Ekki Kommúnistaávarp Krists

Ekki Kommúnistaávarp Krists

Svo hittumst við niður á Eyri í einhverjum fúnum kjallara, reyktum sígarettur og tilbáðum Marx
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
23. október 2011
Flokkar

Þetta snýst ekki bara um peninga, þ.e.a.s. guðspjall dagsins, þetta er ekki kommúnistaávarp Krists, varnaðarorð gegn græðgi kapítalismans, þó svo að sumir gætu eflaust freistast til að túlka það sem svo. Ég man að á vissu tímabili í menntaskóla vildi ég vera kommúnisti, þá tók ég líka hugmyndafræðina alla leið og klæddist einvörðungu fötum úr Hjálpræðishernum, alltof þröngum Hagkaupssloppum við slitna hermannaklossa svo ég minnti helst á nýtroðinn blóðmörskepp, ég hefði ekki fengið mörg prik frá Kalla Berndsen í þá daga. Svo hittumst við niður á Eyri í einhverjum fúnum kjallara, reyktum sígarettur og tilbáðum Marx. Einu sinni fór ég með góðum vini mínum á aðalfund ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, ég gaf honum loforð á leiðinni um að sýna háttvísi og þá fengi ég dýrindis veitingar í föstu og fljótandi formi en í stað þess að standa við gefin loforð sat ég með einhvern undarlegan svip allt kvöldið rétt eins og ég hefði verið lokuð inní loðnubræðslu, en ég var njósnari og veitingarnar voru ókeypis og svo var fundurinn líka haldinn í Kaupangi það fannst mér mjög viðeigandi. Síðan leið þessi tími og lífið tók að flækjast í gleði og sorgum og einhvern veginn hætti allt að vera svona svarthvítt. Á liðnum dögum lá ég svo eins og slytti upp í rúmi með óhræsis magapesti sem gaf mér tilefni til að kynnast skúringafötunni á nýjan hátt þegar 9 ára sonur minn kemur askvaðandi inn í herbergi með pakka sem þá hafði dottið inn um lúguna. Það verður að segjast að ég hafði meiri áhuga á stöðnu kóki en þessum pakka en reyndi að sýna lit með annars litlausu andlitinu. Pakkinn var stílaður á húsmóðurina en drengurinn fékk góðfúslegt leyfi til að taka utan af honum og hvað heldur þú að hafi skyndilega legið við hlið skúringarfötunnar eins og draugur fortíðar úr draumi á jólanótt? Það var bók sem bar heitið Peningar, Græðgi og Guð: Hvers vegna Kapítalisminn er lausninn en ekki vandamálið. Og líf mitt leið hjá eins og myndbrot dauðvona manns og ég sá skólabræður mína í mystri sígarettureyks í niðurníddum kjallara á Oddeyri og ég sá lofandi ungmenni í tíglapeysum á annari hæð Kaupangs, rétt fyrir ofan blómabúðina og ég sá sjálfa mig í níðþröngum Hagkaupsslopp eins og illa saumaður blóðmörskeppur og það var þá sem ég seldi upp án nokkurrar fyrirhafnar. Svo leið magapestin og ég fór að glugga í bókina sem ég ímyndaði mér fyrst að ég hefði fengið frá leyndum aðdáanda en komst síðan að að hafði verið send öllum prestum, dálítið vandræðalegt en gaman samt að segja frá því. Og þá gerðist það eins og svo oft að mér þótti gaman að lesa og þó ég sé alls ekki langt komin með lesturinn þá verð ég að segja að mér líst bara vel á textann og framsetninguna, ekki að ég sé nú frelsaður kapítalisti en líkt og þegar ég las Frelsið eftir John Stuart Mill sem gjarnan hefur verið nefnt í sömu andrá og nútíma frjálshyggja þá komst ég að því að hugmyndafræði er sjaldnast vandamál heldur hjarta þess sem túlkar hana. Kapítalisminn líkt og kommúnisminn eru tæki til að nota með heitu hjarta og köldu gagnrýnu höfði, já rétt eins og trúarbrögð heimsins. Hugsjón Marx var fögur og þrátt fyrir