Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
Lúk. 21, 25–33
Gleðilega hátíð, kæri söfnuður, til hamingjum með 120 ára vígsluafmæli Hvalsneskirkju. Guð blessi þennan fagra helgidóm, og allt sem hann stendur fyrir í minningu og sögu byggðarlagsins, og þjóðarinnar. Ég þakka þeim sem annast þetta hús, af þeirri alúð og kærleika sem allt hér ber vitni um. Ég þakka þeim sem halda uppi helgum söng, helgri iðkun, hringja klukkum, þjóna að orði og sakramentum, annast um safnaðarstarfið. Ég þakka þeim sem húsum ráða hér í Hvalsnesi fyrir þá góðvild og gestrisni sem þau hafa fyrr og síðar sýnt þeim sem hingað koma. Guð launi þetta allt og blessi.
Þegar þetta hús reis þá var það eitt glæsilegasta hús landsins, og sannarlega tákn nýrra tíma á Íslandi. Ketill í Kotvogi vildi reisa kirkju úr steini sem staðið gæti um aldir. Nú finnst ýmsum hún vera minning um veröld sem var og horfinn heim og úrelt gildi. En sérhver kristinn helgidómur er tákn nýrra tíma, vísar til framtíðar, er vonartákn og trúar sem beinir sjónum lífs og sálar til framtíðar, til þess sem framundan er, lausnar og frelsis lausnarans. Helgidómurinn er helgaður Kristi, og bendir á hann og hamingjuveginn sem hann markar.
Og hér inni í kór Hvalsneskirkju er bautasteinn, sem ekki á sinn líkan í Íslandi. Steinninn stóri, sem harmþrunginn faðir klappaði í nafn augasteins sins, Steinunnar litlu og lagði yfir leiði hennar hér við Hvalsneskirkju. Og meitlaði síðan ljóðin sín í hjörtu þjóðarinnar, milda huggun, hlýja von, karlmennskukraft og heila trú: „Ég lifi´í Jesú nafni, í Jesú nafni´eg dey. Þótt heilsa og líf mér hafni hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt. Í Kristí krafi´ég segi: Kom þú sæll þá þú vilt!“ Þetta er kraftmikil játning og vitnisburður, sem um aldir hefur hughreyst, styrkt og blessað kynslóðirnar í þessu landi og borið uppi gegnum harminn.
Guðspjall dagsins fjallar um okkar tíma, krepputíma, tíma vandkvæða, angistar og uppgjafar, um dóm, dómsdag. En guðspjallið er gleðifrétt og uppörvun, hvatning: „Þegar það tekur að koma fram þá réttið úr yður og lyftið höfðum yðar, því lausn yðar er í nánd,“segir Kristur. Og þetta þurfum við að heyra. Það er Drottinn, sem dæmir. Það er Drottinn sem hefur síðasta orðið, réttlætið, kærleikurinn, fyrirgefningin, náðin. Jesús, sem fæddist í Betlehem, læknaði, líknaði, flutti fjallræðuna og sagði dæmisögurnar um týnda soninn og góða hirðinn. Hann sem var dæmdur til dauða á krossi og bað fyrir böðlum sínum og huggaði sambandingja sinn. Hann sem steig niður til heljar, í dýpstu djúpin, og reis af gröf. Hann mun hafa síðasta orðið, hann mun dæma heiminn. Kirkjan horfir fram til hans með vongleði. Um það vitnar Hvalsneskirkja, og öll iðkun og atferli kristinnar kirkju.
Það er hart tekist á um lífsskoðanir í samtíðinni, og Þjóðkirkjan stendur undir dómi. Grunnstef okkar samtíðar birta að skammt er öfganna á milli, annars vegar er óheft tæknitrú, tómhyggja og mannhyggja, sem skilgreina alla trú sem hindurvitni, hins vegar hatrömm bókstafshyggja, múslimsk – en líka kristin. Það er alveg áreiðanlegt að ef látið verður undan kröfu þeirra sem vilja dauðhreinsa hið opinbera rými af kristnum trúartáknum, viðmiðum og tjáningu, þá væri einmitt verið að opna fyrir öfgum og hleypidómum af öllu tagi. Og það sjáum við svo greinilega þessa dagana.
