Mitt í stormi líðandi stundar er gott að líta sér nær og hugleiða það sem við þó eigum, hugleiða og lofa allt það sem okkur er gefið hér í þessu lífi. Ritningin minnir okkur líka á það að við erum ekki ein heldur sé skapari okkar nær en við kannski skynjum eða áttum okkur á. Þetta sjáum við t.d. í Davíðssálmi 139.5, þar sem segir:
,,Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig.”
Og þegar við hugleiðum þá sérstöku nærveru Guðs við okkur, vaknar löngun til að skilja og greina hvers vegna allt þetta er. Hver er ég, og hvar eru sporin sem mér eru ætluð í þessu lífi? Hvaðan kem ég og hvert stefni ég? Skáldkonan og presturinn Caroline Krook setti þannig hugleiðingar í ljóðamál í bók sinni ,,Andardráttur umhyggjunnar”:
Ég fer til baka, til uppruna míns Í skaut eilífðarinnar: Skínandi myrkur, þöglir tónar. Öll mörk eru horfin, Fyrst skynjunarinnar: augans, eyrans, munnsins, húðarinnar; því næst líkamans: handanna, armanna, fótanna, leggjanna. Ég sameinast andrúminu sem ég dreg að mér. Er það ég sem anda eða andar það í mér? Hér er hvíldin -hin eilífa hvíld.
Og einmitt þá, þegar ég beini athyglinni með þessum hætti nær mér, opnast fyrir eitthvað alveg heilagt innra með mér. Ég hugsa til þeirra stunda þegar hamingja mín var alger og verð um leið svo meir, svo full af gleði. Sérstaklega á það við þegar ég hugleiði fæðingu barna minna. Við sem höfum átt því láni að fagna að verða foreldrar, munum þessa stund þegar við fengum barnið í hendurnar fyrsta sinn. Og þá skiptir engu hvort um er að ræða blóðforeldra, eða foreldra ættleiddra barna. Þessi fyrsta stund foreldra og barns er eins og draumkenndur veruleiki. Unaðshrollur fer um mann og sælukendin verður alger. Það er einmitt þá sem foreldrar verða einn maður. Elskan til barnanna hvílir í þessari sameiginlegu reynslu okkar, reynslunni af því að sjá og snerta yndisleg börnin í fyrsta sinn.
Hver getur gleymt litlu bleiku nöglunum? Hver getur gleymt krepptum hnefunum? Og hljóðin sem barnið gefur frá sér þegar það liggur við móðurbrjóstið þiggur næringu sína af áfergju. Eða í föðurörmum og teigar sopann af pela. Hvernig gætum við mögulega gleymt þeim dýrmæta fjársjóði sem í börnunum er falinn? Vitaskuld varðveitum við minningarnar...þær eru líkar perlum sem við geymum í gylltu skríni. Perlur sem við drögum upp löngu seinna, þegar börnin eru vaxin frá okkur. Drögum upp, og dáumst að...höllum okkur að minninganna brunni og njótum.
Ritningaversið sem ég vitnað í hér framar, fjallar um það hvernig Guð faðmar okkur að sér. Líkt og ástríkt foreldri sem breiðir faðm sinn mót barni sínu, þannig tekur Guð á móti okkur. Og hversu mjög sem við berum af tilfinningum til barnanna okkar, nær það aldrei fullkomleika þeirrar ástar sem Drottin Guð ber í brjósti fyrir okkur. Guð umlykur þig á bak og brjóst.
Okkar ástkæri og andlegi trúarleiðtogi, Hr. Sigurbjörn Einarsson heitinn, fangar þessa hugsun á svo einfaldan og skiljanlegan hátt í sálmi sínum ,,Eigi stjörnum ofar”...en þar segir í öðru erindi:
,,Nær en blærinn, blómið, barn á mínum armi, ást í eigin barmi, ertu hjá mér, Guð.”
Einmitt þannig dvelur Guð hjá þér, á hverjum degi og hverri nóttu. Við hvern andardrátt þinn og hvert spor þitt, þar er Guð. Guð umlykur þig á bak og brjóst, Guð dvelur í þér og allt um kring. Guð er í þér, og þú ert í Guði og Guð er allt um kring. Allt sem skapað er, hvílir í Guði. Allt sem lifir og hrærist á sér uppruna í andardrætti skaparans. Þú, og ástvinir þínir allir...barnið þitt. Og það er einmitt þetta sem ég segi gjarna við foreldra á skírnardegi barnsins og vitna þá einmitt í þann sálm sem ritningarvers dagsins er fengið úr, en þar stendur:
,,Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni...”
Er við enn vorum ómyndað efni, þekktu augu Guðs okkur! Þetta er mikill leyndardómur, kannski ofar okkar eigin skilningi og þó, kannski ekki. Því við sem höfum trú, vitum að í henni er hið algera traust fólgið. Á sama hátt og barnið sem ekkert getur annað en lagt fullkomið traust sitt til foreldra sinna, á þann sama hátt leggjum við traust okkar í hendur Guðs. Og þar upplifum við svo einfalda og sanna gleði, líka þeirri og við finnum til þegar við erum ástfangin. Þegar við upplifum okkur vera á réttum stað í lífinu, að hvergi annars staðar vildum við vera, en einmitt í þeim sporum, með þeirri manneskju... eða eins og Bubbi Morthens orti svo fallega:
,,Sérðu ekki að við fæddumst til að standa hlið við hlið Og halda út á veginn saman og líta aldrei við”
Og einmitt í þeim sömu sporum er svo gott að finna sig vakna í kyrrð hins myrka vetrarmorguns, og uppgötva að einmitt þar er himnaríki. Og að það eina sem mann langar að gera þá stundina, er að horfa á sofandi andlit ástarinnar þarna á hinum koddanum. Snerta varlega mjúkum fingurgómum framanverðan hálsinn, finna andardráttinn og lofa Guð fyrir stund sem við óskum heitar en nokkuð annað, að megi vara um alla eilífð.
Því einmitt þarna í þessu smáa, í hversdeginum, í lífinu, er það fullkomnað!