Er ekkert nýtt undir sólinni?

Er ekkert nýtt undir sólinni?

Leyfum Drottni að þvo okkur hrein. Við verðum að trúa orðum Jesú, þegar hann sagði að hann yrði með okkur alla daga allt til enda veraldar. Hann er með okkur, fer með okkur í gegnum hverja raun.
fullname - andlitsmynd Bryndís Svavarsdóttir
09. apríl 2020

  Stutt hugleiðing  á skírdag 2020                                               Slm 116.12-19,  1Kor 11.23-29,  Jóh 13.1-5, (6-15), 34-35

Í dag lifum við undarlegt ástand í heiminum, hinn kristni boðskapur sem byggist á kærleika þarf að finna nýjar leiðir til ná til fólks. Við skulum aldrei gleyma því að Kristur er ekki í samkomubanni, hann geymum við í hjartanu og getum átt samverustundir með honum hvenær sem er.

“Fordæmalaust” er orðið sem menn nota um ástandið í heiminum, við höfum ekki lifað hvílíkt ástand en nýlega sá ég ljóð sem hafði verið samið í samkonar ástandi um 1870 og svo er spænska veikin 1918 mönnum í fersku minni… Kannski er það eins og Prédikarinn segir: Ekkert er nýtt undir sólinni, það hefur allt gerst áður… pestir ganga yfir heiminn, styrjaldir geysa og menn virðast endalaust gera sömu mistökin…  Er það þá rétt… er ekkert nýtt undir sólinni?......... jú, við sem eigum Krist að leiðtoga lífs okkar, getum sagt að fórn hans, þegar hann fór á krossinn fyrir okkur – var einstök, fórn hans var nýtt undir sólinni… svo ótrúleg gjöf til mannkynsins að það þarf aldrei að endurnýja þessa gjöf. Við þurfum bara að meðtaka hana, taka við henni eins og lærisveinarnir tóku við brauðinu, víninu og þáðu fótaþvottinn hjá Jesú.
Við þurfum að leyfa Drottni að þvo okkur hrein… skola synd vantrúarinnar burt… fylla hjörtu okkar af kærleika til hvors annars og fylla líf okkar af birtunni frá ljósi heimsins.

Við verðum að trúa orðum Jesú, þegar hann sagði að hann yrði með okkur alla daga allt til enda veraldar. Hann er með okkur, fer með okkur í gegnum hverja raun

Í samkirkjulegu bænunum sem eru fluttar á hverjum degi segir: Hjálpaðu okkur Drottinn að vera kærleiksríkt faðmlag… og það gerist núna í gegnum netið…

Á samfélagsmiðlunum keppist fólk við að finna upp á leikjum sem stytta stundir, það eru settar upp áskoranir og ótrúlegir söngvarar spretta upp… svo að það er ekki bara heimurinn sem er gjörbreyttur heldur einnig net-heimurinn.  Það er svo aðdáunarvert hvað allir eru ákveðnir í að standa saman… og vilja hjálpast að, að komast í gegnum þetta ástand á kærleiksríkan hátt og með gleði sem geislar út frá þeim og frið í hjarta.

Þegar á reynir, stöndum við saman.
Ég bið að Guð gefi okkur styrk til að standast þessa raun og gefi okkur kraft sem eflir okkur og gerir okkur sterkari en áður. Ég bið Guð að blessa þá sem eru veikir, gefa þeim lækningu og hugga þá sem syrgja. Guð veri með okkur öllum.

Bæn dagsins gefur okkur þessi skilaboð:
Jesús Kristur, brauð lífsins. Í brauði og víni gefur þú okkur hlutdeild í guðlegum leyndardómi lífs þíns, yfirbugar aðskilnaðinn sem synd okkar veldur og tekur okkur með þína leið, þinn veg, fórnar og þjáningar til eilífs lífs svo að við séum hjá þér eins og þú ert hjá okkur að eilífu. Amen.

Netmessa, stutt hugleiðing, ákveðið með stuttum fyrirvara... tekin upp í Tálknafjarðarkirkju og sett á netið á Skírdag 9.apr. 2020

https://www.youtube.com/watch?v=2X6kAamreas&t=3s