Í Reykjavík auglýsir Tónlistaþróunarmiðstöðin tónlistarhátíð rétt fyrir jól undir heitinu „Andkristni 2007.“ Hátíðin er beinlínis til höfuðs kristinni trú. Tekið er fram í auglýsingunni á vefnum að samtökin Vantrú verði með bás og eyðublöð til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. Hátíðinni er ætlað að rífa niður, niðra og níða það sem kristnum mönnum er heilagt og hefja dauðann og djöfulinn á stall. Mér varð illt af því að lesa vefsíðuna með auglýsingunni og meðfylgjandi athugasemdum haturspostulanna.
Það er augljóst að minni hyggju að valið snýst ekki um trú eða trúleysi heldur um heilbrigða og óheilbrigða trú. Manneskjan er haldin ólæknandi trúhneigð. Hún brýst bara fram með ýmsum hætti og formerkjum. Það er hlutverk samfélagsins að miðla og rækta heilbrigða trú og stuðla að með tiltækum ráðum. Heilbrigð trú er trú sem vex og þroskast í samfylgdinni við góðan Guð, heilbrigð trú telur sig ekki sitja inni með öll svörin, hún er glíma við Guð, horfist í augu við syndina og dauðann, hið illa og ljóta í tilverunni, og tekst á við lífið og veruleikann af ábyrgð og raunsæi, og skynsemi. Heilbrigð trú er trú sem virðir Guð, jafnvel þótt hún skilji hann ekki, og ber virðingu fyrir náunganum, líka þeim sem er öðru vísi og jafnvel ógeðfelldur. Ekki í blindu og þöglu skoðanaleysi sem oft er nefnt umburðarlyndi, heldur því umburðarlyndi sem virðir manneskjuna og frelsi hennar. Og er því reiðubúin að gera grein fyrir afstöðu sinni, og taka við gagnrýni ef svo ber undir, í heiðarlegum og opnum skoðanaskiptum, sannleikanum trúr í kærleika.
Andtrúin er trú, iðulega borin uppi af trúarhita. Mannhyggjan er líka trú. Trú á mannsins mátt og megin og hyggjuvit. Ég vil ekki varpa rýrð á heilindi og trúarvissu þeirra sem fyrir því standa, en ég er hræddur um að mannsins megin og hyggjuvit nær skammt. Og verður seint grundvöllur hins góða samfélags. Reynslan sannar það.
Þjóðkirkjan vill greiða veg heilbrigðri trú, með boðun, bæn og þjónustu í kærleika. Deilur undanfarinna daga um sess trúar í skólum er ekkert hégómamál, heldur deila um grundvallaratriði. Málflutningur talsmanna trúleysis hefur verið öfgakenndur, og oft ofsafenginn. Veist er með grófum hætti að sannfæringu fólks sem rækir trú sína og ekki síst í garð þess fólks sem er í forsvari fyrir kirkju og trú og tekur meðvitaða, menntaða og ígrundaða afstöðu til trúarinnar. Andtrúin sækir inn í hin helgu vé.
Mannhyggja, húmanismi, er fallegt orð, og fögur hugsjón, sem sprottin er af rótum hins kristna fagnaðarerindis, mannskilnings og heimsmyndar. Kristin trú er mannúðarstefna, vegna þess að hún játar trú á Guð sem varð maður, Guð sem elskar manninn og virðir svo að hann gaf sinn einkason í dauðann, svo við mættum lifa. Guð sem varð maður og helgaði mannlegt allt, já lífið allt, himninum sínum, eilífð sinni. Sem heldur fram eilífu gildi sérhvers mannsbarns, líka hins veika og sjúka. Og hvetur sérhvern mann til að elska náungann eins og sjálfan sig. Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa.
