Jólaguðspjallið er fjölskyldusaga.
Sé litið til þeirra viðamiklu heimilda sem guðspjöllin og önnur frum-kristin rit varðveita af ummælum og frásögnum af Jesú vitum við merkilega lítið um ævi hans og fjölskyldubakgrunn. Guðspjöllin varðveita þó frásagnir af móður Jesú, sem augljóslega var áhrifamikil í hópi fylgjenda hans, og upplýsingar um systkini Jesú, en guðspjöllin segja hann hafa átt bæði bræður og systur og allavega einn bræðra hans Jakob varð áberandi leiðtogi í hópi fylgjenda hans í Jerúsalem. Jósef, faðir Jesú kemur hinsvegar einungis fyrir sem persóna í fæðingarfrásögnum Matteusarguðspjalls og Lúkasarguðspjalls og hverfur síðan af sjónarsviðinu, án þess að fjarvera hans eða örlög séu skýrð. Raunar er sú mynd sem dregin er upp af fjölskyldu Jesú í guðspjöllunum nokkuð misjöfn, í Markúsarguðspjalli hafnar Jesú því að blóðfjölskylda hans sé öðrum fremri í hópi trúaðra, ,,Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir“ (Mk 3.3), og í Matteusarguðspjalli hneykslast gagnrýnendur á Jesú fyrir að vera kominn af almúgafólki: ,,Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? Og eru ekki systur hans allar hjá okkur? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?“ Og þeir höfnuðu honum hneykslaðir.” (Mt 13.55-57).
Í fæðingarsögum guðspjallanna eru Jósef í bakgrunni frásagnarinnar og móðir Jesú er í forgrunni. Hlutur hans er þó meiri í Matteusarguðspjalli en í Lúkasarguðspjalli og í þeim þekkta texta er Jósef einungis nefndur þrisvar og alltaf í samhengi Maríu. Í boðun Maríu segir ,,En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María” (Lk 1.27) og í jólaguðspjallinu er hann kynntur með orðunum ,,Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð.” (Lk 2.4-5) Jósef er síðan talinn upp meðal þeirra sem voru í fjárhúsinu þegar hirðarnir heimsóttu þau en engar fleiri upplýsingar eru gefnar um hann í Lúkasarguðspjalli.
Matteusarguðspjall er mun gyðinglegra að efnistökum en hin Guðspjöllin og því er trúarlegum vanda Jósefs lýst með nokkuð ítarlegum hætti í upphafi guðspjallsins. Hvort sem hinn guðlegi getnaður er tekinn trúanlega eður ei, er tekinn af allur vafi um að Jósef er ekki faðir barnsins sem María gengur með. Það kann að hljóma sem þverstæða að ættir Jesú eru markvisst raktar í báðum guðspjöllum til Davíð konungs í gegnum Jósef en þá ber að hafa í huga að hugmyndir manna í Ísrael til forna um ætterni byggðu ekki á erfðafræði, heldur fjölskylduheiðri og til eru sambærileg dæmi um slíkt í Gamla testamentinu. Frásögn guðspjallsins er á þessa leið:
Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“ Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.
Í þessari frásögn er margt sem er athyglisvert, bæði um siði þessa tíma og um þær persónur sem hér eiga í hlut. Jósef gengur eðlilega útfrá því að heitkona hans hafi verið honum ótrú, fyrst hún gengur með barn og þau hafa ekki átt samræði, og stendur því frammi fyrir þeim valkostum að opinbera skömm hennar og ákæra hana fyrir brot á trúlofun eða skilja við hana í kyrrþey. Þær afleiðingar sem slík ákæra hefði í för með sér í gyðinglegu samfélagi þessa tíma eru ekki alveg þekktar, en lagatextar 5. Mósebókar gera ráð fyrir að hana skuli grýta til dauða. Slíkar dauðarefsingar voru ekki framkvæmdar á öllum tímum og það er ekki víst að sú örlög hafi beðið Maríu en heiður fjölskyldnanna hefur örugglega verið í húfi. Nýleg bók eftir Matthew J. Marohl, Josef’s Dilemma, tengir stöðu Jósefs við sæmdarmorð, sem tíðkast í dag víða um heim, og hafa að markmiði að bjarga heiðri fjölskyldunnar með því að myrða þá stúlku sem hefur kallað vansæmd yfir hana með því að varðveita ekki meydóm sinn. Marohl segir frásögnina öðlast dýpri merkingu þegar slíkar hefðir eru hafðir í huga, bæði til forna og í nútímanum, og því kallist á í valþröng Jósefs dauði og líf, sá dauði sem beið Maríu og hið nýja líf sem fæddist á hinum fyrstu jólum. Ákvörðun Jósefs er því tekin af umhyggju fyrir Maríu, eins og segir í guðspjallstextanum, en guðspjallið gerir ekki ráð fyrir þeim möguleika að hann gangi að eiga Maríu ólétta eftir annan mann.
