Hvað ætlast Guð til af þér?

Hvað ætlast Guð til af þér?

Gera rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti.

Sl. 56: 4-5, 9-14

Ef. 5:15-21

Mt. 22:1-14

 

Biðjum:

Máttar þíns við leitum hér, ó, Guð, um miðjan dag.

Því miðja lífs og heims og alls ert þú.

Við lútum þér í þökk, og lofum nafnið þitt,

þú vísar okkur veg

til hins snauða og til þess sem þarf að þiggja hjálp.

Gef, ó, Guð, ég gagnist þér á götu minni,

í nálægð þinni vaknar von og líf. (Sálmur 934:2) Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Hvað ætlast Guð til af þér?

 

Hvað ætlast Guð til af þér?

 

Ætlast Guð til einhvers af okkur?

 

Í Míka spádómsbók segir spámaðurinn:

 

Hann hefur sagt þér maður hvað gott sé. Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

 

Mér finnst þetta svolítið skemmtileg spurning: Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

 

Gera rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti.

 

Skilaboð frá gengnum kynslóðum

 

Eins og þið þekkið þá lesum við ávallt í kirkjum landsins, og kirkjum heimsins, þrjá texta í sunnudagsguðsþjónustunum. Fyrst úr Gamla testamentinu, svo úr bréfunum úr Nýja testamentinu og loks úr einu af fjórum guðspjöllum Nýja testamentisins. En þessir textar voru lesnir hér áðan.

 

Textarnir hafa verið valdir í svokallaðar textaraðir, þar sem hver sunnudagur og hver helgidagur ársins á sína texta. Textaraðirnar eru síðan þrjár, sem þýðir að þeir textar sem lesnir eru í dag, voru líklega lesnir hér einnig á þessum sunnudegi kirkjuársins fyrir tveimur eða þremur árum. Aðrir, en samt textar með svipuðu innihaldi, voru þá líklega lesnir hér í fyrra.

 

Af hverju höfum við textaraðir?

 

Jú, svo við séum ekki alltaf að heyra sömu textana, sunnudag eftir sunnudag. Prestarnir væru þá stöðugt að lesa kærleiksóðinn eða 23. Davíðssálm, eða hvað það annað sem efst er í huga þeirra þá og þá stundina.

 

Jólin hafa sína texta, eins og: „Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara…“ og svo framvegis.

 

Með þessu móti kynnumst við stórum hluta af boðskap og ritum Biblíunnar á einu kirkjuári, fjölbreytnin er mikil.

 

Við köllum ritin í Biblíunni heilög. Hvað merkir það?

Hvað kemur upp í huga þinn þegar við hugsum um helg rit?

 

Að eitthvað sé heilagt merkir að það er búið að taka það frá til sérstakra nota. Kirkjan er heilög því hér skulu fara fram guðsþjónustur, hér erum við ekki í fótbolta. Fótboltann stundum við niður í Vík.

 

Ritin eru heilög því gengnar kynslóðir hafa ritað og valið textana til þessara nota, í helgihaldinu og í þeim guðsþjónustum sem hér fara fram.

 

Rauður þráður

 

Textarnir voru ritaðir á 1500 ára tímabili, af yfir 40 höfundum, í þremur heimsálfum. Í ljósi þess má segja að mikið undur sé að svo fjölbreytt bókasafn, frá ólíkum tímum og stöðum, skuli hafa sama þráð, sama rauða þráðinn.

 

Og hver er hann?

 

Jú, um að Guð sé til og um kærleika Guðs til mannanna og heimsins. Kærleikur Guðs er fólginn í því að Guð elskar þig eins og þú ert. Eitt vers í Jóhannesarguðspjalli hefur verið kallað Litla Biblían, því það hefur verið sagt að það inniberi hinn rauða þráð sem Biblían öll boðar. Litla Biblían hljóðar svo:

 

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

 

Elska, gjöf, trú, varðveisla og eilíft líf.

 

Boðskapurinn hefur verið að mótast í gegnum árþúsundin. Frásögurnar og dæmisögurnar sem Biblían geymir mótuðust fyrst í munnlegri geymd, þar sem foreldrar sögðu börnum sínum, þar sem vinir miðluðu blessun og visku, undir varðeldi og stjörnubjörtum himni, eða sátu undir tré í skjóli fyrir brennheitri hádegissólinni, við eldstóna á heimilinu, eða í rykinu úti í moldugum vegkanti.

