trúartagi að tilveran sé guðlaus. Ég hef lesið rökin en undrast að fólk sem trúir með þeim hætti verði ekki þunglynt. Það þarf hugrekki til að sogast ofan í hyl guðleysis.
2 Svo eru önnur sem telja að þekkingarskortur hindri að menn geti ákveðið hvort tilveran er guðlaus eða guðleg. Þau meta svo að þekking okkar sé takmörkuð. Við vitum reyndar talsvert margt en erum þó fjarri því að geta með vísindalegri aðferð dæmt um tilgang og Guð í geimnum. Ég skil vel fólk sem viðurkennir óvissuna um hið stóra og guðlega.
3 Svo er það þriðji hópurinn - fólkið sem trúir. Og trú er alls konar og hefur mjög mismunandi afleiðingar. Og flækjum ekki málin með alhæfingum, t.d. með því að segja að trú sé alltaf svona eða hinsegin. Múslimar í þorpi í Aghanistan eru allt öðru vísi en múslimar á Manhattan í New York. Kristinn sértrúarhópur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er allt öðru vísi en þjóðkirkjusöfnuður á Íslandi. Ruglum ekki og alhæfum ekki. Og í dag tölum við bara um trú á Íslandi, í okkar venjulega, umburðarlynda, íslenska og upplýsta þjóðkirkjusamhengi.
Trúin tengir
Hvað er heilbrigð trú? Hún verður ekki bara við að hitta Jesú í sumarleyfi í Andalúsíu. Hún vex upp í venjulegum húsum og hjá venjulegu fólki. Hún þroskast úr barnatrú yfir í vitund um að heimurinn nær lengra en nefið. Trú stækkar heimsskynjunina. Hún er tengsl við hið stórkostlega í veröldinni. Hún er skynjun um að veröldin er meira en efnaferli og köld tilviljun. Trúin sér í sandkornum á ströndinni undur veraldar og trúir að kærleikur Guðs sé eins og hafið (svo notuð sé heillandi mynd úr skáldskap Matthíasar Johannesen). Trúin sér í Jesú Kristi hið guðlega meðal manna, fyrirmynd um hvernig við getum brugðist við í flóknum heimi, kærleiksafstöðu til annars fólks, vilja til að sjá mennsku í öllum mönnum, líka þeim sem hefur mistekist. Trúin opnar, tengir og gerir manneskjuna heila og lagar tengsl ef allt er rétt. Trúin rýfur einangrun fólks og bætir. Það er alveg sama hvernig við klúðrum lífinu, Guð elskar fólk samt og vill styðja. Það er alveg sama hvaða áföll verða, flóð, eldgos, stríð – við erum kölluð til að bæta og gera gott úr, lækna og reisa við. Við erum kölluð til að vera útréttar hendur Guðs í veröldinni. Trú tengir ekki aðens við undur þessa heims heldur opnar glugga að veröldum handan tíma og efnis. Að trúa er að verða trúnaðarmaður Guðs. Það var það sem Alda uppgötvaði, að þegar maður trúir verður tilveran ljómandi, töfrandi og þrungin merkingu – svo notuð sé orð bókarinnar.
En það að trúa er ekki að verða óskeikul ofurtilvera, súperman eða súperwoman. Trú breytist og dýpkar. Trú leitar þroska rétt eins og við stækkum úr barni í fullorðna veru. Við lærum, gerum mistök, dettum, rísum upp, sjáum hlutina í nýju ljósi og breytum um skoðun. Trú er ekki flótti heldur sítenging við raunveru heimsins. Trú er systir skynsemi og réttlætis. Þegar við trúum erum við ekki beðin um að fórna okkur í þágu einhverrar vitleysu og sérvisku. Það er ekki heilbrigð trú heldur sjúk og á villigötum. Við eigum ekki að fórna líkama okkar, frelsi og lífi fyrir þröngan málstað eða ofbeldi. Þvert á móti, við megum nota allt sem Guð hefur gefið okkur til farsældar og lífsleikni og einnig í þágu mannkyns og náttúru. Við þurfum ekki að trúa úreltum sögum og eigum að lesa Biblíuna með heilanum ekkert síður en hjartanu. Og við ættum að taka alvarlega niðurstöðu vísinda. Trúmaðurinn hefur enga þörf fyrir að einfeldningaskoðanir. Trúin má koma út úr skáp tabúsins í íslensku samfélagi.
Ævintýrin verða ekki aðeins á Spáni eða Stykkishólmi heldur heima hjá þér. Guð er ekki aðeins í þessari stóru kirkju, heldur innan í þér, talar til þín og býður þér að vera vinur og félagi þinn. Og tilveran verður miklu stærri og skemmtilegri þegar tengt er með trú og hjartað slær í takt við hjartslátt alheimsins – Guðs.
Hugleiðing við upphaf barnastarfs og fermingarfræðslu í Hallgrímskirkju. 3. september 2017.