I
Ég var að hlýða yngsta syni mínum yfir fyrir próf í líffræði í vikunni. Hvað haldið þið að standi í fyrsta kaflanum í fyrstu kennslubókinni í lílffræði sem unglingarnir okkar lesa í menntaskóla? Þar stendur að allt sem lifir deyi að lokum. Þessi tíðindi færir hann Örnólfur Thorlasíus unga fólkinu: Allar lífverur á jörðinni deyja þegar þær eru búnar að lifa, og bætir við þeirri staðhæfingu að líffræðin fjalli um lífið og eðli þess en geti ekki svarað spurningum um tilgang lífsins eða um guð. Ég verð að játa að ég renndi þakkarhuga til míns gamla lærimeistara úr MH. „Flottur karl hann Örnólfur” hugsaði ég.
Einhver myndi e.t.v. líta svo á að dauðinn sé svo sjálfsagt mál að ekki þurfi að hefja líffræðibók á því að ræða veruleika hans. En Örnólfur Thorlasíus hefur umgengist ungt fólk allt sitt líf og hann veit að það er hollt einmitt þegar maður er sextán að verða sautján að vera minntur á staðreynd dauðans, því aldrei er maður eilífari í eigin huga og þ.a.l. aldrei eins líklegur til að fara sér að voða. En vitaskuld er það engin frétt að allt sem lifir deyji að lokum. Á nákvæmlega sama máta er það engin frétt sem Jesús færir í guðspjalli dagsins er hann segir: „Himinn og jörð munu líða undir lok.” Þetta er einmitt það sem allir vita. Allt fólk veit að veröldin er laus á límingunum. Við vitum ofurvel að við sjálf og allur veruleikinn er eitt flæðandi mengi sem aldrei stendur kyrrt. Við þurfum enga kreppu til að kenna okkur þá staðreynd að fasteign er bara skynvilla. Ekkert er fast. Engin eign er varanleg. Munið þið gömlu Volvo-bílana? „Fasteign á hjólum!” stóð í afturglugganum á þeim og maður var bara snortinn af að lesa þetta. En auðvitað ryðguðu þeir alveg eins og allir hinir og voru engin fasteign þegar upp var staðið.
Enda þótt þessi vitneskja, vitundin um hverfulleika efnisheimsins, sé öllum ljós þá er svo merkilegt að það er ekki óalgeng tilfinning að orð Jesú í guðspjöllunum um endalok alls veki með okkur tilfinninguna fyrir því að verið sé að hóta okkur eða gera tilraun til að hræða fólk til trúar. En ekki er Örnólfur Thorlasíus að hræða framhaldsskólanema þegar hann segir þeim að allar lífverur deyi?! „Himinn og jörð munu líða undir lok,” er líka bara formáli Jesú að stórmerkri yfirlýsingu sem vert er að staldra við. Setningin hljómar svo: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Hér er gott umhugsunarefni. Skyldi eitthvað vera sem ekki líður undir lok?
II
Við hjónin fórum saman í Borgarleikhúsið í þarsíðustu viku að sjá stórmerkilegt leikrit, Dauðasyndirnar sjö. Einn af fjórum leikurum þeirrar sýningar, Halla Margrét Jóhannesdóttir, syngur eiinmitt hér í kórnum og ég verð að segja að það var stórkostlegt að upplifa hana og samstarfsfólk hennar á sviðinu sem raunar teygði sig um allan stóra salinn í Borgarleikhúsinu. Í þessu stykki fá áheyrendur að standa á hliðarlínunni í miklum hildarleik sem byggður er á hinum Guðdómlega gleðileik eftir ítalska skáldið Dante frá upphafi 14. aldar þar sem skáldið sjálft fer í sérstakan leiðangur niður í gegnum hinar níu hæðir helvítis. Í þessu verki eru það fjórir trúðar sem taka að sér að segja söguna og leiða áhorfendur með sér um völdunarhús myrkurs og lasta og sú húsaskipan sem þar opnast verður á köflum óþægilega lík ýmsu sem maður þekkir of vel í eigin tilveru. Helvíti verður manni nákomnara, kunnuglegra en maður hefði óskað, og svo er hlegið að þessu öllu saman og þegar maður loks er sestur upp í bílinn sinn eftir sýninguna og búinn að spenna beltið spyr maður sig „Hver var raunverulega trúðurinn í þessari sýningu?” Og hvað heldur þú að einkenni nú helvíti samkvæmt sögunni? Höfuðeinkenni helvítis er það að þar er bara fortíð og framtíð en nútíð finnst engin. Á fyrstu hæð í þessu merka fjölbýlishúsi, sem er svo haganlega fyrirkomið að önnur hæðin er undir þeirri fyrstu og svo koll af kolli niður á við, þar heitir Limbó. Í Limbó er allt eins og við viljum hafa það. Þar er allt til alls, engan skortir neitt og smjör drýpur af hverju strái. En það er eitthvað. Eitthvað sem ekki er hægt að þreifa á... Einhver óeirð í öllu og öllum. Íbúar Limbó sjá og vita að þeir hafa allt... en það er líka allt sem þeir hafa. Ástæðan er sú að þar er ekkert nú, bara fortíð og framtíð. Óbreytanleg fortíð og endalaus framtíð en enginn andrá.