 

Læra utan að

 

Það er auðvitað erfitt að reyna að setja sig í spor fólks, sem lifði hér á jörðinni fyrir öllum þessum árþúsundum síðan, fyrir upplýsingu, iðnbyltingu og tækniþróun alla, fyrir flugvélar, geimskot og geimkíki, bifreiðar og internetið. Svo virðist sem fólk á þeim tíma hafi kunnað betur en við í dag, að læra utan að. Við þekkjum þetta auðvitað úr okkar íslensku menningu. Grágás er lagasafn sem fyrst var til í munnlegri geymd lögsögumannanna, en var svo fært í ritað mál síðar, svo dæmi sé tekið.

 

Boðskapurinn um mildi og miskunn Guðs, elsku og framgang heimsins, á enn erindi og skiptir máli, og textarnir, textaraðirnar, boðskapurinn, fjallar einmitt um það og á erindi við þig og mig, í dag og alla daga.

 

Einelti

 

Gríðarleg harka virðist í samskiptum fólks í nútímanum, við heyrum það í helstu fréttum síðustu daga og við foreldrar ræðum slíkt á foreldrafundum í grunnskólunum.

 

Samfélagsmiðlarnir virðast þar gjarnan farvegurinn. Átakanlegar frásögur heyrum við úr lífi unga fólksins í dag, þar sem einelti grasserar víða og getur orðið lífshættulegt, dónaskapur og yfirgangur daglegt brauð. Það er stríð í Úkraínu, en ófriðurinn er stundum miklu nærri okkur, en við kannski gerum okkur grein fyrir.

 

Í slíkri stöðu, líkt og nú, verðum við öll að rísa upp, gegn slíku ofbeldi, tala saman, líta í eigin barm, biðja fyrir hvert öðru, muna að hvert og eitt okkar er elskað Guðs barn.

 

Guð elskar okkur eins og við erum. Elskar þig eins og þú ert. Það er enginn til, sem er alveg eins og þú. Þú ert einstök sköpun Guðs, mundu, að þú skiptir óendanlega miklu máli.

 

Það eru skilaboð Guðs til þín og okkar allra. Þú ert óendanlega dýrmæt sköpun Guðs, þú skiptir óendanlega miklu máli og Guð elskar þig.

 

Hvað ætlast Guð til af þér?

 

Hvað er það þá sem þessir tilteknu textar dagsins vilja miðla okkur? Eða fá okkur til að hugsa um í dag?

 

Textarnir í dag eru úr Davíðssálmum, Efesusbréfinu og Matteusarguðspjalli.

 

Versin úr Davíðssálmi 56 sem lesin voru hér áðan eru full trúnaðartrausts. Sálmaskáldið lýsir þeirri sannfæringu sinni að með því að rækta trúna, minnki óttinn og lífsgæðin aukist. Vegna trúar á Guð verður lífið betra, því Guð frelsar og gefur ljós og líf.

 

Páll postuli ritar söfnuðinum í Efesus þetta bréf, sem lesið var úr hér áðan. Um er að ræða einn af frumsöfnuðunum sem Páll ritaði til, þetta bréf sem kallað er Efesusbréfið.

 

Kynslóðirnar hafa varðveitt það bréf, því líklega má finna þar hvatningu sem einnig gæti nýst komandi kynslóðum, og einnig okkur í dag.

 

Syngið og lofið Guð af hjarta, þakkið Guð. Sýnið hvert öðru auðsveipni.

 

Hvatningin er um að sýna mildi, gæsku, fórnarlund, þjónustu, kærleika, vináttu.

 

Þetta skemmtilega hugtak auðsveipni, sem við notum kannski ekki mikið í daglegu máli. Sýna náunga okkar auðsveipni.

 

Dæmisagan

 

Dæmisagan í guðspjallinu er býsna hörð. Jesús segir þar dæmisögu um himnaríki sem hann líkir við boð konungs í brúðkaup sonar síns. Þar er ekki aðeins gerð krafa til gestanna um að þiggja boðið, heldur einnig að mæta uppábúnir, í brúðkaupsklæðum. Það er nú líklega eðlileg krafa í samræmi við siðvenju samfélagsins að brúðkaupsgestirnir mæti uppábúnir til veislunnar, það segir sig sjálft.

 

Að gesturinn sé mættur án brúðkaupsklæða mætti því túlka sem svo að hann sé forhertur og skorti réttlætiskennd eða rétt hugarfar. En kannski er óþarfi að reyna að túlka þetta í tætlur, betra er kannski að leyfa táknmálinu að vera dálítið óljóst og segja ekki meira en svo að maðurinn, þótt honum hafi verið boðið, hafi ekki búið sig fyrir veisluna eins og hæfði.

