Gras og brauð

Gras og brauð

Við þurfum von og þolgæði og kærleika OG brauð.Við þurfum að opna hjörtu okkar og nestisbox til þess að hinum takmörkuðu auðlindum fjárins sé skipt milli hinna þurfandi.Til þess að við getum miðlað trú, von og kærleik.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Óskiljanlegt er grasið: maður treður það undir fótum sér en það reisir sig jafnharðan við aftur. Óskiljanlegt er grasið: skepnurnar bíta það og renna því niður og skila aftur hinu ómeltanlega - en viti menn á því nærist svo nýtt gras. Já óskiljanlegt er það hið græna gras jarðarinnar: auðmýktin og uppreisnin í senn.

Þannig yrkir Jóhannes úr Kötlum um grasið sem er þolgott og rís upp að nýju þegar það er bælt. Grasið er í senn sveigjanlegt og seigt. Það lætur ekki beygja sig til lengdar, á sér alltaf endurkomu og undankomuleiðir og í úrgangi þess verður til nýtt gras.

Grasið er tákn lífsins sem gefst ekki upp þrátt fyrir mikla erfiðleika. Og guðspjall dagins tekur í sama streng þolgæðis og vonar í aðstæðum sultar og þrenginga.

II.

Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?

Andrés postuli ávarpar Jesú þegar lærisveinarnir höfðu velt fyrir sér vandamálum fólksins um hríð. Fólkið hafði komið til að hitta Jesú í eyðimörkinni og hlusta á hann. Og fólkið var svangt, svo svangt að það var ekki hægt að senda það allslaust til baka.

Risastórt vandamál og lausnin sem er í sjónmáli virðist ekki beysin: Einn strákur með smábrauð og tvo litla fiska. Hvað er það handa svo mörgum?

Hversu oft höfum við sem hér erum staðið frammi fyrir samsvarandi aðstæðum? Risastórt vandamál og lausnin annað hvort ekki í sjónmáli eða þá svo vesöl að við örvæntum og reynum ekki einu sinni. Og samt er sagan ekki aðeins saga af vandamáli, heldur lausn, lausn sem er Jesús Kristur.

Sagan af því þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns af fimm brauðum og tveimur fiskum er mörgum okkar hugstæð. Það góða við djúpa texta með mikilli túlkunarsögu er að við getum farið til þeirra aftur og aftur og alltaf rekist á nýjan flöt, eitthvað sem við höfðum ekki tekið eftir áður. Textar eru þannig eins og málverk sem hanga á veggnum hjá okkur og við verðum vön og hættum að taka eftir. Einn góðan veðurdag göngum við að myndinni og tökum eftir einhverju sem aldrei hefur vakið athygli okkar áður, merkilegum blæbrigðum í málningunni, andliti sem fyrir ber eða manneskju sem er falin bak við trén.

Og það sem vekur sérstaka athygli mína við texta dagsins í dag er ungi pilturinn með brauðin og fiskana. Ég hef einhvern veginn aldrei almennilega velt honum fyrir mér fyrr. Hann er einhvern veginn alltaf þarna með nestisboxið sitt opið. Hvaðan skyldi hann hafa komið? Hvað hét hann? Skyldi mamma hans hafi gefið honum þetta brauð? Skyldi pabbi hans hafa veitt fiskana eða hann sjálfur? Hvers vegna átti hann mat en enginn annar í hópnum? Og hvers vegna valdi hann það að taka upp matinn sinn og gefa hann í þessum sársoltna hópi?

Þörfin var til staðar. Þörfin var orðuð. Einhver kom til hjálpar, einhver sem við fyrstu sýn virtist hvortki stór né valdamikill og bauð ekki upp á mikil bjargræði. Aðeins fimm brauð og tvo fiska. Hvað er það handa svo mörgum? Þessi ungi maður er dálítið eins og grasið sem hann stóð í Grasið sem Jóhannes úr Kötlum gerir að yrkisefni sínu, Grasið sem er bæði auðmjúkt og í uppreisnarhug Grasið sem bælist aðeins um stund áður en það réttir sig við aftur.

Kannski var nesti unga mannsins hvorki mikið né merkilegt. En þetta brauð og þessir fiskar voru borin fram í trausti og trú um að Guð myndi láta það nægja á erfiðum tíma hversu hrikalega sem þetta allt leit út.

Við eigum ekki alltaf slíka trú þegar við stöndum frammi fyrir risastóru vandamáli. Stundum virðast erfiðleikarnir algjörlega óyfirstíganlegir Og ekkert sem við gerum og segjum virðist geta breytt því. Svar Andrésar lærisveins ber vott um vonleysi. Hvað er það handa svo mörgum? Hér er komin lausn, en þessi lausn er ekki upp í nös á ketti virðist hann segja. Ég veit ekki hvort er verra í slíkum aðstæðum, að vænta of mikils eða vænta of lítils. Sá eða sú sem væntir of mikils gerir sér óraunsæjar vonir, byggir upp hjá sér væntingar um að hlutirnir leysist einn, tveir og þrír, og þegar þeir gera það ekki er hætta á sveiflu í hina áttina, til hins algera vonleysis. Sú eða sá sem væntir of lítils missir hæfileikann til að bjarga sér og nýta tækifærin sem bjóðast. Hún eða hann vill fá risalausn sem passar við risastóra vandamálið. Og risalausnin á helst að koma strax.

