Kristur er upprisinn! hljómar hin forna kveðja - og væntir svars: Hann er sannarlega upprisinn!!!
Við erum hér stödd í kjarna kristinnar trúar. Upprisa Jesú Krists frá dauðum er sá kjarni sem allt annað hverfist um. Án upprisunnar, enginn kristindómur. ,,Ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt,” segir Páll postuli í fyrra Korintubréfi og bætir við: ,,Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna” (1Kor 15.17-19).
Tvívíður heimur? Einhvern tíma var sagt að íslenskur þjóðkirkjukristindómur næði ekki upprisumegin við krossinn heldur staðnæmdist í þjáningu og synd, í hinu mannlega. Lútherskan er vissulega mjög upptekin af syndinni, hvernig manneskjan missir marks í daglegu lífi. Í dag er tæpast í tísku að nefna synd, það grundvallarbil sem er á milli Guðs og manns, milli Kærleikans og kærleiksleysisins. Ef ekki má nefna það gap er stutt í að kristindómurinn verði útvatnaður í einhvers konar sjálfshjálparfræði sem einblína á að efla hið góða í daglega lífinu, án allrar tengingar við hina klassísku upprisutrú sem boðar eilíft líf með Guði. Að dvelja um stund við krossinn á föstudaginn langa er því nauðsynlegt til að páskagleðin fái sína fullu merkingu. Hins vegar er það satt og rétt að von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, ef við komumst ekki upprisumegin við krossinn, erum við aumkvunarverðust allra. Það er eins og að lifa í takmörkuðum, tvívíðum heimi og láta þriðju víddina, lengdina, hæðina og dýptina í kærleika Krists (Ef 3.18) fram hjá sér fara. Við þurfum að meðtaka kraft upprisunnar inn í það sem er núna, inn í líf okkar eins og það er, taka á móti umbreytingu andans. Tvær hendur tómar Því auðvitað er lífið núna mikilvægt. Og vissulega nær upprisukrafturinn inn í hið daglega og hversdagslega. Eilífa lífið er hér og nú, er oft sagt. Það merkir að allt sem við gerum, erum og segjum getur mótast af krafti Guðs, ef við lifum ,,í Kristi” eins og postulinn kemst iðulega að orði. Því til þess að upprisan í daglega lífinu geti átt sér stað, umbreytingin í krafti andans, verðum við að meðtaka og játa þá staðreynd trúarinnar að Guð hafi uppvakið Jesú frá dauðum (Róm 10.9-10). Þannig er trúin á upprisu Jesú Krists forsendan fyrir kristinni trú. Við megum ekki gleyma því að trúin á upprisuna er gjöf. Við búum hana ekki til sjálf heldur er hún verk heilags anda. Eina ófyrirgefanlega syndin, samkvæmt Biblíunni, er að afneita krafti andans, mæla gegn heilögum anda, (sbr. Matt 12.32), vantreysta krafti upprisunnar. En Guð gefur andann þeim sem biður (Lúk 11.9-13), þeim sem opnar kreppta hnefa sína og tekur á móti krafti Guðs með tvær hendur tómar. Þannig bendir Guð á gapið milli sín og okkar og gefur á sama tíma útgönguleiðina, brúna yfir það gap. Sú brú er krossinn sem bendir á Krist upprisinn. Páskasólin dansar Og nú er upprunninn páskamorgun, dagur gleði, dagur sigurs. Forn trúarhugsun sá fyrir sér að páskasólin dansaði af gleði. Ef við höfum lifað okkur inn í atburði kyrruviku, til dæmis með Hallgrími Péturssyni í Passíusálmunum, verður páskagleðin því sterkari. Kyrravikan nauðsynlegur undirbúningur fyrir páskana, því engin gleði er án sorgar.
Það er til dæmis máttugt að • sjá fyrir sér innreið Jesú í Jerúsalem og vera með honum þegar hann grætur yfir borginni, veltir um söluborðunum, kennir og læknar fólk í musterinu á pálmasunnudag (Matt 21.1-17, Lúk 19.28-48); • sjá fyrir innri augum þegar María smyr Meistara sinn í Betaníu (Jóh 12.1-11, Matt 25.6-13); • vera þátttakandi þegar Jesús þvær fætur lærisveinanna (Jóh 13.1-17) og á með þeim síðustu samfélagsmáltíðina (Lúk 22.14-20); • ganga með honum veginn að Golgata undir þyngslum krossins með aðstoð Símonar frá Kýrene og konurnar gráta (Lúk. 23.26-31); • hlusta á sjö orð Jesú á krossinum (Lúk 23.34, 43, 46, Matt 27.46, Jóh 19.26-27, 28, 30); • sjá hann fyrir sér liðið lík í gröf Jósefs frá Arímaþeu (Lúk 23.50-56, Jóh 19.38-42) og hvernig hann prédikar fyrir öndnum í varðhaldi eins og segir í fyrra Pétursbréfi (1Pét 3.19) og lýst er í með orðunum ,,steig niður til heljar” í postullegu trúarjátningunni.Allt þetta og meira til myndar eina heild – göngu Jesú inn í dauðann og út úr honum aftur. Við verðum að ganga inn í þjáninguna til að geta komist út úr henni. Kvölin verður ekki sniðgengin. Þar öðlast upprisan gildi sitt að fullu. Þegar við höfum skynjað kvölina sem fylgir hvers lags kreppu, getum við skynjað lífið að fullu, andardrátt gæsku Guðs, gleðina sem leysir. Þá dansar okkar páskasól í gleði upprisunnar.