 

Þannig er ljóst, að þó svo að boðið sé mjög víðtækt þá er ekki öruggt að allir, sem bregðast jákvætt við því, fái að vera áfram í veislunni. Og athugið að veislan, sem notuð er hér sem rammi dæmisögunnar, er veisla sem gæti varað í nokkra daga.

 

Guðspjallið er ekki ritað í sögulegu tómarúmi frekar en lexían eða aðrir textar Biblíunnar og hinn ofbeldisfulli miðjukafli textans er hvorki upphafning né réttlæting á ofbeldi heldur vísar til dauða Krists sjálfs, ofsókna á hendur lærisveinum Krists og kannski til þess er Rómverjar lögðu Jerúsalem í rúst árið 70. Ekki er ólíklegt að ritari textans hafi sjálfur upplifað eyðingu borgarinnar árið 70, og hafi því þann sögulega atburð í huga.

 

Textarnir eru á þann máta fengnir úr reynsluheimi fólks, en um leið miðla þeir Guðs mildi, sem mannlífið þarf stöðugt að minna sig á.

 

Mildin

 

Hvað er það sem samfélagið þarf nú til að takast á við einelti og annað ofbeldi?

Margt er hægt að gera, mikilvægi samtalsins er hafið yfir vafa, mikilvægi rannsókna á líðan ungmenna og almenning og síðan er alltaf hægt að bæta og efla stuðning fagfólks við úrlausn og áætlanagerð.

 

Svo þurfum við einnig að gera fleira og margt annað, sem getur snert okkur djúpt, sem manneskjur og samfélag.

 

Þurfum við ekki á því að halda að börnin okkar og komandi kynslóðir hafi greiðan aðgang að boðorðunum tíu, læri hvað þau þýða? Læri að tileinka sér líf á grundvelli þeirra. Að við miðlum þeim kærleikans boðskap um elsku Guðs og mikilvægi hverrar manneskju, um mikilvægi þess að við sýnum hverju öðru mildi og auðveipni í samskiptum okkar hvert við annað, að við lærum grundvallar boðskap og siðferði, sem kynslóðirnar vilja miðla til okkar, til dæmis með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, mikilvægi þess að kunna að fyrirgefa og leita sáttargjörðar, mikilvægi þess að vera þakklátur fyrir allar lífsins gjafir? Mikilvægi þess að setja sig í annarra spor og leggja náunga okkar lið, rétta hverju öðru hjálparhönd, og gera þannig lífið betra fyrir alla sem við mætum, og þar með okkur sjálf.

 

Líf okkar hvers og eins getur verið sem þráður í þeim vefnaði Guðs sem heitir hjálpræðissaga, frá sköpun til endurlausnar, þar sem Guð er á veginum með okkur hverju og einu. Lífsveginum, þar sem við lítum á líf okkar hvers og eins og allra manna, sem gjöf frá Guði.

 

Að líta í eigin barm

 

Stóru áskoranir samfélagsins er varða einelti og ofbeldi, samskipti okkar hvert við annað, verða einungis leystar ef okkur ber gæfa til að líta í eigin barm og sjá að öll erum við bæði góð og vond. Öll getum við bæði verið farvegur böls og blessunar.

 

Öll viljum við vera góð, en höfum einnig hvert og eitt okkar skuggahlið, við getum einnig verið vond. Það er ekki svo að ég og við séum góða fólkið og einhverjir aðrir vondir. Allt á það heima í lífi okkar allra, og verður fyrst tæklað og afgreitt þegar við berum gæfu til að nálgast þær stóru áskoranir á þeim forsendum, með því fyrst að líta í eigin barm.

 

Hvað ætlast Guð til af þér?

 

Hvað ætlast Guð til af þér?

Ætlast Guð til einhvers af okkur?

 

Mér finnst þessi spurning svolítið skemmtileg sem spámaðurinn Míka spyr, og ég varpaði fram hér í upphafi: Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

 

Þetta virðist eiga við á öllum tímum, þegar spámaðurinn Mika ritaði þetta fyrir öllum þessum árþúsundum og árhundruðum og einnig í dag.

 

Við vitum svo sem ekki nákvæmlega hvaða áskoranir það voru í samfélagi Míka, sem fékk hann til að tala á þessum nótum, en svo virðist sem ávallt sé þörf fyrir mannlegt samfélag að lyfta upp þessari spurningu og minna sig á það mikilvægasta.

 

Að gera rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti.

 

Það skulum við leitast við að gera, því það eflir kærleika og félagsauð, og er Guði til dýrðar.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.


Bústaðakirkja 20. sd. eftir þrenningarhátíð

30. október 2022 kl. 13