Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jh 10.11-16Biðjum: Drottinn, kenn oss að skilja, að eins og stjörnur himinsins sjást aðeins í kyrrð næturinnar, þannig er það aðeins í kyrrð sálarinnar sem undur þín birtast. Gef að vér í kyrrð hjartans getum séð hið minnsta strá í alheimsgeimi umlukt elsku þinni. Amen.Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hún er lifandi og flestum auðskilin líkingin sem við finnum svo víða í Biblíunni um samband Guðs og manneskjunnar. Hirðirinn sem gætir hjarðar sinnar. Manneskjan, hjörðin, svo ótrúlega fjölbreytileg. Barátta, óstöðugleiki. Guð verður smár í þeirri veröld. Veröld neyslu, hraða og óstöðugleika. Þar getur orðið erfitt að koma augum á Guð og fingraför hans. Það er því djúpur sannleikur í indversku bæninni sem beðin var hér í upphafi: Aðeins í kyrrð sálarinnar birtast undur Guðs. Það er svo sjaldan algjör kyrrð. Við veljum okkur oft ys og þys. Og stundum er eins og valið hafi verið fyrir okkur. Umferð, tækin öll sem stjórna lífi okkar og tíma æ meira. Farsíminn hringir í miðri útför og undir lestri guðspjallsins í messunni. Það virðist nánast ómöglegt að vera utan þjónustusvæðis í dag. Fegurð hins smáa og hversdagslega fer framhjá. Á hraðferð gleymum við að njóta augnabliksins, því við erum alltaf á leiðinni, komin í huganum á annan stað. Við spyrjum: Hvar er sá staður og sú stund þar sem ég má næðis njóta í hraða hversdagsins?
Ég er góði hirðirinn, segir Jesús. Áheyrendur hans þá og nú eiga auðvelt með að tengja líkinguna við veruleikann. Og hér í hinni blómlegu sveit Eyjafjarðar talar boðskapurinn inn í aðstæðurnar. Falleg og lýsandi mynd er dregin upp af hversdagsleika sveitalífsins. Hirðirinn gegndi afar mikilvægu hlutverki í bændasamfélagi austurlanda - og gerir eflaust enn. Sauðkindin er þar álitin allra skepna kjarkminnst og án góðs hirðis er hún algjörlega hjálparvana og auðveld bráð villidýra. Árverkni hins góða hirðis er því raunveruleg spurning upp á líf og dauða. Svo gat líka hent að stigamenn sætu í launsátri til að ræna úr hjörðunum. Ábyrgð hirðisins er því stór. Hann þarf að standa skil á hjörð sinni - og góður hirðir sem tók starf sitt alvarlega bar umhyggju fyrir hjörðinni og sú umhyggja gat jafnvel náð svo langt að hann var tilbúinn að fórna lífi sínu fyrir hjörðina. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.
Það er vert að hafa í huga að fjárhirðirinn í landinu helga var frábrugðinn íslenska smalanum að því leyti að fjárhirðirinn gekk á undan hjörð sinni. Því leggur hjörðin allt sitt traust á hirðinn, sauðirnir þekkja hirðinn og góður hirðir þekkir sauði sína - þarna ríkir gagnkvæmt traust. Ég er góði hirðirinn. Hér er dregin upp mynd sem felur í sér í senn umhyggju og kærleika. Hann er fær um að vernda hjörð sína fyrir utanaðkomandi aðkasti og hættum. Hann ber einnig þá umhyggju sem nær út yfir líf og dauða.
Hirðir - hjörð. Svona er kirkjan okkar. Hún er ekki stofnun eða steinsteypa heldur hreyfing. Fólk á ferð. Og þar eins og annars staðar er misjafn sauður í mörgu fé. Hjörðin spannar litrófið allt. Mórautt, svart, hvítt, flekkótt, kollótt, hirnt. Þráakindur, heimalingar, flökkukindur og forystusauðir. Þannig er mannlífið og þannig er kirkjan, alla veganna fólk á ferð. Styrkleiki kirkjunnar felst einmitt í fjölbreytileikanum. Innan hennar rúmumst við þrátt fyrir misjafnar skoðanir og ólík sjónarmið. Kirkjan er fjöldahreyfing, samfélag, sem er sammála um frelsarann Jesú Krist. Það vegur þyngst. Einn hirðir - ein hjörð.
Á prestastefnu, sem haldin var í Keflavík, í síðustu viku átti sér stað umræða um samkynhneigða og aðkomu kirkjunnar að sambúð þeirra og mögulegum hjúskap. Málefnið hefur verið viðkvæmt umræðuefni í kirkju og samfélagi síðustu mánuði og raunar ár. Á prestastefnu skiptumst við á skoðunum, ræddum málið af heiðarleika og virðingu, öll með væntumþykju í garð kirkjunnar okkar að leiðarljósi. Ólík sjónarmið voru rökrædd og úr varð mikilvægt nesti til áframhaldandi vinnu. Við lok prestastefnu gengum við öll að borði Drottins, tókumst í hendur, sungum einum rómi Son, Guðs ertu með sanni. Einmitt svona á kirkjan að vera. Ein hjörð, þrátt fyrir allt.