Að líta á gröfina – og líta upp Þannig notar Guð iðulega erfiðleikana, vandamálin sem tilheyra því að vera manneskja, til að gefa okkur frelsi trúarinnar. Sagt er að við þekkjum ekki ljósið nema eftir að hafa kynnst myrkrinu. Því eru frásögur fólks sem hafa upplifað dýpi sorgar eða fíknar en snúið við upp á yfirborðið fyrir umbreytingarkraft Guðs svo máttugar, vitnisburðir úr daglegu lífi um hvernig kristin trú hefur verið vegur til ljóssins, burt úr myrkrinu. Og nú erum við stödd með konunum við gröfina. Þær komu til að ”líta á gröfina,” eins og segir hér í Matteusarguðspjalli, vitja um vin sinn, hvort ekki væri allt með felldu. Í Lúkasarguðspjalli (Lúk 23.55-56, 24.1-10) segir að þær María Magdalena og Jóhanna ásamt Maríu móður Jakobs og fleiri konum hafi komið með ilmsmyrsl sem þær höfðu útbúið áður en hvíldardagurinn mikli gekk í garð, en svo er laugardagurinn milli föstudagsins langa og páskadags oft kallaður. Í Markúsarguðspjalli er Salóme einnig nefnd (Mark 16.1). Þarna fáum við einnig að vera, full af óttablandinni undrun og gleði yfir kraftaverki lífsins, því kraftaverki sem er forsenda trúar okkar, vonar og kærleika.
Hnarreist í kærleika Hugum að líkamsstöðunni þar sem við stöndum þarna við opna gröf frelsara okkar. Erum við kreppt, inn í okkur, niðurbeygð? Eða erum við hnarreist, upplitsdjörf, endurreist? Við getum sem kristnar manneskjur borið höfuðið hátt í tvöfaldri verkan upprisukraftarins, sem er grundvöllur andlegrar tilvistar okkar, út yfir gröf og dauða, og hefur um leið áhrif á daglegt líf, er endurreisn til lifandi lífs, kraftmikils lífs í von og kærleika. Því kærleikurinn er forsenda alls þessa. Guð kom ekki til jarðarinnar til að vera heil og sönn manneskja af refsigleði eða hefndargirni. Guð sendi son sinn af því að Guð elskaði – og elskar þig og mig: ,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf” segir í litlu Biblíunni (Jóh 3.16). Ást Guðs er ástæðan fyrir því að Guð fór leið manneskjunnar frá getnaði til grafar, maður með mönnum, körlum og konum, uns yfir lauk með síðasta andvarpinu; veg okkar allra, það eina sem við eigum víst í veröldinni, að fæðast og deyja. En á þeim vegi stafaði krafti himnanna af Guði sem í heim var borinn og lýsti af nýjum degi fyrir mannkyn allt í undri upprisunnar, sigri lífsins yfir dauðanum, dauðinn dó en lífið lifir! Meiri líkur en minni ,,Það eru meiri líkur en minni á framhaldslífi” segir Megas í sjötugsafmælisviðtali nú um helgina, meiri líkur en minni, segir skáldið umdeilda og elskaða, hneykslunarhellan og helgimyndabrjóturinn í óeiginlegri merkingu. Meiri líkur en minni – og hvað er þá þetta framhaldslíf? Eru það endurfundir við þau sem farin eru á undan okkur, eins og sagt er og boðað börnum í sorg, huggun harmi gegn að við hittumst aftur á himnum? Biblían talar ekkert um það, ekki stakt orð um slíka endurfundi látinna nema ef vera skyldi mót Jesú við spámennina Móse og Elía á fjallinu (Mark 9.2-9) sem þó gegnir öðrum tilgangi en að sanna framhaldslíf og góðravinafund. En það þarf ekkert að vera rangt fyrir því, ekkert nema gott um það að segja að eiga von um endurfundi við ástvini sína.
Eða er framhaldslífið í formi endurholdgunar, að fæðast aftur svo sem búddismi og hindúismi kenna og samkvæmt þeim fræðum á mismunandi sviðum, jafnvel sem púkar eða ánamaðkar, allt eftir fyrrilífshegðun (sem þó hefur verið þurkað út úr vestrænni gerð austrænnar speki)? Þar er Biblían skýr í sköpunarhugsun sinni: Við eigum aðeins þetta eina líf, líkami, sál og andi eru samfléttuð og mynda eina heild, eina persónu sem verður ekki endurtekin, þú ert heilög og elskuð eins og þú ert, dýrmæt sköpun Guðs, kölluð til lífs af ást Guðs. Framhaldslífið er fólgið í Guði Framhaldslífið er á óútskýranlegan hátt fólgið í Guði sem líf okkar stefnir til (1Kor 8.6). Allt frá því við vorum ómyndað efni vorum við til í huga Guðs, mótuð í elsku Guðs, sköpuð til samvista í kærleika og ástúð (Sálm 139.13-16, Jer 1.4-5).
Hvernig lífið að loknu þessu mun verða vitum við ekki, ekki nema að það verður veisla, dásamleg veisla með gnægð lífs og blessunar eins og Jesaja spámaður lýsir (Jes 25.6-9). Okkur er boðið til þeirrar himnesku veislu hér og nú. Eilífa lífið býðst okkur nú þegar, að verða þátttakendur í himneskum krafti Guðs, upprisumættinum sem endurnýjar allt líf okkar á því augnabliki sem við honum er tekið og nær út yfir gröf og dauða, í lofsöng himnanna sem mætir okkur hér við altari Guðs í kirkjunni þar sem himinn snertir jörð. ,,Sjá, ég geri alla hluti nýja” segir frelsarinn (Op Jóh 21.5), sjá, ég geri þig nýja og færi þig frá dauða til lífs, inn í kraft upprisunnar þar sem dauðinn er ekki framar til (Op Jóh 21.4). Kristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn!