Guðspjall: Mark. 9. 2-9 Lexia: Ds. 89: 2-9 Pistill: 2. Kor. 3: 12- 4.2
,,Drottinn Guð, þú sem lést stjörnu vísa vitringunum um langan veg að jötu sonar þíns sem þeir lutu í lotningu og trú. Láttu nú ljósið hans lýsa okkur og gleðina sönnu búa í brjóstum okkar, ljósið og gleðina sem jólaljósin og jólagleðin voru aðeins skuggi af og óljós ómur frá. Í Jesú nafni. Amen”.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Guð gefi ykkur öllum gleðilegt nýtt ár.
Hermaður nokkur í Asíu fór ránshendi um þorp nokkurt og var nú á heimaslóðum sínum að reyna að selja fíngert teppi úr ránsfengnum. Hver vill borga mér hundrað dollara fyrir þetta teppi?, hrópaði hann. Á örskammri stundu gaf sig fram kaupandi sem keypti teppið og hafði sig jafnskjótt á brott. Þá gaf sig á tal við seljandann maður sem vissi hvað teppið var raunverulega verðmætt og spurði: Hvers vegna baðstu ekki um meira fyrir þetta ómetanlega teppi? Þá spurði seljandinn: Er til tala sem er hærri en hundrað?
Skilningsleysi hans hafði takmarkandi áhrif á hugmyndir hans um sjálfan sig og samfélagið sem hann lifði og hrærðist í. Vafalaust hefur hann verið fús til að heyra að til væri tala sem væri hærri en hundrað.
Þannig voru lærisveinar Jesú einnig en það má reikna þeim til tekna að þeir lögðu ýmislegt á sig til að læra meira þrátt fyrir skilningsleysi sitt á köflum. Þeir kunnu vissulega skil á því sem þeir voru að fást við áður en þeir mættu Jesú og fylgdu honum og þekktu það samfélag sem þeir höfðu alist upp við og starfað í eins og t.d. fiskimennirnir við Galleuvatn. Jesús kallaði þessa alþýðumenn til fylgdar við sig til að hjálpa sér að veiða menn. Það var eitthvað í fari Jesú og orðum sem vakti athygli lærisveinanna og gerði það að verkum að þeir ákváðu að yfirgefa allt og fylgja honum. Ein af ástæðunum var e.t.v. sú að þeir hafi fundið til löngunar að breytta lifnaðarháttum og kringumstæðum sínum í lífinu. Þá hafi skort kraft og þrek til þess en Jesús hafi gefið þeim kraft til að stíga upp úr gömlu hjólförunum og fara með sér nýjar ótroðnar slóðir. Um margt voru þeir samt sem áður jafn nær og áður. Eftir því sem þeir voru lengur með Jesú því betur komust þeir að raun um hvað þeir vissu í raun og veru lítið. Skilningsleysi þeirri olli því t.d. oft á tíðum að þeir áttu erfitt með að skynja og skilja hvað kraftaverk Jesú þýddu og raun og veru. Þeir kynntust vissulega þessum jarðbundna manni Jesú frá Nazaret en þeir áttu erfiðara með að höndla það sem var guðlegt í orðum hans og verkum.
E.t.v. var þetta ein af ástæðum þess að Jesús tók þá stundum afsíðis með sér til að honum gæfist tími og næði til að kenna þeim. Jesús tók þá með sér upp á hátt fjall eins og segir í guðspjallinu. Þá birtust himneskar verur, Elía og Móse og lærisveinarnir heyrðu að Jesú var að tala við þá um þá dýrðarfullu tíma sem framundan voru í breyttum heimi Þar tók Jesús að breytast fyrir augum þeirra, fyrst klæði hans sem urðu hvítari en mjöll og frá ásjónu hans stöfuðu dýrðarfullir litir. Lærsveinarnir voru furðu lostnir, vissu ekki hvað þeir áttu að segja, einhver þeirra muldraði fyrir munni sér að best væri að reisa þrjár tjaldbúðir á fjallinu fyrir þessar himnesku verur. Og svo til að gera þessa atburðarás enn furðulegri þá kom ský niður til þeirra af himni og þeir heyrðu rödd sem talaði til þeirra úr skýinu sem sagði: Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann. Skyndilega var allt orðið sem áður og Jesús stóð sem fyrr hjá þeim og með þeim. Einn af þeim.Og þó var allt breytt. Þegar lærisveinarnir fóru að hugleiða hvað gerst hafði þá gerðu þeir sér betur grein fyrir að tímamótaviðburður hafði átt sér stað á fjallinu.
Upp frá þessari stundu bar þeim frekar að hlusta á Jesú og feta í fótspor hans en að hlusta á spámanninn Elía og að fara eftir lögmáli Móse. Þeir skynjuðu betur og betur að Jesús væri ljós lífsins. Hann væri uppspretta ljóssins, hann einn. En hann gæfi af ljósi sínu öllum þeim sem fylgja honum. Þeir öðluðust brot af hugarfari og hjartalagi hans, af heilögum anda hans.
Jesús var þarna með þeim og hann hafði gefið þeim nýtt boðorð til að fara eftir sem er boðorð kærleikans. Með atferli sínu og orðum kenndi Jesú lærisveinunum að kærleikur Guðs er skráður í hvert mannshjarta eins og í bók væri. Þótt blaðið losni, blöðin fúni og letrið máist er innihaldið ódauðlegt. Á sama hátt kenndi Jesús þeim að enginn myndi skilja þá hvað þeir ættu við með því að segja að Guð sé kærleikur nema þeir sýndu það í verki. Jesús benti þeim á boðorðin 10 og sagði þeim að þau væru til lítils gagns mönnum nema þeir leituðust við að halda þau. Og þar sem engum manni er unnt að halda þau til fulls þá tók Jesús boðorðin 10 saman í eina grundvallarreglu sem er boðið um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Enginn er svo forhertur að hann geti ekki tileinkað sér að einhverju marki þetta boðorð í lífinu.
