Sunnudagurinn 18. september er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni. Þá vekjum athygli á því hlutverki að þjóna þeim sem við deilum kjörum með. Þá er ekki aðeins átt við þann sem býr í næsta húsi heldur alla jarðarbúa og allt sem má verða til að allir fái það sem þeir þarfnast til að geta lifað með reisn.
Allir kannast við Gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“. Þetta hljómar einfalt en það er samt erfitt að lifa eftir henni. Þess vegna þurfum við stöðugt að minna okkur á að lifa í kærleika og sýna hann í verki. Við getum líka skoðað hvað vel er gert og glaðst yfir því góða. Það sést meðal annars í öllum þeim samtakamætti sem kemur fram í söfnunum til góðra málefna.
Í ár viljum lyfta fram því sjálfboðastarfi sem unnið er í kirkjunni, þakka fyrir það og hvetja fleiri til að vera með. Ótrúlega margt fólk leggur mikið af mörkum í starfi kirkjunnar, í safnaðarstarfi og í nefndum og ráðum sem ætlað er að styðja það. Sem dæmi má nefna að í Bessastaðakirkju starfs 60 sjálfboðaliðar að margvíslegum verkefnum. Í söfnuðinum eru rúmlega 2000 manns. Það er ástæða til að þakka þetta og benda á sem góða fyrirmynd.
Það væri ekki líft á jörðinni ef ekki væru svo margir sem vilja öðrum vel og sýna samstöðu og skilning. Sumt er sýnilegt en annað ekki. Öll góðverk eru þó fréttnæm því þau leiða til góðs fyrir aðra. Svo er annað mál hvort þau komast í fréttir því mörg góðverk eru unnin af hógværð. Kærleikur er góðvild, gjafmildi, umburðarlyndi, jákvætt viðhorf og svo margt fleira. Sagt hefur verið að það kosti ekkert að brosa en að það geti breytt dimmu í dagsljós. Í brosi felst kærleikur sem gefur líf. Kirkjan þreytist ekki á að boða kærleika til að minna okkur á að ganga veg þess góða. Fyrirmyndin er skýr en það er Jesús Kristur. Hann sýndi trú í orði og verki. Þannig ættum við öll að vera. Einn af biblíutextunum sem lesnir verða í guðsþjónustum landsins er Óðurinn til kærleikans. (1. Kor.13) Boðskapur hans er að þótt við töluðum fallega, vissum allt, gæfum allt sem við ættum og fórnuðum lífinu en sýndum engan kærleika þá væri allt til ónýtis. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ þó allt annað breytist.
Þegar spurt er hvers vegna fólk vilji vera sjálfboðaliðar er því oft svarað til að það vilji gefa eitthvað af sjálfu sér til stuðning öðrum eða það vilji byggja upp gott safnaðarstarf.
Nú er kallað eftir kröftum þín. Þú ert velkomin/n í hóp þeirra sem vilja láta gott af sér leiða á vettvangi kirkjunnar.