Puntstrá

Puntstrá

Ég var staddur í Skálholti á dögunum og sat undir kirkjuvegg ásamt yngri dótturinni. Hún er níu mánaða gömul og er enn að uppgötva heiminn. Stúlkan kom auga á nokkur grasstrá og hún vatt sér úr pabbafangi til að skoða þau nánar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
16. maí 2007

Ég var staddur í Skálholti á dögunum og sat undir kirkjuvegg ásamt yngri dótturinni. Hún er níu mánaða gömul og er enn að uppgötva heiminn. Stúlkan kom auga á nokkur grasstrá og hún vatt sér úr pabbafangi til að skoða þau nánar. Að hætti ungbarna voru fingurnir notaðir fyrst. Hún renndi þeim í gegnum grasið, fann áferð með fingurgómum og milli fingra og ofan á hendi. Og svo var eitt álitlegt strá gripið til að skoða nánar og að sjálfsögðu stinga upp í sig.

StráleikurManst þú hvernig tilfinning er að velta puntstrái og öxum milli fingurgómanna? Þekkir þú ennþá áferð grassins sem grær undir kirkjuveggnum?

Getur verið að sum okkar sem eldri erum höfum gleymt þessari fyrstu upplifun og tapað þeirri þekkingu á náttúrunni? Að fingurnir séu þeim mun kunnugri tölvulyklaborðum og farsímum? Eru það góð skipti ef svo er?

Dóttirin minnti mig á þetta og fékk mig til að hugsa. Um leið varð stundin áminning um undur sköpunar og mikilvægi þess að uppgötva hana upp á nýtt – og helst á hverjum degi. Og um mikilvægi þess horfa á hið smáa. Þetta reyndist mér holl áminning, nú við upphaf sumars, þegar allt er að springa út og svo margt er að sjá og uppgötva.

„Nema þér verðið eins og börn ...“ segir Jesús. Kannski er þar verið að minna okkur á undur og mikilvægi uppgötvunarinnar. Kannski felst örlítið himnaríkisminni í stundunum undir kirkjuveggnum og í grasinu þar sem við rennum fingrum gegnum grasið, finnum áferðina og nærveru þess sem skapar og viðheldur alla tíð.