Í helli

Í helli

Upprisan á sér nefnilega stað í helli, í myrkri og í fullkominni þögn. Þar sem moldin og jörðin eru allt umlykjandi og það er þar sem nýtt líf verður til, líkt og fræ sem er gróðursett í mold, barn sem hvílir í móðurkviði og í lokuðum helli. Nýtt líf sem verður til í Jesú sem fæddist í helli og rís upp í helli. Allt þetta á upphaf sitt í fullkomnu myrkri og þögn.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
01. apríl 2018
Flokkar

Flutt 1. apríl 2018 í Hjallakirkju

Það er merkilegt að upplifa það á vorin að vaka næturlangt yfir sauðfé í sauðburði. Við hjónin höfum gert það núna saman nokkur vor í Laufási þar sem við eigum nokkrar kindur í félagi og líkað vel.

Laufás stendur við bakka Fnjóskár og á vorin er stórkostlegt að upplifa lífið vakna yfir hólmunum, heyra fuglasöngin óma allt um kring á pallinum við húsið, þannig að auðveldlega má greina sundur tegundir, hvaða fuglar eru komnir í varphólmana og eru í óðaönn að undirbúa hreiðurgerð sem mun fóstra og umlykja nýtt líf.

Við höfum haft það sem sið að fara út í hús rétt undir miðnætti og verið úti til að ganga sex á morgnana. Það er magnað að upplifa á þessum tíma sólarhringsins að allt fellur í dúnalogn. Umhverfið þagnar og mitt í öllu ati vorsins ríkir grafarþögn í náttúrunni. Þegar við göngum heim úr húsunum undir morgun, þá heyrum við náttúruna vakna á ný, með sólarupprásinni og fuglasöngurinn ómar yfir og allt um kring.

Ég man hvað mér fannst þetta merkilegt þegar ég áttaði mig á þessu fyrst, þessari kyrru næturinnar, þar sem myrkur og þögn umlykja allt í jafnri hringrás, alla daga, allan ársins hring, myrkrið og þögnin sem verða svo nærgöngul og þrúgandi að maður finnur áþreifanlega fyrir því á líkama og sál.

Þegar ég var lítil var ég myrkfælin, svaf alltaf með ljós og flýtti mér helst að sofna áður en foreldar mínir sofnuðu, til að þurfa ekki að vera ein í myrkrinu. Það var engin sérstök ástæða fyrir þessari myrkfælni, heldur fannst mér nístandi þögnin í nóttinni óþægileg og hugsanlega voru einhverjar verur á sveimi sem ég var búin að ýminda mér að væru til og óttaðist, þó að ég hefði nú aldrei orðið vör við neitt slíkt, þá var alltaf best að hafa varann á og hafa ljóstýru í myrkrinu til að bægja allri slíkri óværu frá.

Við vörum börnin okkar alltaf við því að vera ekki ein á gangi í myrkri, enda er oft rík ástæða fyrir því í viðsjárverðum heimi. “Vertu komin heim fyrir myrkur” er setning sem heyrist á mörgum heimilum, þar sem við viljum ekki að fólkið okkar sé á ferli í aðstæðum sem geta ógnað lífi og öryggi ástvina okkar.

Hugmyndin um að myrkrið geti verið eitthvað vinalegt er fjarri, það er lögmál líkt og þyngdarlögmálið, að myrkur ógni og við gerum okkar besta til að bægja því frá og vernda okkur og aðra með því að gæta að því, að steininum sé alltaf vellt frá, að birtan skíni inn.

Kannski er það svo að þörfin fyrir að bægja myrkrinu frá með öllum ráðum, verði til þess að við lærum aldrei að meta eða sjá töfrana sem leynast í kyrrunni, í þögninni, í myrkrinu.

Myrkrið getur verið svo margslungið, það er hluti af hversdeginum og það getur líka umlukið líf þitt svo um munar. Áföll og sorgir, mannlegir harmleikir millir fólks, vina og fjölskyldu skapa myrkur.

Stundum er mykrið svo þungt að við upplifum okkur líkt og í gröf, í helli þar sem steininum hefur verið velt fyrir og engin leið er út.

Að vera á þeim stað í lífinu er vont, því öll þurfum við að eygja von um það, að í öllum aðstæðum sé leið út, að í myrkrinu sé sáð í mold fræi vonar, að við munum þrátt fyrir allt lifa af og finna leið til þess saman, því það er í nærveru og samveru með öðrum, þar sem birtan finnur sér farveg og leið.

