Jólaandi er fyrirbæri sem við getum ekki snert eða horft á en finnum samt fyrir. Núna er sá tími ársins að við finnum að jólaandinn nálgast. Fyrir suma er þetta óvænt og viðbrögð þeirra eru á þessa leið: Ha! er strax komið að aðventu og sumarið nýbúið. Aðrir hafa beðið lengi og hugsa frekar á þessa leið: Ætla þessi jól aldrei að koma. Líklega hefur aldur okkar nokkuð að segja um það hvernig við skynjum tíman fram að jólum.
Jólaandinn er merkilegur andi og misjafnt hvað verður til þess að við finnum fyrir honum í brjósti okkar. Margar búðir hafa reynt að eigna sér hann, með slagorðum eins og jólin, byrja hjá okkur eða með því að kalla vörurnar sína jóla-þetta og jólahitt. Einnig eru margir sem telja að jólaandinn komi þegar sálmurinn Heims um ból er sungið við aftansöng á aðfangadagskvöld.
Jólaandinn er yndislegur, velllíðan sem fyllir huga okkar, tilhlökkun til samverustunda í faðmi fjölskyldu. Margir hafa upplifað ýmis jól haldin við mismunandi aðstæður. Í gleði og sorg, í fjölmenni og fámenni. Alltaf virðist þó sérstök tilfinning fylgja jólunum. Jesús fæddist á jólunum, færði heiminum von og nýja sýn á lífið sjálft. Vegna Krists eigum við von þó erfitt sé og sorg í hjarta okkar. Hann minnir okkur á að þakka fyrir það sem við erum þakklát fyrir og á það að við eigum bræður og systur í þessum heimi sem hafa það misgott. Jesús sagði eitt sinn í dæmisögu: ,, það allt sem þið gjörðuð einum mínum minnstu bræðra það hafið þið gert mér.” Jesús á afmæli á jólunum, þessari fallegu hátíð. Það er ekki erfitt að finna handa honum rétta afmælisgjöf við förum eftir því sem hann sagði í guðspjallinu og látum okkur varða um náunga okkar.
Jólandinn gerir okkur að betri manneskjum, lærum að njóta hans og tileinka okkur það lífsviðhorf sem jólin vekja innra með okkur. Jólasveinn sem birtist í jóladagatali kirkjunnar orðaði það svo skemmtilega að jólin séu æfingatími. Þar sem við æfum okkur í því að setja kærleikann á oddinn. Hann á svo að einkenna líf okkar allt árið.
Jólin eru tíminn þegar Guð minnir okkur á að hann kom í heiminn til okkar. Þegar við rifjum það upp þá finnum við hjarta okkar fyllast jólaanda.
Jólaanda sem kemur frá Betlehem til þín.