Guðríðarkirkja

Guðríðarkirkja

Við þurfum helga staði og helgar stundir til að varðveita þá sýn, viðhalda og varðveita sjón hjartans á að lífið er gjöf Guðs, undursamleg náðargjöf, til að viðhalda og varðveita þá sýn til samferðarfólksins að við erum öll systkin við sama borð, þrátt fyrir allt, að við eigum að deila með okkur daglegu brauði og gæðum.

Lofið Drottin allar þjóðir, vegsamið hann allir lýðir, því miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varir að eilífu. Hallelúja

Gleðilega hátíð, kæri söfnuður, gleðilega vígsluhátíð Guðríðarkirkju. Hjartanlega til hamingju með daginn.

Guð blessi þau sem ruddu brautina og hófu kirkjustarf hér í nýju borgarhverfi og ungu kirkjusókn, Guð blessi þau og allan ávöxt verka þeirra. Guð blessi hugi og hendur þeirra sem hér komu að bygging helgidómsins af svo mikilli alúð og listfengi, sem allt sem hér fyrir augu ber vitnar um. Guð blessi þau sem njóta munu. Hér kom í gær hópur barna og foreldra úr barnastarfi kirkjunnar og mér fannst eins og fótatak þeirra, nærvera, söngur og bæn fyllti húsið fögrum fyrirheitum um bjarta framtíð.

Guðríðarkirkja ber nafn Guðríðar Þorbjarnardóttur, sem víðförlust var allra að fornu. Það er vel til fundið í þessu hverfi, sem iðulega er kennt við þúsöld og götunöfnin minna á söguna, kristnisögu og landafundi. Það var vel við hæfi að minnast þess við uppbygging þessa hverfis, þessa landnáms hér í holtinu. Landafundirnir eru efalaust mestu afrek Íslendinga fyrr og síðar, þótt svo að þeir séu nánast neðanmálsgrein í sögunni og valdi svo sem engum vatnaskilum. En ég er sannfærður um að sagnaritarinn, sem ritaði sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur og landafundanna, var í raun að vitna um trú, um afl og áhrif kristinnar trúar. Og það er engin neðanmálsgrein heldur öflugasti áhrifavaldur í sögu og menningu þjóðarinnar. Sögurnar um landafundina og Vínland hið góða eru öðrum þræði kristniboðsfrásagnir. Sögur sem tjá þetta sem segir í guðspjallinu sem rifjað er upp við hverja skírn: Kristur sendir okkur til að gera allar þjóðir að lærisveinum og hann er með okkur alla daga, allt til enda veraldar.

Saga Guðríðar og landafundanna minnir okkur á að við erum fólk á ferð. Kynslóðir koma, kynslóðir fara. Guð hefur sett okkur á þennan veg og hann leiðir að marki sem hann hefur ákvarðað, í eilífu ríki sínu. Markið er eitt: Landið góða, Paradís, himinninn, eilífa lífið.

Guðríður var kristin kona, hafnaði seið og blótum hins heiðna siðar, einörð, heil og viss í trú sinni. Hún fylgdi Þorfinni, manni sínum, til Vínlands og þau gerðu tilraun til landnáms. Og þar ól hún son þeirra, Snorra. Þessa sögu þekkjum við öll. Snorri varð síðar höfðingi hér norður í Skagafirði og reisti fyrstu kirkjuna í Glaumbæ. Eftir að Guðríður var orðin ekkja fór hún pílagrímsför suður til Rómar. Heim komin gerðist hún einsetukona og helgaði hún líf sitt frelsaranum Jesú Kristi, bæninni í nafni hans. Mikið vildum við vita meir um hana! En saga hennar er mistri og dulúð hulin. Hvílíkar sögur hefur hún ekki kunnað að segja! - hvernig hugsaði hún og ályktaði og upplifði það sem á vegi hennar varð og fyrir augu bara beggja vegna Atlantshafsins í hinum nýja heimi sem þeim gamla? Við fáum seint svör við því. En - Kristnisagan er meir en það sem skráð er á bækur og sannað verður með rökum sagnfræði og fornleifafræði. Hún snertir hverja mannssál í landinu, sem lifað hefur með einum eða öðrum hætti þátt þeirrar sögu, við skírnarlaug, við móðurbæn og barnsins trú, við gröf hins látna og þegar ómur hins helga og háa hefur borist inn í dagsins önn og yndi. Þetta allt er ein meginstoð okkar menningar og samfélags á Íslandi enn í dag! Guðríður minnir á það samhengi og grunnstoð, hin kristna kona, kristna móðir, eins og þær ótal mörgu æ síðan sem hafa kennt börnum sínum að elska Guð og biðja. Móðirin, eins og móðir Mattíasar, þjóðskáldsins, sem bendir barninu á jólaljósið og segir, sem hann aldrei gleymdi:

