Pawel Bartoszek spyr ágengrar spurningar í grein sinni „Máttlitlir siðferðisvitar“ í Fréttablaðinu 14. okt. sl. Hann spyr hvort þjóðkirkjan, eða þess vegna önnur trúfélög, séu öfl sem takandi er mark á þegar kemur að því að vísa veginn í siðferðisefnum. En það hefur einmitt verið talið helsta hlutverk trúfélaga. Þau hafa oftar en ekki gert kröfu um að vera handhafar hinna sönnu gilda og talið heill samfélagsins velta á því að þeim sé fylgt.
Trú til ills og góðs
Það er skiljanlegt að geta trúfélaga í þessu efni sé dregin í efa eftir það harkalega áfall sem þjóðkirkjan hefur nú orðið fyrir. Niðurstaða Pawels er hins vegar nokkuð einhliða og yfirborðskennd. Hann segir: „Framfarir í siðferðismálum verða sjaldan fyrir tilstuðlan trúfélaga“.
Saga mannsandans og menningarinnar segir flóknari sögu en svo að slík ályktun standist gagnrýni, að minnsta kosti ef rætt er um trúarbrögð í stað einstakra trúfélaga.
Mergurinn málsins er að trúarbrögð, trúfélög og trúarleiðtogar hafa komið til leiðar ýmsu því háleitasta og göfugasta sem gerst hefur í mannlegu samfélagi. Það verður ekki af þeim skafið. Þau hafa hins vegar líka valdið ýmsu ólýsanlegu böli og jafnvel samfélagslegum meinum. Í skjóli trúarbragða hefur því miður farið fram valdbeiting, arðrán, kúgun, niðurlæging og misnotkun sem ómögulegt er að hvítþvo þau af. Nú erum við í þjóðkirkjunni að súpa seyðið af slíkri misbeitingu trúar sem framin var í okkar röðum.
Rétt eða röng beiting trúar
Það er varhugavert að taka raunveruleg dæmi af því þegar trúarbrögð eru notuð af valdi og grimmd. Valið gæti byggst á dómhörku og ýtt undir fordóma. Gagnlegt dæmi er hins vegar að finna í sögunni um rannsóknardómarann mikla í skáldsögu Fjodors Dostojevskís um Karamazov bræðurna:
Svo bar við að Kristur sté að nýju niður til jarðarinnar og gekk á meðal borgarbúa í Sevilla, „...hljóðlátt bros hans [lýsti] takmarkalausri meðlíðan“ og allir þekktu hann. Rannsóknardómarinn varð eins og aðrir vitni að kraftaverkum hans en fyrirskipaði tafarlausa handtöku. Hann vildi koma í veg fyrir að Kristur truflaði kirkjunnar menn við að halda uppi þeirri röð og reglu sem þeir kusu frekar en frelsið sem fólst í boðskap Krists. Í réttarhöldum sínum yfir Kristi játaði rannsóknardómarinn að trúfélag hans hefði valið að kenna að „frjáls ákvörðun hjartans“ og kærleikurinn skipti engu heldur varðaði „leyndardómurinn sem [menn] yrðu að lúta í blindni, jafnvel í trássi við samvisku sína“ öllu um velferð fólks. Í stað frelsis og kærleika hafði rannsóknardómarinn og stallbræður hans lögfest leyndardómsfulla kreddu. Réttarhöldum rannsóknardómarans lauk með því að Kristur „brenndi á vör hans kossinn“. Dómarinn vísaði aftur á móti fanga sínum út í nóttina eftir að hafa dæmt hann á köstinn. — Frásagan ýtir undir þann áleitna grun að Krists-atburðinum mundi ljúka á sama hátt og áður ef hann gerðist öðru sinni. Nú væri það aðeins kirkjan sem kallaði: „Krossfestu!“ Þungur dómur það.
Andstæða hroka- og hatursfulls rannsóknardómarans er Kristur guðspjallanna. Hann, ímynd Guðs, svifti sig öllu og gekk inn í kjör þeirra misnotuðu og sviknu þegar hann sagði: „Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín... Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ — Eða gáfum við honum ef til vill hvorki að eta né drekka, hýstum hann hvorki né klæddum, komum hvorki til hans á sjúkrabeð né í fangelsi?
Sérhvert trúfélag hefur val um að fylgja fordæmi rannsóknardómarans mikla eða fanga hans. Í valinu felst svarið við spurningu Pawels Bartoszeks og annarra sem efast um forsendur trúfélaga til að vísa veg í siðferðisefnum. Valið stendur milli valds og auðmýktar, lögmáls og frelsis, falskrar kreddu eða kærleika. Valið stendur milli réttrar eða rangrar beitingar trúarinnar og þess afls sem í henni býr. — Stöðugt verðum við að velja og á valinu veltur hvort trúfélögin verða með í að varða veginn að því siðbætta samfélagi sem við þráum öll eða hvort önnur öfl muni gera það án þátttöku trúarbragðanna.
Röng skýring á uppruna manns og heims?
Annað atriði sem Pawel Bartoszek gagnrýnir trúarbrögð fyrir er að flest gefi þau rangar skýringar á upphafi heimsins og tilurð mannsins. Gildi trúarbragða felst að flestra mati ekki í að þau gefi svör við spurningum um tilurð manns og heims. Orðræðan um hvort skýri upphafið betur sköpun eða mikli hvellur er ófrjó.
Sköpunarsögur Ritningarinnar og raunar öll sú mikla „stór-saga“ sem þar er rakin frá upphafi til endaloka heims hefur mun meira gildi þegar þær eru notaðar til að rýna í gleði og þraut mannkyns á líðandi stundu. Það er í þessar sögur sem okkur er ætlað að sækja vit og dómgreind til að velja rétt í þeirri stöðu sem við stöndum í sem einstakingar, samfélag, trúfélög eða kirkjur. Sagnheimur Ritningarinnar fjallar allur með einum eða öðrum hætti um hvað það er að vera ábyrg manneskja í viðsjárverðum heimi. Trúarbrögð eru að nokkru leyti viðleitni til að reynast ábyrgt fólk. Þau verða ekki dæmd úr leik í þeirri viðleitni þrátt fyrir að þeim sé illu heilli stundum misbeitt.