Rodney Stark er prófessor í félagsvísindum og höfundur umdeildrar bókar sem út kom á sl. ári: Sigur skynseminnar - Hvernig kristindómurinn leiddi til frelsis, kapítalisma og framfara Vesturlanda. Bókin er afar fróðleg og læsileg og sannfærandi. Höfundur staðhæfir með sannfærandi rökum að grundvöllur yfirburða Vesturlanda í tækni, menningu, viðskiptum og stjórnmálum í samanburði við aðra menningarheima, sé að kristindómurinn lagði áherslu á skynsemi mannsins. Hann heldur því fram að það sé ekkert nema sögufölsun að halda því fram að kirkja og kristni hafi staðið gegn framförum.
Kristindómurinn er oft ásakaður fyrir að hafa staðið gegn þróun þjóðfélagsins í tímans rás. Goðsögnin um hinar myrku miðaldir lifir góðu lífi í kennslubókum og almennri orðræðu. Margir Íslendingar eru sannfærðir um að þá fyrst hafi heimurinn kynnst tækni framförum og þróun í vísindum, listum og þekkingu, þegar kirkjan var kveðin í kútinn af veraldarhyggjunni og allra handa andkristnum hreyfingum og hugmyndafræði. Það er hinn algildi túlkunarlykill að sögunni sem beitt er hér á Vesturlöndum, að orsök frelsis og framfara í þessum heimshluta sé að kirkju og trú hafi verið vikið til hliðar, afhelgunin sé rót frelsis og tækniframfara. Þessu andmælir Rodney Stark sterklega í bók sinni. Hann leiðir sterk rök gegn því að framfarir vestrænnar siðmenningar hafi fyrst hafist með því er Vesturlönd gerðu upp við kristindóminn.
Stark segir að það sem hafi komið vestrænum landkönnuðum á 17. öld mest á óvart er þeir kynntust menningu Suður Ameríku, Kína og Indlandi, og eins Islam, var tæknilegir yfirburðir þeirra sjálfra. Margir menningarheima lögðu stund á alkemiu, en hvers vegna var það aðeins á Vesturlöndum að sú list þróaðist í efnafræði? Hvers vegna var Evrópa öldum saman eina menningin sem átti gleraugu, reykháfa, áreiðanlegar klukkur, nótnaskrift og skipulagðan landbúnað? Stark heldur því fram að ástæðan sé heimssýn kristninnar og hvaða augum hún lítur skynsemina og getu mannsins til að hafa áhrif á umhverfi sitt og heim.
Kristindómurinn þróaði notkun skynseminnar, og því voru Evrópumenn færir um að þróa tækni, markaðsviðskipti, stjórnkerfi og hugtakið einstaklingsfrelsi, sem aðrir heimshlutar þekktu ekki á miðöldum.
Það var kirkjan sem stofnsetti háskólana, og margir af merkustu vísindamönnum fortíðar voru trúmenn, og jafnvel líka prestar. Hið merkasta við niðurstöður Stark er að hann heldur fram miðlægri stöðu skynseminnar í kristindómnum, og að hann sýnir fram á að það er trúarbrögðin, það er kristindómurinn, en ekki upplýsingin og síðar afhelgunin, sem er megin drifkrafturinn í evrópskri menningu.
Hin mikla áhersla á skynsemina á rætur að rekja til hinnar kristnu guðsmyndar. Trú kristindómsins á persónulegan Guð, skaparann, lauk upp fyrir hugmyndum um að heimurinn væri aðgengilegur skynsemi manns og rökhugsun. „Þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum“ segir Páll postuli. Í því viðhorfi er fólginn hvati að sannleiksleit sem hefur haft áhrif ekki aðeins á trúarhugsun heldur líka afstöðu til náttúrunnar og lögmála hennar. Stark heldur því fram að það sé einmitt hin ópersónulega guðsmynd t.d. Taoisma og Buddisma sem sé meginástæða þess að þessi trúarbrögð þróuðu ekki vísindi á sama hátt og Evrópa.
Kristin trú gengur út frá því að Guð hafi tilgang með heiminn og að maðurinn geti leitað og fundið merkingu og tilgang lífsins. Guð gæðir manninn skynsemi - til viðbótar við hæfileikann að trúa - sem er tæki til að skilja betur reglu Guðs, tilgang og vilja. Stark sýnir fram á hvernig áherslan á skynsemina hafi líka haft áhrif á afstöðu til ritningarinnar sem verkaði gegn hvers konar bókstafshyggju. Andstætt Gyðingdómi og Islam, sem álíta textann lögmál, sem ekki verði hnikað við, álítur kristin trú ritninguna opna fyrir túlkun. Maðurinn er hvattur til framfara, að eflast og þroskast í þekkingu, visku og skilningi gagnvart leyndardómum lífsins. Greinilega má sjá hvernig hugsuðir eins og Ágústínus og Tomas Aquinas nota skynsemina er þeir brjóta orðið til mergjar. Ágústínus sagði í bók sinni „Borg Guðs“:
Ákveðin atriði sem varða kenningarnar um hjálpræðið sem við getum enn ekki skilið...munu um síðir ljúkast upp fyrir okkur.Ágústínus gladdist yfir framþróun guðfræðinnar, sem og framförum í jarðneskum efnum og efnislegum gæðum: „Hvílíkar undursamlegar framfarir hafa ekki áunnist fyrir mannlega iðju og atorku í listvefnaði og byggingarlist, í landbúnaði og siglingafræðum!“ og svo heldur hann áfram að dásama stærðfræðikunnáttu, nákvæmari mælingar og tölfræði, og svo framvegis.
Grundvallarhugsun í kristinni guðfræði allt frá frumbernsku hennar er að Guðs orð og sannleikurinn verði ekki einasta skilinn úr frá forsendum trúarinnar, heldur þurfi líka að notfæra sér skynsemina. Af sömu ástæðu þróast kennisetningar kristninnar og eru settar fram í aldanna rás. Það er þessi víxlverkan trúar og skynsemi sem hefur frjóvgað vestræna menningu svo ríkulega.
Stark sýnir fram á að hugtakið „hinar myrku miðaldir“ eigi hreint ekki rétt á sér. Það standist ekki í ljósi staðreynda um framfarir í viðskiptum og landbúnaði, í byggingalist og stjórnarfari. Þar hafi Evrópa miðaldanna tekið öðrum heimshlutum fram. Kirkjan, og ekki síst klaustrin hafi leikið þar lykilhlutverk. Ástæðuna sé að finna í hugmyndagrunni og heimsmynd kristninnar. Sjá má t.d. rót efnahagslegra framfara í áherslu kristninnar á eignarréttinn og skjalfesting hans, og í því að unnt var að setja land að veði gagnvart skuldbindingum til langs tíma.
Áhersla Starks á að það sé einmitt kristindómurinn sem hafi valdið mestum framförum í sögu mannsandans er æði ögrandi andmæli gegn hinum afhelgaða hugsunarhætti samtímans. Þar er það viðtekin kredda að kirkjan og kristnin séu megin andstæðingar framfaranna og dragbítar þróunar vísinda og menningar. Stark sýnir fram á að það sé ekki aðeins rangt heldur beinlínis sögufölsun. Og það að slík ranghugsun sé ráðandi meðal okkar sé í raun afturför evrópskrar menningar, sjálfsþekkingar og þróunar.
Ég mæli eindregið með þessari áhugaverðu, hressilegu og vekjandi bók.
Rodney Stark: The Victory of Reason. How Christianity Led to Freedom, Capitalism and Western Success, Random House, New York, 2005.