Samtalið skilaði okkur miklu. Við eigum að vera óhrædd sem kirkja að takast á við viðkvæm og erfið málefni. Svefnug kirkja kyrrstöðunnar sem þolir ekki ólíkar skoðanir missir sjónar af hirði sínum og er því óðara lent í ógöngum. Kirkjan má heldur ekki tína spámannlegu hlutverki sínu við samtímann. Hún verður að hafa djörfung og hugrekki, þora að stinga á kýlin, ræða erfiðu spurningarnar, græða og umvefja. Kristur fór um og ferðaðist, settist til borðs með fólki úr öllum stigum samfélagsins, hlustaði en talaði líka umbúðalaust, rétti hinum bágstöddu og veiku hönd sína. Fyrirgaf, læknaði. Hann fer á undan yður, voru skilaboðin við gröfina. Kristur er á ferð og þess vegna hlýtur kirkjan hans alltaf að vera fólk á ferð. Og lifandi kirkja tekur sér stöðu með þeim sem að er sótt, hún er málsvari réttlætis, umhyggju og fyrirgefningar. Nú riðar kirkjan til falls! Þetta mun kljúfa þjóðkirkjuna í herðar niður! Þannig hljóma slagorðin gjarnan. En á meðan kirkjan hefur trú á sínum eigin hirði, sínum eigin boðskap, þá er öllu óhætt.
Það er sístætt verkefni okkar sem kirkja, að spyrja spurninga. Hvar er rödd kirkjunnar inn í stríð, fátækt og neyð? Höfum við vikið af leið? Hin myndræna lýsing guðspjallsins á hirðinum og hjörðinni hlýtur að leiða hugann að náttúrunni, sköpunarverkinu. Líka þar erum við sem kirkja kölluð til að flytja erindi. Um Guðs góðu sköpun. Manneskjuna skapaða í Guðs mynd með það hlutverk að yrkja og gæta jarðarinnar. Inn í samfélag sem allt of oft ber merki skammtímahagsmuna, neyslu og græðgi má kirkjan ekki sitja hljóð og aðgerðarlaus á brúsapallinum meðan umræðan líður hjá. Kirkjan á erindi við samtímann, fagnaðarerindi fyrir fólk. Hún er ekki kölluð til þess að þegja og sitja hjá. ,,Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig." Hann þekkir okkur, en þekkjum við hann? Við megum aldrei hætta að spyrja spurninganna, boða, biðja - og efast. Vegna þess að við erum lifandi kirkja, alla veganna manneskjur á ferð.
,,Hann er ekki hér, hann fer á undan yður og þar munuð þér sjá hann!", sagði engillinn við konurnar á páskadagsmorgunn. Hinn upprisni fer á undan okkur. Hann þekkir leiðina. Um grænu grundirnar, en líka þegar á brattann er að sækja og þegar leiðin liggur um dimman dal. Allar hætturnar sem eru hverju mannsbarni raunverulegar í lífinu og birtast í ýmsum myndum, í dómhörku samferðafólksins, einelti, ofbeldi - andlegu og líkamlegu - erfiðleikum, mótlæti, sorg og dauða. Einnig þar er hann. Gleymir engum, týnir engum. Það er ekki spurt eftir skattaskýrslum, vegabréfi, stétt eða stöðu. Við erum tekin gild eins og við erum. Þetta er trú. Trú á hirði sem er með í för, nálægur. Hlustar eftir bænum okkar og kallar eftir viðbrögðum í þágu lífsins.
,,Hann fer á undan yður". Þetta er eins og áminning til okkar, hvatning. Hvernig væri að hverfa um stund úr skarkala hversdagsins og leita hans í kyrrðinni? Fara út í vorið og sumarið, út í náttúruna, njóta kyrðarinnar, sjá fegurðina í hinu smáa, upplifa hvernig hann skapar. Það er iðulega í kyrrðinni sem undrin birtast okkur. Kirkjurnar okkar eru líka áningarstaðir, griðarstaðir frá annríkinu, þar er hægt að nálgast næringu til göngunnar áfram. Lifandi helgihald sem tekur mið af þörfum fólksins og tímum sem sífellt breytast. Samfélag þar sem hver manneskja skiptir máli. Þetta er ögrandi verkefni og spennandi fyrir okkur öll sem viljum hag kirkjunnar sem mestan. Látum góða hirðinn leiða okkur í öllu því - inn í sumarið. Njótum leiðsagnar hans. „Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína ...“