Þegar lávarðar hringanna tókust á í Baugsmálum fyrir nokkru þótti mörgum fjölmiðlar verða handbendi afla í stjórnmálum og viðskiptum. Fræðimenn komu fram og sögðu að fjölmiðlar á Íslandi væru ekki jafn trúverðugir og áður. Það eru náttúrlega ekki góðar fréttir, því engum dylst að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu og slæmt ef þeim er illa treystandi.
Eða hvað? Frægt er svar stjórnmálamannsins, þegar hann var spurður að því hvort samherji hans hefði það fyrir sið að taka niður gleraugun áður en hann segði ósatt. Hann kvaðst ekki vita það svo gjörla, en menn skyldu á hinn bóginn vara sig stórlega á honum ef hann opnaði munninn.
Þetta er ekki bara fyndið svar heldur djúpt. Það sem við segjum litast alltaf af okkar eigin persónulega mati. Við lýsum atburðunum ekki eins og þeir voru heldur eins og við upplifðum þá. Þannig erum við öll síljúgandi. Það sama á við um blaðamanninn, þó að hann eigi að geta lýst raunveruleikanum á sannari hátt en aðrir vegna reynslu sinnar og menntunar. Frásögn hans er samt aldrei óháð persónu hans og skoðunum. Þar við bætist að blaðamenn vinna störf sín jafnan undir mikilli tímapressu og rýmisins vegna geta þeir aldrei sagt allt um hvað sem er. Þeir verða því að velja úr atburðum sem þeir greina frá og vinsa úr það sem þeir telja aðalatriði. Fréttatíminn í ljósvakamiðlunum eða fréttasíður dagblaðanna er því aldrei raunveruleikinn eins og hann er, heldur byggist hann á mati viðkomandi blaðamanna og fleiru, svo sem viðskiptahagsmunum, sem í sívaxandi mæli ráða því hvað við heyrum og sjáum í fjölmiðlum.
Þó að hér á landi séu margir góðir fjölmiðlar og þar vinni fjöldi fólks störf sín af ábyrgð og trúmennsku megum við ekki láta það mata okkur á sannleikanum. Fjölmiðlar, hversu vandaðir sem þeir eru, koma aldrei í staðinn fyrir persónulega dómgreind og íhygli hvers og eins. Hvorki meira né minna undirstaða menningar okkar er í húfi, nefnilega hæfileikinn til að vantreysta skilningarvitunum, trúa ekki einu sinni myndunum sem birtast okkur, heldur efast um það sem við sjáum og heyrum, brjóta um það heilann og taka til þess persónulega afstöðu.
Myndbannið í Gamla testamentinu er af þessum meiði. Þar er bannað að gera myndir af Guði. Í hefð grískrar heimspeki og kristni er sannleikurinn ekki í myndunum, heldur er hann andlegs eðlis. Það sem er satt er ekki satt vegna þess að þú getir séð það eða snert, heldur er það satt vegna þess að þú hefur gert það að sannleika í hjarta þínu.
Þess vegna eigum við ekki að trúa fjölmiðlum nema með mjög ákveðnum fyrirvörum. Sannleikurinn er ekki nema að hluta í myndunum sem við sjáum og fréttunum sem við heyrum, í besta falli. Og stundum er það sem fjölmiðlarnir flytja okkur blekkingar og jafnvel tandurhrein lygi. Það á ekki síst við nú á dögum, til dæmis í ljósi þeirrar staðreyndar að sífellt verður örðugra að greina á milli auglýsinga í fjölmiðlum og annarrar umfjöllunar.
Stundum er þannig að orði komist að við lifum á fjölmiðlaöld. Kannanir sýna að fjölmiðlanotkun hvers konar eykst ár frá ári. Það er því löngu tímabært að tekin verði upp kennsla í notkun fjölmiðla í skólum landsins, þar sem fólki er kennt hvernig eigi að umgangast þetta afl, sem í sívaxandi mæli mótar heiminn. Slík kennsla á að vera byggð á þeirri forsendu menningar okkar að maðurinn þurfi að beita gagnrýnni hugsun á öllum sviðum mannlífsins, ekki síst þegar fjölmiðlar eru annars vegar.
Vönduð vinnubrögð á fjölmiðlum eru ekki eina skilyrðið fyrir trúverðugleika þeirra. Til þess þarf líka mynduga lesendur, áhorfendur og hlustendur.