Aldrei var brýnna en einmitt nú á tímum, andspænis vaxandi fjölmenningu, að efla kristinfræði og líka trúarbragðafræðslu í skólunum og að stórauka menntun kennara í þessum efnum. Annars teflum við því í tvísýnu hvort upprennandi kynslóðir verði yfirhöfuð læsar á menningu þjóðar sinnar. Þjóðkirkjan vill standa með skólunum og leggur höfuðáherslu á að trúarbragðafræðsla og kristinfræði fari fram á faglegum forsendum skólans og að fyllsta tillit sé tekið til ólíkra lífs- og trúarskoðana af virðingu og umburðarlyndi. Það gerist ekki með því að útiloka hinn trúarlega þátt og kærar hefðir eins og hatrammlega hefur verið kallað eftir í umræðunni undanfarið.
Það er nefnilega svo að trúhneigð manneskjunnar er ólæknandi, og leitar sér svölunar. Af því að Guð hefur skapað okkur til samfélags við sig og hjarta manns er órótt uns það hvílist í honum. Þetta er grundvallarstaðreynd. Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.
Hvalsneskirkja stendur hér á ströndinni og horfir við brimöldinni sem kveður sinn rammaslag án afláts. Sömu brimhljóðin drundu í eyrum þeirra Guðríðar og Hallgríms forðum og mynduðu bakgrunn þeirra hörðu lífsbaráttu, vonbrigða og sorga, vona og gleði, eins og kynslóðanna fyrr og síðar hér á ströndinni. Hér stendur kirkjan eins og viti, sem vísar leiðina öruggu, réttu, gegnum bárur, brim og voðasker. Ef til vill hefur Hallgrímur horft hér til kirkjudyra, eða var það kannski á leið hér heim að kirkjunni með Steinunni litlu sér við hönd, þegar hann orti:
„Dyr lífsins standa opnar enn, að því skyldir þú gæta senn, út stendur breiddur faðmur fús, fríður Jesús, hann býður þér í þetta hús.“Kirkjudyrnar tákna lífsins dyr. Vegurinn hér heim og leiðin hér inn er vel þess virði að feta hann. Gæfuvegur, hamingjuleið. Og hér inni er friður, friðarathvarf og skjól. Helgur staður, heilagt hús, Guði helgað og vilja hans. Hér á altarinu eru helgir dómar kirkjunnar. Það er bókin helga, Biblían, orð Guðs, leiðarljósið góða. Þar eru ljósin, björtu og hin helgu ker. Á miðju altarinu er krossinn, lausnarinn með útbreiddan faðminn. Og hér fyrir ofan er mynd hins upprisna, hans sem sigraði dauðann fyrir okkur, fyrir heiminn.
Og helgidómurinn segir: Drottinn hefur fetað þann veg sem þú fetar, siglt þann sjó sem þú siglir, mætt þeim ágjöfum sem þú mætir, þeirri sorg sem þig slær. Allt það tók hann á sig og helgaði það sér og upprisusigri sínum. Á það minnir skírnin þín. Trúin byggir á þessum staðreyndum, og hún horfir fram til þess er sigur hans verður öllum augljós og birtan hans bægir burt öllu myrkri, og röddin hans milda lægir öll veður og hastar á ólögin öll.
Það er mikilvægt einu byggðarlagi, þjóð og landi að virða sína helgistaði, helgar hefðir og minningar. Það er traustasti grundvöllur farsældar, menningar og hagsældar þjóðarinnar. Sú þjóð sem vanvirðir sína helgidóma er að kasta frá sér fjöreggi sínu, frelsi og menningu. Vegna þess að menning er minning, virðing við samhengið sem við stöndum í sem samfélag, sem manneskjur, hver annarri og Guði háðar um eitt og allt sem máli skiptir.
Himinn og jörð munu líða undir lok. En orð Guðs aldrei. Dyrum heimsins er lokað, einum af öðrum, vonbrigðin, sorgin, þjáningin, dauðinn skella hurðum að stöfum, vonleysið sest að, uppgjöfin. En dyr lífsins standa opnar, faðmur Drottins er opinn enn, heimboð hans stendur og framtíð hans lýkst upp.
„...réttið úr yður og lyftið höfðum yðar, því lausn yðar er í nánd,“