III.

Seinni ritningarlesturinn okkar fjallar um von þegar erfiðleikarnir virðast vera óyfirstíganlegir, þegar engin risalausn virðist í sjónmáli. Þar er fjallað um það að Guð elski okkur og hjálpi okkur á alla lund. Guð mun finna lausn á vanda okkar þegar við sjáum bara erfiðleika og þrengingar. En ritningarlesturinn segir okkur fleira því hann biður okkur um að gleðjast í erfiðleikum okkar miðjum, vegna þess að sá/sú sem aldrei hefur örvænt þekkir ekki vonina heldur tekur öllu sem sjálfsögðu.

Við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Við eins og fólkið í guðspjallinu þurfum brauð. Fyrri ritningarlesturinn minnir okkur á það að við þurfum meira en brauð. Við þurfum von og þolgæði og kærleika OG brauð. Við þurfum að opna hjörtu okkar og nestisbox til þess að hinum takmörkuðu auðlindum fjárins sé skipt milli hinna þurfandi. Til þess að við getum miðlað trú, von og kærleik.

Og það er þetta þolgæði, vonin og kærleikurinn sem heilagur andi blæs okkur í brjóst sem að hjálpar okkur til að finna lausnir, finna bjargræði, finna hjálp þegar að erfiðleikarnir eru alveg að sliga okkur. Svo við getum rétt okkur við aftur hægt og sígandi, auðmjúklega en í stöðugri uppreisn gegn ofurefli vonleysisins. Eins og grasið.

IV.

Pilturinn í guðspjallinu var svo sannarlega engin risalausn. Hann var bara drengur með brauð og fiska. Hvað er það handa svo mörgum gæti verið svar okkar svo margra, andvarp okkar þegar við sjáum ekki út úr því sem við erum að gera. En dáð hans liggur ekki í því hversu margir fiskarnir voru eða brauðin. Dáð hans liggur í því að hann treysti á Jesú Krist Þótt hann hefði enga hugmynd um hvernig maturinn hans kæmi að notum. Og það traust var nóg til að seðja marga.

Þetta hefur verið erfiður vetur fyrir marga og víða er erfitt að ná í brauðið nú um stundir. Bókamarkaður kirkjunnar hefur náð inn meira en 100 þúsund krónum og það hefur hjálpað til við að skapa smábjörg handa þeim sem hafa lítið á milli handanna núna. Baráttan um brauðið er raunveruleg barátta á Íslandi og ekki síst eftir hrun. Og við ættum að gera okkar besta til að hjálpa til á hvern þann hátt sem við getum. Baráttan um brauðið er nefnilega ekki aðeins baráttan um of lítil gæði, heldur miklu fremur baráttan fyrir því að gæðunum sé betur skipt. Og það er eitthvað sem við getum aðeins gert saman.

Eins og ungur piltur sem tók upp nestisboxið, þegar það skynsamlega í stöðunni hefði verið að bíða með að borða nestið þangað til að hann var kominn í skjól frá svöngu fólki.

Stundum bregst fólk við í von og kærleika frekar en örvæntingu. Er það ekki við slíkar aðstæður sem kraftaverkin gerast? Kraftaverkin þegar bjargráðin verða til og gæska mannanna kemur í ljós?

Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Jesús bað lærisveinana að láta fólkið setjast í grasið. Og þar fékk það að borða, þó að enginn skilji neitt í því hvernig brauðin og fiskarnir gátu nægt.

Þörfin var til staðar. Þörfin var orðuð. Einhver kom til hjálpar á sinn vanmegna hátt. Og Jesús var þar, Jesús sem breytir erfiðleikum, vonleysi og uppgjöf í þolgæði og von Jesús sem gefur brauð og bjargræði Jesús sem gefur von, réttlæti og kærleika Jesús sem opnar hjörtu og nestisbox.

Og þegar við horfumst í augu við alla þá risastóru erfiðleika Sem geta mætt okkur í lífinu Þá skulum við setjast í grasið líka. Því maðurinn lifir ekki á einu saman brauði Heldur á þolgæði, von og kærleika líka Því að við erum líkami, sál og andi og allir þrír þættirnir þurfa mettunar við.

Og það er í þessu grasi sem að gæðin verða til Gæðin sem hjálpa okkur að kalla fram það besta í okkur sjálfum og náunganum að skipta með okkur að þora að leggja okkur fram og rétta fram nestisboxið okkar litla með öllum okkar hæfileikum, gjöfumog gáfum til Jesú Krists sem gefur auðmýkt, uppreisn, þolgæði, von og kærleik gras og brauð þegar við mest þurfum þess með.

Já óskiljanlegt er það hið græna gras jarðarinnar: auðmýktin og uppreisnin í senn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.