Þegar íslensk vísitölufjölskylda sest að kvöldverðarborði kostar það sérstakt átak að draga alla samtímis inn í andrána. Það þarf að þagga í nokkrum gemsum, slökkva á tölvum, slá út flatskjáinn, draga I-podþræði út úr eyrum, slökkva á tónlist í útvarpi o.fl. o.fl. bara til þess að tryggja að þessar fjórar til fimm manneskjur sem þarna ætla að matast saman séu til staðar þennan rúma hálftíma. Og stundum megnum við ekki að standa í þeim átökum sem þetta kostar. Hvert einasta heimili verður aftur og aftur skarkalanum að bráð. Ég hef sagt það áður hér að ég held að sú kynslóð sem nú stendur á þröskuldi sín sjálfstæða lífs í þessu landi sé ruplaðasta og rændasta kynslóð sem staðið hefur á íslenskri grund. Við höfum rænt hana núinu í andrúmi samanburðar og ódýrrar afþreyingar. Frá blautu barnsbeini hafa þau verið í prógrammi, fylgt leiðsögn í hópi. Í sífellu hafa þau svo mátt þola það að vera borin saman við hópinn og ætlað að uppfylla árangursstaðla á öllum sviðum. Enginn er í 4. bekk heldur allir á leið í þann fimmta. Enginn er í 8. bekk því það eru samræmdu prófin sem gilda. Og að þeim loknum kemur spurningin stóra: Hvað ætlar þú að verða? Því okkur kemur ekkert við hver þú ert núna, þar eð núið er ekki til, bara framtíðin þar sem samkeppnin bíður og allt árangursmatið. Við afhentum þessari kynslóð GSM símann í einhverskonar öryggisskyni. Fyrir var veröld þeirra svo sem nógu skarkalasöm en frá þeim degi varð ekki stundlegur friður. Um svipað leiti bættust við flókin fjarskiptaforrit á vefnum, - msn kom ofan á sms, og nú hefur Facebook sallast ofan á Myspace og allt er þetta skemmtilegt í sjálfu sér nema hvað það er mikið álag að lifa, missa ekki af, verða ekki seinn í prógramminu, heyra og sjá allt sem nema skal og skila öllum verkefnum á réttum tíma svo að besta hvíldin er sú að hafa eitthvað í eyrunum og fá þá að vera einn með sjálfum sér í skjóli einhverra tóna sem yfirgnæfa öll hin áreitin.
„Gætið ykkar, vakið!” Segir Jesús frá Nasaret. „Þið vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þið vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna ykkur sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi ykkur, það segi ég öllum: Vakið!“
Þú ert dyravörður. Þér ber að vaka. Ef stolið er úr húsinu er ábyrgðin þín.
Hvernig gat það gerst að við sofnuðum og tókum ekki eftir því þegar þjófurinn læddist að börnum okkar og tók frá þeim eirðina, andrána svo að þau urðu prógramminu að bráð í endalausri framtíð? Og til að bíta hausinn af skömminni þá erum við búin að skuldsetja þau í þeirri sömu framtíð. Hvernig gat þetta gerst?
III
Við heyrum lifandi tónlist hér í dag í flutningi frábærra listamanna Nýja Kvartettsins. Hvers vegna settum við ekki bara nýja diskinn þeirra í græjurnar? Hér eru þessi fínu hljómflutningstæki, hvað vorum við að þiggja heimsókn þeirra sjálfra? Ástæðan er sú að við þekkjum muninn á lifandi tónlist og varðveittri tónlist. Við þekkjum muninn á að vera í leik eða í prógrammi. Við vitum hvað það er að lifa núna eða lifa seinna. Við vitum hvað það er að finna eirð í sínum beinum, vera með sjálfum sér, lifa stundina. Við vitum m.ö.o. ofur vel hvað Jesús meinar þegar hann segir okkur að vaka!
Í guðspjalli dagsins ögrar frelsarinn okkur til þess að þora að lifa vakandi og láta ekki ræna okkur og rupla. Nákvæmlega sama málefni er til staðar í þriðja boðorðinu þegar það áminnir okkur og segir “Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.” Gleymdu ekki að leika þér! er verið að segja. Leyfðu hvíld og endurnæringu að koma. Láttu ekki núið af hendi. Slepptu ekki frá þér andránni því annars muntu deyja. “Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” Skyldi eitthvað vera sem ekki líður undir lok? Spurði ég áðan. Fortíð og framtíð líða undir lok. Það er ekkert í fortíð þinni sem skilgreinir þig að eilífu og dag einn er framtíð þinni lokið. En í andránni er Guð að hlusta á þig. Guð er alltaf hér. Hann er núna. Og áður en Guð segir okkur í boðorðum sínum að stela ekki eigum annarra eða misvirða líf þeirra, mannorð og heilsu þá biður hann okkur að missa ekki sjónar af lífinu, núinu. Ég kann ekki að svara því hvernig allt gat farið eins og það fór og ég veit ekki um neinn sem kann það svar. Það eina sem ég þori að fullyrða er það að svarið við fortíðinni og framtíðinni liggur í núinu. Hún Heiðrún sem hér var borin til skírnar áðan lifir í núinu og það er engin leið að hitta hana nema þar. Ef við ætlum að standa við loforð okkar gagnvart henni og öðrum börnum okkar þá verðum við að finna leiðina aftur inn í núið, þar bíða þau eftir okkur börnin og þar er líka hann sem sagði: “Hver sem tekur við einu [...] barni í mínu nafni tekur við mér.” (Matt. 18.5) Amen.
Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ Mark 13.31-37