„Þessa hátíð gefur okkur guð, guð, hann skapar allan lífsfögnuð, án hans gæzku aldrei sprytti rós, án hans náðar dæi sérhvert ljós.

Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð, guð hefur kveikt, svo dýrð hans gætuð séð. Jólagleðin ljúfa lausnarans leiðir okkur nú að jötu hans.“

- Já, án þeirra góðu mæðra væri engin kristni, engin kirkja, og verður engin framtíð kristins dóms á Íslandi. Flóknara er það ekki.

Kirkjan sem hér er risin, er eins og sérhver kristinn helgidómur, táknmynd fyrirheitna landsins, eilífa lífsins. Vínland hið góða kölluðu þau hið nýja land, sem Guðríður og hennar fólk reyndi að byggja. Vínið minnir á lífsgæði og gleði. Jesús líkir sér við vínviðinn og okkur við greinarnar, sem engan veginn geta borið ávöxt nema þær séu á vínviðnum. Og svo er eitt svo merkilegt við vínviðinn, hann er eiginlega ekkert nema greinar, hvar endar stofninn og hvar byrja greinarnar? Kirkjan, þú kristin manneskja, þú kristni söfnuður, þú kristna móðir, kristni faðir, þér er ætlað að birta návist Krists hér, þar sem þú ert, og bera ávöxt með viðmóti þínu, orðum og verkum. Ver í honum, í líftengslum bænar og trúar, vonar og kærleika við hann.

Helgidóminum er ætlað að minna okkur á það. Þar rúmast allir inni, þar er borðið í miðdepli, dúkað borð sem segir við þann sem inn kemur: „Þú ert velkominn! Guð fagnar þér, býður þér til borðs með sér, því hann elskar þig, barnið sitt.“ Við þurfum helga staði og helgar stundir til að varðveita þá sýn, viðhalda og varðveita sjón hjartans á að lífið er gjöf Guðs, undursamleg náðargjöf, til að viðhalda og varðveita þá sýn til samferðarfólksins að við erum öll systkin við sama borð, þrátt fyrir allt, að við eigum að deila með okkur daglegu brauði og gæðum. Helgar og hátíðir og heilög iðkun helgidómsins er til að viðhalda sýn hjartans og sálarinnar til þess að lífið er ekki ferð án fyrirheits, það er ekki gröfin sem móti gapir köld, heldur landið góða fagra, þar sem Guð hefur ummyndað allt til sinnar myndar. Þetta hefur hún Guðríður kennt drengnum sínum, honum Snorra, og þess vegna reisti hann kirkju, svo að kynslóðirnar sem eftir fylgdu myndu minnast þess. Þess vegna eru kirkjur í hverri sveit og borgarhverfum til að helga landið og lífið og vegferð fólksins, nú Guðríðarkirkja í Grafarholti, vígð og frátekin til helgrar iðkurnar. En ekki bara hún. Heimili og hjörtu íbúanna hér í sókn, hér í landi, vill Kristur helga sér. Öll trúariðkun, bænin, lestur og íhugun Guðs orðs er til að Hann komist að hjá okkur, geti gefið okkur skýrari sjón hjartans, sjón til þess sem er heilt og satt og hreint, sýknað, friðþægt, fyrirgefið, líf og heim þar sem vilji Guðs er og ræður.

Opnum augun fyrir þeirri birtu í frelsarans Jesú nafni.