1Ég vil að þið vitið hversu hörð barátta mín er vegna ykkar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra sem hafa ekki séð mig sjálfan. 2Mig langar að allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur. 3En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir. 4Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. 5Ég er hjá ykkur í andanum þótt ég sé líkamlega fjarlægur og horfi með fögnuði á góða skipan hjá ykkur og festu ykkar í trúnni á Krist. 6Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. 7Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi. Kól 2.1-7Í dag setur Páll postuli okkur áramótaheit úr fangelsi sínu: Hverjar sem aðstæður okkar eru skulum við á árinu 2008 uppörvast í hjarta okkar, sameinast í kærleika og öðlast fulla sannfæringu og innsýn og gjörþekkja leyndardóm Guðs sem er Kristur. Þetta er ekki lítið.
Byrjum á fyrsta skrefinu sem er að uppörvast í hjarta okkar. Sú uppörvun er trúarskref, viljaákvörðun, ekki tilfinningamál. Við látum oft um of stjórnast af tilfinningum, sem aftur byggjast iðulega á aðstæðum okkar. Leiki allt í lyndi, líður okkur oftast vel. Þegar á móti blæs fyllumst við vanlíðan sem við tökum oft út á fólkinu í kring um okkur. Þannig sköpum við vítahring sem verður ekki rofinn nema við sjálf tökum ákvörðun um það. Ég ætla ekki að láta tilfinningar mínar stjórna mér á þessu ári, heldur uppörvast í hjarta mínu hvernig svo sem allt skipast í hinu ytra, sýna festu í trúnni á Krist. Amen? Megi svo verða!
Ástin bregst en aldrei Guð Og í öðru lagi skulum við einsetja okkur að sameinast í kærleika. Í fyrsta kafla Kólossubréfsins talar Páll um trú hinna kristnu systkina á Krist Jesú og um kærleikann sem þau beri til allra heilagra vegna vonarinnar um það sem þau eigi geymt í himninum (Kól 1.4-5). Þannig er trúin á Krist Jesú forsenda bæði kærleikans og vonarinnar, en vonin um himneska fjársjóði uppspretta kærleikans. Að það er andinn sem vekur þennan kærleika kemur einnig fram (Kól 1.8).
Hér er ekki verið að tala um þá ást sem manninum er eðlislægt að sýna, ástina til maka, barna, foreldra, systkina, ættingja og vina. Sú ást, stundum bundin líffræðilegum böndum og stundum ekki, er sönn og góð og eðlileg, en á það til að bregðast eins og dæmin sanna. Kærleikurinn sem postulinn biður okkur um að sýna er kærleikur sem ekki bregst, himneskur kærleikur, grundaður í Guði. Við getum hins vegar brugðist með því að sækja ekki í uppsprettuna, heilagan anda Guðs, sem fúslega gefur hverjum sem biður. Mín bæn er sú að við mættum vera vakin og sofin í þeim kærleika sem okkur stendur til boða fyrir trúna á Krist og hina himnesku von. Amen, megi svo verða.
Vonin er veruleiki Þriðja fyrirheiti okkar varðar einmitt þessa von. Páll postuli biður þess að við mættum eiga fulla sannfæringu og innsýn og getum gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur. Það er þessi leyndardómur vonarinnar sem við eigum geymdan á himnum, öll fylling guðdómsins í manninum Jesú (Kól 2.9). Í þeirri fullkomnun höfum við nú þegar eignast hlutdeild og þannig er vonin orðin að veruleika í lífi okkar, að því marki sem við lifum trú okkar.
Og það er einmitt verkefni daganna framundan, hvers dags fyrir sig á perlubandi ársins 2008: Að taka á móti fyllingu guðdómsins inn í tómt líf okkar, að hætta að reyna að fylla það með sjálfum okkur, vinnu, áhugamálum eða ýmis konar trúarhugmyndum. Í stað þess skulum við einsetja okkur að þiggja, bara þiggja, með tvær hendur tómar, hjartað kalt og hugann reikandi. Ég bið um það eitt, sem þó er allt, að ég mætti taka á móti leyndardómi Guðs inn í líf mitt hvern dag, að fyllast Honum, sem er von dýrðarinnar (Kól 1.27). Það leyfi Guð sem mig hefur metið þess verða. Amen.
Þú ert mitt yndi og líf, mín eðalrós, mitt eina hæli og hlíf, mitt himinljós.
Ég ekkert á mér traust fyr´ utan þig; þín heilög himinraust fær helgað mig.
Ó, Guðs hinn góði son, sem gefur allt, þú ert mín eina von, mitt eitt og allt. Úr ljóð eftir Friðrik Friðriksson