I Finnum við það ekki á þessu hausti hvað við erum orðin lúin á sjálfum okkur sem þjóð? Ef það er eitthvað sem allir Íslendingar eru sammála um í dag þá er það það að eitthvað er að. Það er eitthvað að! Það er ekki náttúran sem hrellir okkur. Það eru gæftir til lands og sjávar og m.a.s. hræðilegar eldgosahrinur á suð- austurlandi hafa ekki náð að leggja mannlífið á hliðina heldur hefur fólk þar snúið vörn í sókn. Fjárhagshrunið hefur ekki eytt byggðum og efnahagslífið er að rétta úr kútnum. Og þótt stórar nágrannaþjóðir hafi rekið í okkur olnbogann í upphafi fjármálafársins þá eru engar blikur á lofti lengur í þeim efnum og við vitum að við eigum enga máttuga óvini nokkurs staðar en njótum öllu heldur velvildar og áhuga annarra þjóða. Við höfum líka nægtir af vatni og orku, nóg af mat og húsnæði, stórkostlegt land til að búa í, heilsugæsla, menntakerfi, samgöngur... á ég að þreyta ykkur með lengri upptalingu? Við höfum einfaldlega allt sem milljónir manna um allan heim skortir en samt er eitthvað mikið að.
II Guðspjall dagsins er fengið úr 12. kafla Markúsarguðspjalls og mér sýnist hann fjalla um þetta sem er að þegar ekkert er að.
Í þessum eina kafla er greint frá samskiptum Jesú við fulltrúa þriggja aðferða í mannlegum samskiptum sem alltaf leiða til sömu vandræða.
Fyrstur gengur fram klækjarefurinn. Eitt af því sem þreytir okkur og lamar sem þjóðfélag er t.d. sú langþróaða klækjahefð sem við höfum samþykkt í stjórnmálum landsins. Við gerum ekki þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir séu heiðarlegir heldur álítum við að stjórnmálamaður eigi að vera sléttur að utan en útsmoginn að innan. Það eru farísear sem koma til Jesú og byrja á því að skjalla hann í því skyni að gera hann ringlaðan: “Meistari, við vitum að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gerir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.” Svo kemur hin klóka spurning: „Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?” Málið var að hvort sem þessari surningu var svarað játandi eða neitandi var maður kominn í vandræði, því spurningin var heitasta deilumál satímns í hinu hertekna landi Gyðinga. Farísearnir höfðu engan áhuga á svari Jesú, þeir voru bara að reyna að koma honum á hálan ís. Þá stendur skrifað: „En Jesús sá hræsni þeirra”... og svo munum við hvernig hann fór að, lét þá rétta sér skattpening, spurði þá hvers mynd og yfirskrift væri á myntinni, og þegar þeir nefndu keisarann ansaði hann: Gjaldið keisaranum það sem keisarans er, og Guð það sem Guðs er.” (Mark. 12.17)
Næstur kemur þrasarinn. Það er aldrei skortur á þrasi í mannlífinu og saddúkearnir sem svo voru nefndir sýna að þeir voru verðugir fulltrúar þeirrar afstöðu. Þrasið er þrautreynd aðferð. Þrasarinn ætlar ekkert, vill ekkert og virðir ekkert. Hann hyggst bara þrasa. Þeir hefðu fundið sig vel á athugasemdadálkum alnetsins saddúkearnir. Það er ekki að vita nema að þar hafi þróun tækninnar e.t.v. fundið hið náttúrulega umhverfi þrasarans. Nafnlalust og skuldlaust má þar varpa sér yfir menn og málefni og lifa glundroðann án eftirmála. Saddúkearnir koma til Jesú og bera upp alveg dæmalausa sögu um konu sem verður fyrir því að hún missir hvern eiginmanninn af öðrum uns hún hefur átt sjö menn sem allir eru látnir. Loks deyr konan sjálf barnlaus og sjöföld ekkja eftir alla sína eiginmenn. Og svo spyrja þeir með glampann í augunum: „Í upprisunni, þegar menn rísa upp. Kona hvers þeirra verður hún þá?” Svar Jesú andar af pirringi þegar hann byrjar á þessum orðum: „Er það ekki þetta, sem veldur því að þið villist... og hann lýkur svari sínu með því að segja: „Þið villist stórlega.”