yfirlýst guðleysi hans þá samrýmdist hugsjónin mæta vel réttlætiskröfu Jesú frá Nasaret, höfundur umræddrar bóka bendir m.a. á að Kommúnistaávarpið falli vel að frumkirkjunni samkvæmt postulasögunni, þegar allir þeir sem trúðu héldu hópinn seldu eigur sínar og skiptu eftir þörfum hvers og eins (Richards.2011.s.25). Það var ekki hugmyndafræði Marx sem orsakaði glæpi kommúnismans í fyrrum Sovétríkjunum eða eins og Richards höfundur bókarinnar segir orðrétt og hefur eftir öðrum fræðimanni, „ Eins og Richard Pipes, sagnfræðiprófessor við Harvard-háskóla, orðar það:“ „Kommúnismi...barst ekki til Rússlands vegna byltingar alþýðunnar: Hann kom að ofan, var troðið upp á þjóðina af litlum minnihlutahópi sem skýldi sér á bak við lýðræðisslagorð;“ ( Richards.2011.s.25). Leiðtogar eins og Lenín og Stalín sönnuðu með hörmulegum afleiðingum að lofandi hugmyndafræði er ekki nóg til að skapa farsælt samfélag, hugmyndafræðin verður að vera grundvölluð á algildu siðferði og siðalögmálum en ekki einu sinni það getur bjargað ef hjartað er á valdi illskunnar. Og eins er með kapítalismann, það er auðvelt að kenna þeirri hugmyndafræði um þrælahald, styrjaldir, barnaþrælkun,umhverfisspjöll, stéttskiptingu, atvinnuleysi og kreppur í nútíð og fortíð og eins og höfundur bendir á á einum stað tíðræddrar bókar þá er afar ólíklegt að prestur fjalli um köllun mannsins til viðskipta í prédikunarstól, þegar við lifum í heimi sem hefur gert það hugtak að forboðnum ávexti ( Richards.2011.s.11). En hvernig er auður skapaður samkvæmt kenningu höfundar sem skrifar bók til varnar kapítalisma? Hann segir: „Hagfræðingar eiga ekki auðvelt með að finna svar við þessari spurningu en kristnir menn kunna svarið. Svo þversagnakennt sem það kann að virðast er helsta uppspretta efnislegs auðs í nútíma markaðshagkerfi óefnisleg. Hún er andleg. Auður er skapaður með því að veita sköpunarkrafti okkar frelsi til að blómstra innan ramma frjáls markaðar sem byggður er á grunni laga og sterku siðferði. „ ( Richards, 2011.s.17) Þetta er afar umhugsunarvert fyrir íslenska þjóð í kjölfar efnahagshruns og í raun prýðileg áminning, líka merkilegt að lesa þessi orð og hugsa til þess að sköpunarkraftur kapítalismans á Íslandi hafi fætt af sér fyrirbæri eins og Kárahnjúkavirkjun sem kemur í ljós að ógnar lífríki fyrir austan meir en ásættanlegt getur talist. Guðspjall dagsins fjallar ekki um peninga af þvi að peningar eru bara pappír og Jesús hafði engar áhyggjur af þeim, guðspjallið fjallar um afstöðu til valdsins. Kaflinn á undan þessari frásögn Biblíunnar er sjálft barnaguðspjallið. Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. Mark. 10:13-15. Það er í raun svarið við guðspjalli dagsins, því „hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ Vandi mannsins liggur ekki í hugmyndafræði heldur óttanum við að gefa eftir völd sem hann hefur safnað að sér og aðdáun þess sem á og hefur og treysta á æðri mátt en þann sem liggur í ímyndinni og augum samferðamannanna. Jesús er alltaf að benda okkur á börnin, þau eru hin jarðneski guðdómur, hin hreina mennska, það er undirstrikað í fæðingarfrásögn frelsarans og í gegnum guðspjöllin öll. Guð kom inn í heiminn sem barn, nakin og ósjálfbjarga, og þó er enginn meiri en Guð? Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Bókin sem vitnað er í heitir Peningar, Græðgi og Guð og er eftir Jay W.Richards.