Bústaðakirkja, 3. október 2021 kl. 13 - innsetningarmessa
3. Mós. 19:1-2,15-18, 1. Jóh. 2:1-6, Mk. 4:21-25
Biðjum:
Kenn
mér, Jesús, þér að þakka
þína
trú og bænargjörð.
Yfir
mér og í mér vaki
elskan
þín á himni og jörð.
Náð sé með yður og friður
frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Mikið er ánægjulegt að
vera komin hér til starfa. Ég þakka hlýjar móttökur, hlakka til samstarfsins,
til þess sem framundan er.
Hlutverk presta
kirkjunnar er að miðla fagnaðarerindinu með lífi sínu, orðum og atferli. Það
eru forréttindi að fá að þjóna sem prestur, og mikil forréttindi að fá að þjóna
í jafn gróskumiklum söfnuðum og prýða Fossvogsprestakall.
Boðun kirkjunnar verður ávallt
að vera relevant, vera í tengslum við samtímann, vera með á nótunum, varðandi
það sem er að gerast í heiminum. Ný afstaðnar alþingiskosningar, ástandið í
Afganistan, Mee-too byltingin, eldgos á Reykjanesi, jarðhræringar víða um land,
flóð og skriður, svo eitthvað sé nefnt.
Víkingar eru
Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla, og komnir í úrslit bikarkeppninnar. Slíkt
gerist ekki að sjálfu sér, margir hafa þar lagt hönd á plóg og með samstilltu
átaki næst góður árangur.
Samhliða því að taka þátt
í samfélaginu og vera með á nótunum varðandi málefni dagsins, miðlar kirkjan
visku aldanna, andlegum veruleika, í textum og atferli sem kynslóðirnar hafa
komist að raun um að skipta manninn og mannlífið miklu.
Kirkjan hefur það
hlutverk að vera relevant á hverjum tíma með því að útleggja boðskapinn, útskýra
boðskapinn, fagnaðarerindið, á máli sem fólk á hverjum tíma skilur.
Því textar Biblíunnar
eiga ávallt við, hættan er sú að tungutakið og myndlíkingarnar sem við notum
verði úreltar og óskiljanlegar.
Biblían var jú skrifuð
fyrir mörg þúsund árum síðan. Yngstu textarnir fyrir tæplega 2000 árum, elstu
textarnir fyrir yfir 3000 árum. Biblían var skrifuð af yfir 40 höfundum, á 1500
ára tímabili í þremur heimsálfum.
Textarnir miðla okkur
miklum leyndardómum, sem fjalla fyrst og fremst um það hvað það er að vera
manneskja.
Það á erindi við okkur í
dag og alla daga.
Það skiptir okkur máli.
„Kærleikurinn er
langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. (...) Hann breiðir
yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr
gildi. (1. Kór. 13:4-5, 8)
„Í upphafi skapaði Guð
himinn og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpina en andi
Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós. (1.
Mós. 1:1-2)
„Drottinn sagði við
Abram: Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til
landsins sem ég mun vísa þér á. ... Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér
blessun hljóta.“ (1. Mós. 12. 1, 3b)
„Því svo elskaði Guð
heiminn að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist
ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jh. 3:16)
„Elska skaltu Drottinn
Guð þinn af öllu hjarta ... og annað þessu líkt, elska skaltu náungann eins og
sjálfan þig.“
Þið hafið heyrt marga af
þessum textum, sem fjalla einmitt um blessunina, kærleikann og elskuna, því það
er jú einmitt rauður þráður í Biblíunni, elskan.
Og tvöfalda
kærleiksboðorðið, sem ég las hér síðast, það eru orð frá Jesú.
Eins og þið heyrið þá er Jesús
þarna að vitna í þriðju Mósebók, sem lesið var úr hér áðan.
Reyndar er þriðja Mósebók,
eitt minnst skemmtilegasta rit Biblíunnar. Það er ekki bara mitt mat, heldur
virðast margir sem ætla sér að lesa Biblíuna frá upphafi til enda, einmitt
stranda á þessari bók, því hún er mjög mikið torf.
Hún fjallar aðallega um
það hvernig prestar eiga að haga sér í helgidóminum, hvernig við eigum að koma
fram fyrir Guð.
Endalausar upptalningar á
hreinsunarreglum og siðum, reglum sem prestarnir eiga að fara eftir í þjónustu
sinni við Guð, en svo inn á milli leynast svona perlur, sem fjalla um
mannlífið, hvernig við eigum að huga að náunga okkar:
„...Þegar þið skerið upp
kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né
dreifarnar á akri þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæku og
aðkomumanninum. ...“
Hugsa sér þennan tón, um
hin mannlegu samskipti, í riti sem er um 2700 ára gamalt. Huga að hinum fátæku,
huga að þeim sem eru útlendir í þínu landi. Tryggja að enginn svelti, tryggja
að grunnþarfir allra séu tryggðar.
Það segir svolítið að
þarna í þessu riti, sem fjallar um svo margt annað, skuli þetta vera þráðurinn
sem þar er þræddur, tónninn sem þarna er sleginn, þegar eitthvað er sagt um
samskipti fólks og mannlífið almennt. Þessi tónn er einmitt einn af grunntónum
Biblíunnar, þetta er einn rauði þráðurinn sem Biblían er ofin úr.
Það er ákveðinn grunntónn
í Biblíunni, en hann er sá að vera öðrum blessun.