Jesús hvatti lærisveina sína til að taka upp þessa grundvallarreglu og gera að sinni og víkja aldrei frá henni í samskiptum sínum við Guð og náungann. Þá myndu allir sjá að þeir væru kristnir menn.
Smátt og smátt skynjuðu lærisveinarnir að framtíðin lægi í höndum þeirra sjálfra en ekki Jesú einvörðungu. Fyrir tilstilli Jesú áttu þeir einnig eftir að láta ljós sitt skína, veita ljósi Krists til þeirra sem þurftu á því að halda. Jesús hafði ætíð mikla trú á lærisveinum sínum þrátt fyrir skilningsleysi þeirra og efasemdir og hvatti þá óspart til dáða til að láta gott af sér leiða. Hafði Jesús ekki sagt þeim að hvað sem hann gæti gert það gætu þeir gert enn betur?
Hann bað þá að segja engum frá því sem kom fyrir hann á fjallinu eða frá því sem henda myndi þá fyrr en nýja lífið hefði risið upp úr gröfinni. Enda þótt þeir skildu ekki enn til fulls hvað Jesú ætti við þá litu þeir á hendur sínar og fætur og á hvorn annan og þeir vissu að dag einn myndu þeir öðlast kraft sem myndu breyta þeim þannig að þeir gætu einnig látið ljós sitt skína svo um munaði. Þá gætu þeir gert hluti sem þeir gætu ekki gert í dag svo sem beðið fyrir sjúkum sem myndu læknast til líkama og sálar eða öðlast sálarþrek til að takast á við verulega erfiða hluti í lífinu.
Þrátt fyrir að lærisveinarnir virtust stundum skilningsvana og fullir efasemda þá fól Jesú þeim göfugt hlutverk, að reka erindi sitt í þessum heimi synda og lasta og þjáninga. Þeir áttu og eiga sem fyrr að vera fætur hans og hendur í þessum heimi, vera vitnisburður fyrir kærleika Guðs í orði og verki hverjum manni hvarvetna á byggðu bóli.
,,Hjúkrunarfræðingur spurði prestinn. Hvað getur maður sagt þegar fólk spyr um tilgang þjáninganna, - hverju svarar maður því fólki sem veit að það fær aldrei bata, því fólki sem veit ekki til að nokkur hirði um það, - ekki einu sinni Guð? Hvað get ég sagt þessu fólki? Hver er svarið? Presturinn þagði við en sagði svo með stillingu og festu: Þú ert svarið og ég er svarið. Þar sem þú veist að þín er þörf, þar ertu svarið”.
Drottinn þarfnast handa okkar til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum. Drottinn þarfnast fóta okkar til að geta vitjað þeirra sem eru einmana og án vonar. Drottinn þarfnast vara okkar til að geta talað til allra þeirra sem þrá kærleiksríkt orð og viðmót. Drottinn þarfnast hjartna okkar til að geta elskað skilyrðislaust hvern mann.
Á annan jóladag urðu náttúruhamfarir sem skóku heimsbyggðina svo um munaði. Kirkjan um víða veröld hefur ásamt hjálparsamtökum og þjóðríkjum og einstaklingum ekki látið sitt eftir liggja og rekið erindi Krists gagnvart fórnarlömbum náttúruhamfaranna með því að leggja þeim lið með ýmsum hætti. Aldrei hafa íslendingar brugðist við með jafn myndarlegum hætti gagnvart neyð heimsbyggðarinnar eins og nú. Við höfum sjálf fengið að kynnast óblíðum tökum náttúruaflanna í gegnum tíðina og lært að lifa með henni.
Við megum ekki missa trúna. Trúin getur að sönnu verið eins og flöktandi ljós. En ef við getum tekið á móti gjöf trúarinnar í hjörtu okkar þá getur heilagur andi blásið í glæðurnar og þá hjálpar andinn okkur að skilja það sem við eigum erfitt með að skilja og hjálpar okkur að treysta Guði.
Stundum finnst okkur heimurinn vera ógnvekjandi og lífið ranglátt og grimmt. Við getum ekki lokað augunum fyrir því. Biðjum Guð að hjálpa okkur að falla ekki í þá freistni að formæla heiminum né honum sem skapar hann og elskar. Biðjum hann jafnframt að hjálpa okkur að elska eins og hann býður, elska þennan heim og þetta líf, sjá Guð að verki hér, líka í ráðgátum, áföllum og stormum lífsins. Þá kunnum við að heyra röddu Guðs sem eitt sinn hljómaði í öðrum stormi og sagði: Óttist ekki, það er ég. Ekkert getur gjört okkur viðskila við kærleika Guðs í Jesú Kristi ef við berum gæfu til að geta treyst Jesú, hvorki þjáning né þrenging, hvorki líf né dauði. Já við megum svo sannarlega trúa því að Jesús Kristur sé lífsförunautur sem við getum treyst í þessu lífi. Hann sleppir ekki af mér hendinni, þér ekki heldur. Immanúel. Guð er svo sannarlega með okkur. Því getum við treyst. Amen.