Áratugur Alkirkjuráðsins gegn ofbeldi stendur frá 2001-2010. Árið 2007 er Evrópa í brennidepli átaksins. Við erum minnt á það með hvatningu frá Alkirkjuráðinu að kirkjan á að vera rödd í samfélaginu sem minnir skýrt og greinilega á það að allir hafa rétt á að lifa með virðingu og sæmd, án ótta, án ofbeldis. Í hvatningu sem kom frá Alkirkjuráðinu í tengslum við átakið kemur eftirfarandi fram:
"Friðarbænin sem kennd er við heilagan Frans frá Assisi er þekkt um víða veröld og hvert og eitt okkar getur tekið undir hana í huga og hjarta: "Gerðu mig að farvegi friðar þíns." Þessi bæn hefur verði valin sem einkunnarorð þegar átak Alkirkjuráðsins, Áratugur gegn ofbeldi árið 2007 beinist að Evrópu. Þetta er áskorun til okkar um að vinna gegn ofbeldi í Evrópu bæði í huga og með verkum en um leið að við treystum á fyrirheit Guðs og kraft en ekki okkar eigin.
Hvert líf er gjöf frá Guði og það er einnig friðurinn ! Þessar gjafir eiga að vekja okkur fögnuð en um leið að hvetja okkur til að sýna ábyrgð sem einstaklingar, borgarar og samfélagsþegnar. Hvort sem við tölum um mannréttindi, mannvirðingu eða öryggi manneskjunnar þá skiptir mestu máli að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði og það er grundvöllurinn til að við skiljum hvað átt er við með réttlátum friði. Guð þráir að veita hverri manneskju innihaldsríkt og gott líf og eigum við ekki að þrá að lifa innihaldsríku lífi ?. Hvers vegna eigum við að setja þjóðaröryggi eða efnahagsöryggi framar öryggi einstaklingsins? Því skyldum við setja öryggi jarðneskra eigna framar helgi lífsins?
Í undirbúningi Alkirkjuráðsins fyrir komandi ár í tengslum við áratug gegn ofbeldi voru nokkur málefni sett á oddinn sem tengjast Evrópur en síðan eru mismunandi áherslur eftir svæðum innan Evrópu. Megin markmiðið er að vinna gegn ofbeldi, líkamlegu, andlegu kynferðislegu og líka ofbeldi sem birtist í mynd niðurlægingar og vanrækslu. Til að verða ágengt í þeirri baráttu þarf að reyna að búa til heildstæða mynd af ofbeldinu með því segja sögu okkar allra, bera saman niðurstöður og samhæfa aðgerðir milli kynslóða, þjóða, trúarbragða og samfélaga.
Við erum hvött til að að sjá, ræða um og mótmæla ofbeldi sem tengist:
- Mansali - þúsundir manna, þar af flestar konur eða börn búa við misnotkun
- Ungu fólki - helstu neytendur innan ofbeldisiðnaðarins eru ungt fólk
- Innflytjendum - þjóðir Evrópu mæta þessari stóru áskorun á tímum alþjóðavæðingar
- Hernaði - hergagnaframleiðsla, herþjónusta og þróun í hernaði ógnar aðeins friði
- Heimilisofbeldi og ofbeldi í mannlegum samskiptum - slíkt ofbeldi krefst fleiri fórnarlamba en styrjaldir
- Öryggi einstaklingsins - sameiginlegt verkefni sem er án landmæra og ofar þjóðahagsmunum
- Umhverfinu - horfumst í augu við afleiðingar ofbeldis gagnvart náttúrunni
- Ofbeldi í Kirkjunni - lítum í eigin barm
- Guðfræði réttláts friðar - kirkjurnar breyti áherslum sínum þannig að hugmyndin um réttlátt stríð verði að hugmynd um réttlátan frið."