Að við áttum okkur saman á því sem mestu máli skiptir, sem er þetta: Að í öllum breyskleikanum og ófullkomleikanum þá er lífi okkar og tilveru oft ógnað með mistökum, röngum orðum og gjörðum, en við finnum sameiginlegan grunn til að halda áfram, af því að enginn er undanþeginn því að vera manneskja og við þurfum á hvert öðru að halda í lífinu, auka hendur sem lyfta steininum frá og hleypa birtunni inn þegar myrkrið er sem svartast.

Við heyrum oftast sögur af upprisunni í guðspjöllunum í fallegum ljóma, þar sem í bakgrunninum skottast um gulir páskaungar, hvítar liljur og geislandi sólin, lífið sem sigrar að lokum.

Okkur finnst betra að dvelja í birtunni sem þessi saga miðlar af því að henni fylgir ekki sama ógnin og undanfarinn að atburðum páskadagsmorguns sem eru þjáning, harmleikur og ógn.

Maður sem er yfirgefinn, hæddur og niðurlægður, allt hans líf er dregið í efa og allt sem hann hefur sagt og gert og haft fram að færa. Hann er skilinn eftir, meiddur og særður, látinn bera kross þar sem múgurinn horfir á og þar sem hann endar sitt jarðneska líf. Við heyrum af myrkri sem legst yfir jörðina, frá hádegi á föstudeginum langa þar til á páskadagsmorgun, þegar fyrstu geislarnir afhjúpa það sem hefur gerst í myrkrinu, áður en steininum var velt frá.

Upprisan á sér nefnilega stað í helli, í myrkri og í fullkominni þögn. Þar sem moldin og jörðin eru allt umlykjandi og það er þar sem nýtt líf verður til, líkt og fræ sem er gróðursett í mold, barn sem hvílir í móðurkviði og í lokuðum helli. Nýtt líf sem verður til í Jesú sem fæddist í helli og rís upp í helli. Allt þetta á upphaf sitt í fullkomnu myrkri og þögn.

Kirkjan varð til í þessum aðstæðum, undir krossi, inn í helli, þar sem fræi er sáð. Þegar við leitum að kirkjunni og tilgangi hennar, verðum við að byrja að leita þarna og halda svo áfram með það sem okkur er gefið en í guðspjallinu sem við heyrum í dag segir engillinn við konurnar að þær verði að fara á undan til Galíleu og þar muni þær hitta Jesú.

Aftur til Galíleu þar sem Jesús starfaði og var á meðal fólks. Okkar hlutverk er að fara þangað, til Galíleu, en hún er til alls staðar, á öllum tímum, þar sem fólk er saman komið í Jesú nafni og það er þar, í náunganum sem við mætum Jesú, upprisnum og lifandi.

Þar er kirkjan fullmótuð, þar sem Guð birtist okkur daglega, ekki með táknum og undrum heldur í hversdagslegum hlutum, í brauði, í víni, í orðum, í veikindum, í bata, í lífi og dauða, í móðurkviði og tómri gröf.

Kirkjan er ekki veruleiki sem tilviljanakenndur, kirkjan fæðist í þínu lífi þegar þú heyrir hvíslað í eyra þér: Taktu eftir, þú ert á heilögum stað. Guð er hér.

Þegar ég stend á hlaðinu í Laufási á vorin í kringum miðnætti og hlusta á þögnina og feta mig áfram í myrkrinu, þá leyfi ég þessari reynslu að hvíla innra með mér. Ég finn ekki fyrir sama ótta og ég gerði sem barn þegar ég fann fyrir knýjandi þörf fyrir að hafa ljósið kveikt því myrkrið fóstraði ógn sem ég kunni ekki skil á á þeim tíma. Þarna á hlaðinu finn ég Guð að verki. Guð er þar. Stundin er heilög.

Ég veit það í dag, að í nóttinni er Guð að gera alla hluti nýja. Hann er að fæða fram lífið. Sama hlutverk og fuglarnir í Laufáshólmum eru að undirbúa sig undir í kyrru vornæturinnar við Eyjafjörðinn. Ég veit að á réttum tíma verður steininum velt frá og góðu fréttirnar fá að hljóma, í mínu lífi og þínu lífi. Ég hef ekki ástæðu til að óttast, þó að ég hafi ekki alltaf haft augu til að sjá eða þroska til að skilja.

Við verðum að hugrekki til að hvíla um stund í myrkrinu, því það er oft í svartasta myrkrinu sem augun byrja að sjá sem best.

Upprisubirtan er nefnilega ekki bara fólgin í steininum og óþolinmóðri biðinni eftir því að honum verði velt frá. Hún á upphaf sitt í þínum augum, Jafnvel þó að allt sé
umlukið myrkri. Í myrkrinu verður vonin til, þar hefst upprisan og hið nýja líf. Hver sem hefur augu að sjá, hann sjái.

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega páska.