„Og hann sagði við þá: Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum. Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. Og hann sagði við þá: Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa. Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum. Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þeir voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.“Lúk. 24.44-53
„Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf“. Jóh.6.33 Við komum saman í kirkjunni í dag til að minnast þess að Jesús steig upp til himna. Þar með var hringnum lokað og hjálpræðisverkið fullgjört. Jesús var til frá eilífð á sama hátt og Guð faðirinn. Jesús var með þegar Guð skapaði heiminn og heilagur andi Guðs sveif yfir vötnunum. Við upphaf heimsins glöddust Guð faðirinn, Guð sonurinn og Guð heilagur andi saman yfir sköpunarverkinu sem var harla gott í augum Guðs. Jesús var frá upphafi allra tíma, hann er í dag og hann mun ríkja um eilífð. Kristi hefur verið líkt við alfa og ómega en það eru fyrsti og síðasti stafurinn í gríska stafrófinu. Með því er sagt að Kristur er í öllu litrófi lífsins. Hann er frá upphafi til enda.
Svo fór sköpunarverkið að lifa sínu lífi og einhversstaðar á leiðinni var það ekki lengur harla gott. Maðurinn hafði tekið ráðin í sínar eigin hendur. Hann hlustaði ekki lengur á leiðsögn Guðs, tók skrefið og óhlýðnaðist og síðan hefur maðurinn verið á flótta frá Guði og sjálfum sér. Aðskilnaðurinn sem varð á milli manns og Guðs þegar maðurinn sneri sér frá Guði köllum við synd. Það er í syndinni, aðskilnaðinum frá Guði sem við upplifum nagandi ófullnægju í sálinni og tómleika tilverunnar.
Guð fylgdist með sköpun sinni og grét. Elska hans til manns og náttúru skapaði þrá hans eftir samfélagi við mann og náttúru. Guð birtist víða í náttúrunni, í undursamlegri blómstrun rósar, í fegurð akranna, fjallanna og fossanna. Þar er samsemd. En maðurinn sneri sér frá Guði, flúði inn í nafla sjálfs sín og uppskar bólgið egó en aðskilnað við Guð.
Það var í þessum aðstæðum sem Jesús tók á sig það hlutverk að gerast maður svo að Guð gæti nálgast manninn upp á nýtt innan úr heiminum. Níkeujátningin, ein af elstu trúarjátningum kirkjunnar segir svo um Jesú:
Fyrir hann er allt skapað. Vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni, klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu meyju og gjörðist maður.
Jesús kom í heiminn til að stöðva flótta mannsins. Hann steig niður frá himni, gjörðist maður til að koma á ný tengslum á milli Guðs og manns. Líf Jesú hvelfdist um þá hugsun að birta veru og vilja Guðs í mannheimi. Afleiðingarnar voru græðsla hvar sem hann kom. Hann læknaði og leysti fólk bæði á sál og líkama. Hann boðaði þeim iðrun til fyrirgefningar syndanna. Jesús fylgdi orðum sínum og athöfnum eftir með því að ganga sjálfviljugur í dauðann fyrir okkur, því það var eina leiðin til að binda endi á aðskilnaðinn við Guð og koma á sátt sem ríkti um eilífð.
Hann var krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna.
Þannig vitnar postullega trúarjátningin okkar. Jesús sigraði dauða og djöful til þess að ekkert stæði í vegi okkar til að nálgast Guð og eignast sátt við hann.
Í þínum dauða, ó, Jesú, er mín lífgjöf og huggun trú. Dásemdarkraftur dauða þíns dreifist nú inn til hjarta míns. Upp á það synd og illskan þver út af deyi í brjósti mér. Hallgrímur Pétursson, Pass. 45, 13
Hallgrímur Pétursson getur alltaf gefið okkur leiðsögn:
Hjá Guði föður svo til sanns sést engin reiði lengur né styggðar strengur. Daglega milli mín og hans minn trúr frelsari gengur. Hallgr. Pét. Pass. 21 v.12b
Þannig hvetur Hallgrímur okkur til að leita Guðs. Hugsið ykkur: Daglega milli mín og hans minn trúr frelsari gengur.
Frelsisverkið vann Kristur með því að deyja og vera reistur upp af föðurnum fyrir heilagan anda. En það fullkomnaðist með því að hann steig upp til himna og settist í sitt verðuga sæti við hægri hlið föðurins á himnum. Þar ríkir Kristur yfir öllum herradómi, hverri tign og valdi, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi. Öll sköpunin er við fætur Krists og Guð hefur gefið hann kirkjunni, okkur, svo að Kristur megi fylla allt í öllu og við verða umsköpuð í þessum sama kröftuga anda sem vakti Jesú upp frá dauðum.
Jesús sagði við lærisveina sína skömmu fyrir dauðann: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar… Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum… Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ Jóh.14.18,23,25,26
Við erum á þessum tímamótum í kirkjuárinu. Leyfum þeim að verka á okkur. Kristur er upp stiginn til himins, þaðan sem hann kom og hann biður fyrir okkur (Róm.8.34, Heb.7.25). En nú er sú náðartíð í lífi okkar að við megum taka til okkar orð Jesú til lærisveinanna er hann sagði:
„ Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.“ Lúk.24.49 Þetta er fyrirheitið um heilagan anda sem Jesús sendi til jarðarinnar þegar hann steig upp til himna. Heilagur andi glæðir með okkur trúna, hann leiðbeinir í lífinu og laðar okkur til Guðs. Hann biður fyrir okkur eftir vilja Guðs þegar við vitum ekki hvernig við eigum að biðja. Leyfum okkur að vera eftirvæntingarfull eftir heilögum anda. Biðjum Guð að úthella andanum yfir okkur og svo sannarlega vill Guð gefa þeim heilagan anda sem biðja hann ( Lúk.11.13). Leyfum okkur að þiggja blessunina sem Kristur gaf fylgjendum sínum. Í guðspjalli dagsins segir: „Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.“ Lúk.24.50-52
Kirkjuhópurinn, þessi staðfasti bænahópur, sem hittist hérna á þriðjudögum og föstudögum er á leið í vorferð. Þau eru ekki að fara til Betaníu heldur í Borgarfjörðinn. En Jesús fer með þeim eins og lærisveinunum forðum og ég er ekki í vafa um að hann blessar hópinn. En okkar er að tilbiðja Jesú sem Drottin.
Svo finni eg hæga hvíld í þér, hvíldu, Jesú, í brjósti mér. Innsigli heilagur andi nú með ást og trú hjartað mitt, svo þar hvílist þú.
Dýrð, vald virðing og vegsemd hæst, viska, makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó, Jesú, herra hár, og heiður klár. Amen, amen, um eilíf ár. Hallgrímur Pétursson, Pass. 50. 17-18.