Einelti er alltaf andstyggð, hver sem fyrir verður, barn eða bankastjóri.
Á umliðnum misserum hefur verið unnið að vitundarvakningu varðandi einelti gegn börnum og einelti á vinnustöðum. Við höfum séð hversu miklu má áorka þegar sett eru í orð og sagt frá reynslu af einelti og ofbeldi sem börn verða fyrir og samstaða næst um að standa gegn því að slíkt þróist. Það fólk sem þar hefur gengið fram fyrir skjöldu, þeir vökumenn sem hafa snúið biturri reynslu af böli og sorg upp í virkni til góðs í þágu annarra einstaklinga og samfélagsins, það á heiður skilinn.
Mótmæli er heilagur réttur í lýðræðissamfélagi. En fréttir af mótmælunum á Arnarhóli undanfarið vekja óhug og áleitnar spurningar.
Þegar gerður er aðsúgur að hinum eina, þegar einstaklingur er hundeltur, bannsunginn, níddur, honum bölvað, þá er það andstyggð í augum Guðs og góðra manna. Enginn á slíka meðferð skilið, hvorki smælinginn né heldur bankastjórinn.
Hvaða skilaboð við erum að gefa börnunum okkar um hvernig leysa beri úr deilum og misklíð?