Ef ég væri Móðir Jörð myndi ég umfaðma alla, næra alla, bjarga öllum... Eitthvað á þessa leið hljómar lína í leikhússpuna sem fluttur er í maímánuði þetta vorið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ef ég væri almáttug... liggur í orðum kvennanna sem standa að þeirri frábæru fléttu mammamamma. Við fórum saman fjórar vinkonur að sjá þessa sýningu, heil prestastefna! gall við í konu sem kannaðist við kellur. En ekki bara prestastefna heldur líka og enn frekar mömmustefna, því samtals eigum við stöllur 12 börn.
Og ekki urðum við vonsviknar, hvorki sem mæður né prestar. Sálgæsluhlutverk þessarar sýningar er mikið, hlutirnir orðaðir og sýndir eins og þeir eru með innbyggðri græðslu sárra tilfinninga. Erfiðar meðgöngur og fæðingar, ættleiðingar og keisaraskurðir, fæðing andvana barns og missir unglingsstúlkunnar sem fær ekki að halda hvítvoðungnum sínum, að eignast fatlað barn, móðurmissir á ýmsum aldri, allt er þetta tekið fyrir og svo auðvitað þetta venjulega, vökunætur, afmyndaður líkami meðgenginnar móður, rex og pex hversdagsins. Pabbar og synir eru nefndir svona í forbifarten, en sjónglerjum beint að samskiptum mæðra og dætra.
Eitt magnaðasta atriði sýningarinnar er þegar mæðgur takast á, uppvaxna dóttirin í andstöðu við móður sína sem ekki kann að sleppa tökunum. Kurteisinni er haldið á yfirborðinu, utan sviðsmyndarinnar sem er eins og boxhringur, en innra kraumar reiðin og brýst út í átökum innan hrings. Það kann ekki góðri lukku að stýra að geta ekki tjáð tilfinningar sínar, talað sannleikann og sett heilbrigð mörk.
Þessi sýning miðar öll að hinu gagnstæða, að orða hlutina blátt áfram, segja sannleikann umbúðalaust, en þó þannig að enginn meiðist. Vissulega féllu nokkur tár af hvarmi þegar áhorfandi þekkti sinn eigin veruleika, en það voru góð tár, græðandi tár, og miðluðu samkennd. Ég mæli með leikhúsupplifuninni mammamamma fyrir allt fullorðið fólk, konur og karla, mæður og feður, en líka þau sem ekki hafa kynnst foreldrahlutverkinu á eigin skinni, því öll eigum við jú mæður, lífs eða liðnar.
Í síðasta kafla síðustu bókar Gamla testamentisins er að finna þessi dásamlega móðurlegu og vorlegu orð:
En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu. Þá munuð þið koma út, stökkva eins og kálfar sem hleypt er úr fjósi Mal 3.20.
Sól réttlætisins – vængir hennar færa lækningu. Í eldri þýðingu er talað um réttlætissólina með græðslu undir vængjum sínum. Þegar sól Guðs nær að skína á líf okkar, birta heilags anda að lýsa upp hvern krók og kima fær sá sannleikur sem Jesús Kristur talaði gert okkur frjáls (Jóh 8.31-32). Það er frelsi fólgið í því að horfast í augu við líf sitt eins og það er og sættast við bæði þátíð og nútíð. Venjulegt líf venjulegs fólks – þín og mín – er oft á tíðum átakanlegt líf, fullt af missi og sorg. En þar má ekki láta staðar numið. Leiðin liggur áfram og sú leið sem kristin trú býður er leið kærleika, þakklætis og sáttfýsi.
Í lok sýningar færa leikkonur mæðrum þakklæti og öllum gestum sínum lítið bleikt bréf, sem ekki verður afhjúpað hér. Með því minna þær okkur á að hver og ein okkar er hversdagshetja og það voru mæður okkar líka - konur sem gera sitt besta á hverri tíð. Mamma er ekki Móðir jörð, þó faðmurinn hennar veiti oft og tíðum skjól og næringu. Mamma er ekki almáttug, þó hún láti stundum eins og hún fengi bjargað heiminum, bara ef allir gerðu eins og hún mælir fyrir um. Mamma er ekki fullkomin, en hún fæddi mig inn í þennan heim og fyrir það á hún allt hið besta skilið.
Leyfum réttlætis- og sannleikssól Krists að skína inn í líf okkar og verma þar hvern kalinn reit. Leyfum anda Guðs, hinni almáttugu nærveru, að fylla okkur kærleika og þakklæti svo að við komum út eins og kálfar á vori með blíðan andblæ lífs á kinn, sem þyt af þýðum blæ (1Kon 19.12). Hugsum hlýlega til mömmu – og blessum hana í bænum okkar og beinum orðum.
P.s. til bæði dætra og sona: Mæðradagurinn er nk. sunnudag og þá er jafnframt hátíð heilags anda, kærleiksandans. Nú fær mamma rauðar rósir, ef ekki áþreifanlega þá huglægt! Ef einhvern langar að vita meira um þessa frábæru sýningu er slóðin www.mammamamma.net