Abraham og Sara, þið
hafið heyrt um þau, fengu fyrirheit um að afkomuendur þeirra yrðu fleiri en
stjörnur himins, þrátt fyrir að vera hnigin að aldri, eins og segir í textanum
í fyrstu Mósebók.
Það varð svo.
Og hlutverk þeirra, og
ekki bara þeirra heldur allra afkomenda þeirra, þjóðarinnar og þeirra sem á
eftir þeim komu, var og er að vera öðrum blessun. Afkomendur Abrahams og Söru
eru í raun allir kristnir, gyðingar og múslimar, í heiminum sem eiga það
sameiginlegt að líta á Gamla testamentið sem hluta af sínum helgu ritum, sem
eiga það sameiginlegt að eiga einn Guð og föður. Og ættfeðurnir svokölluðu,
Abraham, Ísak og Jakob, eru ættfeður þessara stóru trúarbragða heimsins.
Svo fylgjumst við með því
á síðum Gamla testamentisins hvernig þjóðinni, Ísraelsþjóðinni, vegnar í þessu
hlutverki sínu. Stundum vel og stundum miður, eins og við þekkjum sjálfsagt úr
okkar eigin lífi og auðvitað bara úr nútímanum, er við lítum til ástandsins
fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hlutverkið er s.s. að
standa ekki í styrjöldum og baráttu, heldur vera náunga sínum blessun.
Það gengur jú misjafnlega
eins og dæmin sanna, á öllum tímum, en verkefnið er ávallt það sama, að huga að
náunga sínum.
Og hver er náungi okkar?
Jú, auk okkar nánustu, þeir
sem standa fyrir utan okkar innsta hring. Gjarnan er það svo í mannlífinu að
það erum við og svo hinir, mannfólkið er fljótt að skipa sér í hópa og flokka.
Þessar leiðbeiningar eru til að beina okkur, ekki aðeins til þeirra sem eru
okkur kærir og nánir, heldur til allra hinna, um þá eigum við einnig að huga,
við eigum einnig að reikna með þeim þegar matvæli heimsins eru til dæmis til
umræðu.
Jesús skerpti sýnina á
náungann, hver náungi okkar er, og lagði áherslu á að það væru jafnvel þeir sem
þú síst vildir hafa nálægt þér. Hann tjáði þann skilning með sögunni af
miskunnsama Samverjanum, sem þið þekkið sjálfsagt og við miðlum og kennum í
fermingarfræðslunni.
Á sama máta og
miskunnsami Samverjinn í dæmisögu Jesús, þá er það hlutverk okkar að vera öðrum
til blessunar. Ekki aðeins þegar aðstæður eru eins íþyngjandi og í þeirri
dæmisögu, heldur ávallt í lífinu.
Við notum þetta orð,
blessun, heilmikið í okkar máli án þess kannski að gefa því mikinn gaum. Við
segjum bless, þegar við kveðjum, en þetta orð á sér rætur í tungutaki
kirkjunnar og allar athafnir hennar enda á blessunarorðunum. Það er jú
skaparinn sem veitir okkur af náð sinni og blessun, lífið og allt sem
verðmætast er í lífinu. Blessunina þiggjum við að ofan, eins og sagt er.
Við þekkjum það hvernig sumir dagar eru bjartir og ríkir af lífsins gæðum. Þegar sólin skín, í víðustu merkingu þess orðs, okkur öllum til lífs og gleði og allt verður lifandi og gæfuríkt í kringum okkur.
Við þekkjum á sama máta
hvernig sumir einstaklingar eru eins og farvegur þess ljóss, og eru þannig
gerðir að þeir gefa stöðugt af sér með nærveru sinni, og glæða umhverfið sitt
hlýjum anda sem gott er að vera hluti af.
Á þann máta er það okkar
hlutverk að vera farvegur fyrir ljósið með orðum okkar og atferli.
Í samhengi eilífðar Guðs,
virðist líf okkar smátt, það er sem gróðurinn, sem um morgunin vex og blómstrar
en um kvöldið visnar og deyr. En dagarnir rísa, djúpir, óráðnir, með möguleika
á gæðum og blessunum hverja stund. Já hver dagur geymir ævintýri, líf sem við
fáum tækifæri til að lifa, eitthvað nýtt sem við upplifum og sjáum. Hver dagur
er Guðs gjöf og geymir fegurð sem er okkar að sjá og miðla.
Í raun eru verkefni okkar
einföld hér í heimi, en þau eru fólgin í því að við mætum hvert öðru í gleði og
alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll bæði visku og
blessun, því við eigum einmitt að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til
gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á
hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum
til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og
sárt.
Á þessum nótum vil ég
nálgast prestsþjónustu mína í Fossvogsprestakalli og leggja mig fram um að vera
farvegur þess ljóss sem Guð gefur, sem glæðir og nærir okkar andlega, innri
mann.
Dýrð sé Guði, föður og
syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Ég vil minna hér á
Bleikan október, listamánuð í Bústaðakirkju. Messurnar verða með öðru sniði og
hádegistónleikar á miðvikudögum kl. 12:05. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar
sem Jónas Þórir og ýmsir listamenn töfra fram fagra tóna, eins og þau gera svo
stórkostlega hér í þessari messu. Næst eru síðan hádegistónleikar næstkomandi
miðvikudag, 6. október kl. 12:05 og boðið verður upp á súpu að þeirri dagskrá
lokinni. Fjölmennum, tökum þátt. Frábær dagskrá, en hana má nálgast í heild
sinni hér í anddyri kirkjunnar og á heimasíðum og samfélagsmiðlum.
Takið postullegri kveðju.
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.