Á sunnudaginn kemur, 13. sunnudag eftir þrenningarhátíð er dagur kærleiksþjónustunnar í kirkjunni. Textar dagsins eru um kærleikann, kærleika í verki en ekki orðum einum. Lexía dagsins úr Jesaja um þá breytni sem Drottni líkar ættu að vera okkur öllum áminning um skyldur okkar:
„ .. sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð. Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, réttlæti þitt fer fyrir þér en dýrð Drottins fylgir eftir. Þá muntu kalla og Drottinn svara….“ (Jes. 58.6-9)Þessari brýningu megum við ekki gleyma.
Neyðin er allt um kring, oft dulin, og hverfur fljótt af skjánum. Dagur kærleiksþjónustu kirkjunnar minnir söfnuði og samfélag á þá skyldu að líta þangað sem særður liggur utan hjá og leggja sig fram um að vitna um þá trú sem verkar í kærleika. Hungrið í heiminum, örbirgð þeirra sem enga von eygja, langvinnir þurrkar og uppskerubrestur, hækkandi matarverð og orkuverð hrekur æ fleiri á vonarvöl. Á sama tíma og æ meira landrými er tekið undan ræktun matvæla til ræktunar til eldneytis á farartæki hinna auðugu.
Og hér heima horfa þúsundir heimila á skuldafjötra sem ekkert virðist megna að rjúfa. Á Íslandi í dag er fólk í fátæktargildru.
Þetta er heimurinn sem við erum send til með fagnaðarerindi Jesú Krists. Í því samhengi skulum við muna hvað kirkjan er og hvers eðli hennar og hlutverk krefst af okkur hverju og einu á vettvangi hennar. Dagur kærleiksþjónustu kirkjunnar er til að lyfta þessu fram í fyrirbæn. Og til að vekja samfélagið til vitundar um skyldu sína í þessum efnum. Kærleiksþjónusta og líknarstarf safnaðanna um land allt, starfsemi Hjálparstarfs kirkjunnar innan lands sem og erlendis, og þau fjölmörgu líknarsamtök og félög sem sinna þeim sem þjást og líða og halloka fara okkar á meðal, eru tákn og verkfæri umhyggju og vonar, opinn hugur og útrétt hönd kærleikans.
Guð blessi þá hugi og hendur.