Ein merkilegasta rýnin á þessum texta, er frá sjónarhóli kvennaguðfræði, en fyrir rúmum tuttugu árum kom Jane Schaberg (The Illegitimacy of Jesus) fram með þá kenningu að guðspjallamennirnir tveir hafi þekkt hefðir um að Jesús hafi verið óskilgetið afkvæmi rómversks hermanns að nafni Panthera. Þá kenningu byggir hún á gyðinglegum Talmud ritum, sem fræðimann hafa yfirleitt talið vera yngri hefðir skrifaðar í ritdeilu við guðspjöll Nýja testamentisins, og á samtímaritum hins rómverska Celsus. Á grundvelli þessara rita og með ítarlegri ritskýringu á fæðingarsögum guðspjallanna, dregur Schaberg þá ályktun að Maríu hafi verið nauðgað af rómverskum hermanni og orðið ólétt í kjölfarið. Slíkt kynferðisofbeldi var og er algengt í samfélögum þar sem hervald er við stjórnvölin og Rómverjar reyndu ekki að fela það að þeir töldu sig eiga rétt á slíku ofbeldi. Kenning Schaberg varð fljótt umdeild og skrif hennar vöktu sterk viðbrögð, bæði hjá fræðimönnum og í kirkjunni. Niðurstaða hennar er að hafi Guð sent frelsarann í heiminn í gegnum valdbeitingu, boði það fórnarlömbum kynferðisofbeldis og hinum undirokuðu von á undursamlegan hátt. Ást Jósefs á heitkonu sinni verður jafnframt skýr, ef hann valdi að ögra siðvenjum sinnar menningar og gangast við Maríu og barni hennar í þeim aðstæðum.
Heimildum ber saman um að Jósef hafi ekki verið líffræðilegur faðir Jesú og er því stjúpfaðir hans. Guðspjöllin nefna öll systkini Jesú og textinn að ofan nefnir að Jósef ,,kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son”, en hvergi er sagt að þau hafi ekki átt hefðbundið samlífi í hjónabandi sínu eftir fæðingu Jesú. Í kjölfar guðspjallanna komu fljótt fram hefðir um ævarandi meydóm Maríu og þekkt rit frá annari öld, Bernskuguðspjall Jakobs, heldur því fram að Anna móðir Maríu hafi líka verið óspjölluð alla ævi og María sjálf eingetin. Systkini Jesú urðu því vandræðaleg staðreynd sem þurfti að skýra og í megindráttum eru til þrjár guðfræðilegar skýringar á tilurð þeirra. Sú fyrsta gerir ráð fyrir að þau séu yngri systkini Jesú, önnur að þau séu börn Jósefs af fyrra hjónabandi og sú þriðja, sem varð ofan á í trúfræði kaþólsku kirkjunnar, að þau hafi verið frændsystkini Jesú. Lúterskir fræðimenn eiga fæstir í vandræðum með að Jósef og María hafi bætt í systkinahópinn en hver sem fjölskyldugerðin var birtist okkur í guðspjöllunum samsett fjölskylda.
Samsettar fjölskyldur og stjúptengsl eru algeng í okkar samfélagi, og hafa alltaf verið það, en það er einungis á undanförnum árum sem umræða um fjölskyldumyndun að undangengnum skilnaði eða fráfalli maka hefur komist í almenna umræðu. Líkt og Jósef eiga stjúpforeldrar það til að hverfa í bakgrunninn og fá oft lítinn stuðning við að takast á við það verkefni sem bíður þeirra við upphaf sambands að takast á við nýtt hlutverk í lífi barns. Í bókabúðum fást engin hamingjukort til að fagna nýjum stjúptengslum og stjúptengsl hafa verið nánast ,,ósýnileg í opinberri stefnumótun, gögnum, umræðu, rannsóknum, sem og markaðssetningu á vöru og þjónustu.” (Hver er í fjölskyldunni?, 22). Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi hefur nefnt þessa tilhneigingu til að leiða hjá sér eða koma ekki auga á stjúptengsl, stjúpblindu, og hún getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir börn sem upplifa skilnað og búa við stjúptengsl. Samsettar fjölskyldur þurfa stuðning, ekki síður en einstæðir foreldrar, og börn sem búa í samsettu fjölskylduumhverfi þurfa viðurkenningu á því að fyrir þeim er stjúpfjölskyldan hið hefðbundna fjölskylduform. Þá er hlutfall barna sem þurfa úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda mun hærra í stjúpfjölskyldum en hjá einstæðum foreldrum eða í kjarnafjölskyldum.
Þegar stuðningur er til staðar og stjúptengsl heilbrigð auðga stjúpforeldrar líf barna með víðtækum hætti. Stjúpforeldrar hafa oft raunhæfari sýn á þarfir barna en foreldrarnir og eru frjálsari í að styðja börnin á hlutlausan en ástríkan hátt. Þegar vel tekst til aukast lífsgæði allra þegar ný fjölskylda verður til. Ein helsta hindrunin sem samsettar fjölskyldur mæta er sú staðalmynd að hin hefðbunda fjölskyldugerð, gagnkynhneigðir blóðforeldrar og börn, sé betri en aðrar fjölskyldugerðir. Það endurspeglast með margvíslegum hætti í orðavali um slíkar fjölskyldur, en rætt er um brotin heimili andstætt kjarnafjölskyldum, og að baki liggur gildismat um gæði fjölskyldunnar. Það að verkefnin séu ólík og meira krefjandi þarf ekki að fela í sér gildismat og kjarnafjölskyldur geta glímt við brotin tengsl, þó heimilið haldist saman.
Stjúpblinda samfélagsins þarf ekki að endurspeglast í viðhorfum okkar til fjölskyldu Jesú og það kann að hjálpa til að við brjóta upp staðalmyndir að horfast í augu við þá staðreynd að Jesús átti stjúpföður og ólst upp í samsettri fjölskyldu. Stjúpforeldrar upplifa sig oft í samkeppni við blóðforeldri af sama kyni og Jósef á alla mína samúð í uppeldissamkeppni við Guð almáttugan. Fyrst og fremst er jólaguðspjallið fjölskyldusaga, af hjónaleysum sem standa frammi fyrir flóknuð aðstæðum og verkefnum, og úrvinnsla þeirra varð heiminum til ómældrar blessunar og er enn.