Loks kemur oflátungurinn. Það er fræðimaður sem hlýtt hefur á samtal Jesú við faríseana og saddúkeana, klækjarefina og þrasarana, og nú hyggst hann nýta sér tómarúmið og skora mark vegna þess að yfirlætið ólmast í hjarta hans. Yfirlætið er mikið afl. Oflátungurinn ávarpar Jesú í hlutverki fræðimannsins og varpar fram greindarlegri spurningu: „Hvert er æðst allra boðorða?” Jesús svarar: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrel! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottinn, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllu mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.” Og við getum séð fyrir okkur fræðimanninn þar sem hann stendur fullur af sjálfum sér og teygandi í sig augnablikið því skyndilega er hann sjálfur orðinn miðdepill jákvæðrar athygli með faríseana og saddúkeana standandi svona líka sneypulega á hliðarlínunni. Og í því skyni að framlengja þetta sælukennda sturtubað endurtekur hann bara það sem Jesús er búinn að segja og bætir engu við nema sjálfum sér: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.” „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.” Ansaði Jesús. En örfáum versum síðar mælir hann: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir eta upp heimili ekkna en flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.” (v.38-40) - Varist fræðimennina!
III
Nei, klækir og þras og yfirlæti eru ekki vænlegar leiðir í mannlegum samskiptum að mati Jesú.
Eitt skulum við hafa alveg á hreinu áður en ég held áfram; Þrá oflátungsins, löngunin til þess að vera öðrum meiri býr í hverjum manni. Þrasarinn býr líka í sál okkar allra og klækjarefurinn sleppir stundum athugasemdum sínum yfir varir okkar hvers og eins. Við erum ekki að tala um neina aðra en okkur sjálf hérna. Við vitum það vel. Það er þess vegna sem þetta er svo mikilvægt.
Sagan fær óvæntan endi. Sögusviðið er sjálft musterið í Jerúsalem og þegar þessi samtöl eiga sér stað á Jesús fáa daga ólifaða á jörðu, pálmasunnudagur er næsti sunnudagur. „Jesús settist gegnt fjárhirslunni” segir guðspjallið „og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhrisluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.” (v. 41-44) Tökum eftir orðalaginu, hvernig tekið er fram í þrígang hvað konan var að gera: hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.
Það er enginn skortur á hroka í samfélagi okkar sem gerir lítið úr þeirri visku sem Biblían flytur. Það er líka gott að hrokinn lendi þar því „hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið” sagði Jesús, „en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið.” (Lúk. 12. 20) Þar vísar hann til þess að heilagur andi býr í fólki. Það má hæða Krist en það má ekki hæða mennskuna. Það má hæða visku trúarinnar í spað, því allt það háð sem trúin hlýtur vitnar um gæði hennar og enn óma hæðnishrópin sem Kristur þoldi á krossinum og bera dýrð hans vitni. Það er bara þegar hrokinn étur upp heimili ekkna og varnarlauss fólks eða rænir það öðrum lífsnauðsynjum sem Jesús kvartar. Og hér bendir hann á mennskuna í varnarleysi sínu, fátæka ekkju, sem er ríkust af öllum, sterkust af öllum vegna þess að hún er í tengslum við veruleikann en ekki á valdi rembingsins.
Hann hefur hnippt í lærisveina sína í mannþvögunni, ‘sjáiði, sjáiði, sjáiði þessa konu! Þessa þarna í slitnu fötunum. Nú hverfur hún þarna bakvið súluna! Ég segi ykkur satt. Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.”
Við vitum það en við þorum ekki að lifa það. Við þorum ekki að trúa því sem við vitum þó í hjarta okkar, að enginn á neitt fyrr en hann hefur látið það af hendi.
Þess vegna erum við á valdi rembingsins. Þess vegna beitum við klækjum, þrösum og þrætum og hefjum okkur hvert yfir annað og komumst ekki spönn frá rassi. Við höfum allt en vegna þess að við þorum ekki að deila því erum við áfram fátæk þjóð. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að okkur líður ekki vel þótt ekkert skorti og það eina sem allir geta verið sammála um er það að eitthvað er að.
Amen.