Vindorkan og veruleikinn

Vindorkan og veruleikinn

Og Guð gefi að Laugarnessöfnuður megi halda áfram að vaxa og dafna með öflugu mannræktarstarfi, að börnin og unglingarnir verði áfram fjöreggg kirkjunnar og hreyfaflið verði fyrst og síðast hinn krossfesti og upprisni Drottinn Jesús Kristur.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
30. maí 2010
Flokkar

Þetta er nú meira en lítið skrýtið! Þegar ég flutti lokaprédikun mína frá guðfræðideildinni fyrir réttum fimm árum, kom þessi sami guðspjallstexti upp í hendurnar á mér, samtal Jesú og öldungsins Nikódemusar og þá vitnaði ég í textann af öryggi hins nýfædda guðfræðings, af nokkru yfirlæti raunar gagnvart þessum skilningsvana farísea sem var svo dæmalaust barnalegur í bókstafstrú sinni. Og nú eru liðin fimm ár og ég búin að fara í gegnum aðra guðfræðideild, talsvert meira krefjandi en þá fyrri og viti menn, skríður ekki sami texti upp úr jarðvegi ritningarinnar, eins og til að segja “ jæja Hildur Eir, ertu nú eins viss og þú varst? Ertu alls ekkert skyld honum Nikódemusi blessuðum?” Og ég staldra við, lít í spegil áranna, sé fyrst í stað nokkur grá hár og hrukkur örlaganna eins og vörður í kringum augun, þó er ég enn með storkabitið frá fæðingu á innanverðum úlnliðnum, það er að vísu aðeins farið að dofna, svo það er fátt sýnilegt sem minnir lengur á fyrstu ár ævi minnar. Það er svo skrýtið, að eftir því sem ég upplifi meira, veit ég minna, eftir því sem ég kynnist prestsstarfinu betur verð ég á vissan hátt yngri í sál minni þó að útlitið færist stöðugt fjær uppruna sínum. Það er kannski þess vegna sem mér fannst kvikmyndin um Benjamin Button mjög raunveruleg. Hann fæddist gamall maður og dó sem ómálga barn, hann yngdist með árunum en kvikmyndaformið er eðlilega þeim takmörkunum háð að aðeins það sýnilega nær að tjá innihaldið, þess vegna var það útlitið sem táknaði það ferli sem kannski hafði miklu meira að gera með sálarlíf mannsins. Við þekkjum jú vel málsháttinn “tvisvar verður gamall maður barn” sem er nokkuð góð speki, lífið er dálítið eins og slönguspil, við hefjum leikinn og endum hann á byrjunarreit. Þess vegna vona ég að textinn um Nikódemus komi sem oftast upp á yfirborðið þegar ég stend á tímamótum í lífinu, bara til þess að minna mig á að ég veit aðeins eitt og það er að ég veit ekki neitt, eins og Sókrates sagði forðum og fyrst hann gat sagt það, þá fell ég alveg örugglega undir þá staðhæfingu. Vandamál alheimshreyfingarinnar sem nefnist kirkja er hið sama í dag og Nikódómeus stóð frammi fyrir í samtalinu við Jesú, vandamálið er að bera kennsl á Krist, hver er Jesús Kristur? Það er spurningin sem okkur greinir mest á um og kannski þess vegna leggjum við gjarnan mikla orku í að skapa hefðir trúarinnar og viðhalda þeim og rökræða þær af því að það er svo áþreifanlegt og svo eru margir sem geta auðveldlega aflað sér þekkingar á hefðunum og öðlast þar með yfirburði í öllum samtölum og rökræðum. Þetta er svolítið svipað því og þegar hjón leggja alla sína krafta í að byggja sér hús og innrétta og mublera og verða þar af leiðandi sérfræðingar í arkitektúr og raflögnum en gleyma alveg að rækta tengslin sín á milli, ástina og vináttuna og þó að húsið sé á heimsmælikvarða og raflagnirnar alveg sérlega vel hannaðar þá ríkir tómlætið eitt í hvíta Natuzzi sófanum af því að ástin varð eftir við altari drottins, gleymdist á leið útúr kirkjunni eða á leiðinni inn í Húsasmiðjuna, þetta er gömul saga og ný, sístæð klisja af því að þetta er veruleiki en ekki sannleikur, sannleikurinn er aldrei klisja, sannleikurinn er hreyfiafl en hefðir og hús eru það ekki. Hver er Jesús Kristur? Jesús Kristur er hreyfiafl, sá sem knýr fram lífgefandi breytingar, kannski þess vegna getum við aldrei staðsett hann, ekki frekar en vindinn sem blæs þar sem hann vill. Hvað myndi gerast ef við gætum stýrt öllum áttum vindsins? Í alfræðinetritinu Wikapediu stendur að vindorkan sé “vistvæn og endurnýjanleg,” þetta gæti hæglega verið lýsing á Jesú Kristi, vistvænn og endurnýjanlegur, alltaf nýr en þó hinn sami, og áfram heldur alfræðiritið að fjalla um vindorkuna, kosti hennar og galla og þar segir:

Kostir: "Vindorka býður upp á marga kosti sem skýra hvers vegna hún er sá orkumiðill sem vex sem hvað hraðast í heiminum. Vindorka mengar ekki loftið eins og orkuver sem brenna kolum, gasi eða olíu við framleiðslu rafmagns. Það myndast ekki þær lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum eða súru regni. Það skapast ekki hætta á mengunarslysum við flutning aflgjafans til orkuvera. Orkugjafinn er ókeypis, byggingartími stuttur og auðvelt að stækka vindorkuverið án mikillar fyrirhafnar. Vindorkan er endurnýjanlegur orkugjafi sem rennur ekki til þurrðar. Gallar: Helstu vankantar á því að nota vindorku er að vindurinn er óstöðugur og blæs ekki alltaf þegar þörf er á raforkunni. Það er ekki hægt að geyma hana í stórum stíl og grípa til hennar síðar" ( Wikapedia, 25.maí. 2010). Jesús Kristur er eins og vindurinn, hreyfiafl sem rennur ekki til þurrðar, mengar ekki, er ókeypis og stækkar, út í hið óendanlega, hann blæs ekki eftir okkar hentugleikum heldur þar sem hans er þörf og við geymum Jesú Krist ekki þangað til okkur hentar að vera í samfélagi við hann ekki frekar en ástina þar til húsið er klárt. Jesús er eins og vindurinn, það er niðurstaða mín eftir fyrstu árin í prestsskap sem ég hef blessunarlega fengið að sinna hér í Laugarneskirkju. Ég veit að þú trúir því varla en ég var bara 23 ára gömul þegar ég kom fyrst hingað til starfa árið 2001, þá var ég barnshafandi, átti von á honum Haraldi Bolla sem fékk vinnuheitið Músapési í sunnudagaskólanum á meðan hann hvíldi í móðurlífi, nú er hann bara stór og stæðilegur drengur með spangir og spékoppa, afar lifandi minnisvarði þeirra ára sem ég hef notið hér. Fyrir utan þau verkefni sem mér hafa hlotnast í mínu persónulega lífi, barnsfæðingar, veikindi, dauðsföll og mistök, stór og smá, þá eru það árin hér við þessa kirkju og innan um ykkur kæri söfnuður sem hafa mótað mig mest. Hér hef ég lært svo ótal margt ekki bara af samstarfsfólki mínu og öllum þeim manneskjum sem Guð hefur leyft mér að þjóna í blíðu og stríðu, heldur af ykkur sem hafið verið samferðarmenn mínir á þessari vegferð, þessum fyrstu og e.t.v. mikilvægustu árum starfsævinnar. Ég er sá prestur sem ég er, vegna þess að ég starfaði á mótunarárunum hér og það mun aldrei verða frá mér tekið né frá ykkur sem eigið svo stóran þátt í því. Og ef ég lít til baka þá er í raun með ólíkindum að hugsa til þess hversu farsæl þessi ár hafa verið, í raun finnst mér engan skugga hafa borið á þau, ég hef að vísu oft elt skuggann af Bjarna, en það er nú bara af því að hann er svo dæmalaust snöggur enda nær hans eigin skuggi stundum ekki einu sinni að fylgja honum, stendur bara lúpulegur eftir þegar Subaru Legacy þeysist af stað og ökumaðurinn situr með símakryppuna við stýrið. Það er auðveldara að fylgja skugganum hans Gunna organista, hann er ætíð samferða frummyndinni í sinni stóísku ró og eins er með Gunnhildi kirkjuvörð, sem Guð sendi sem ákveðna slökunartónlist inn á þetta diskó. Mér finnst ég hafa grætt svo mikið á því að starfa hér, fengið svo mörg tækifæri til að reyna mig og reyna á aðra ef út í það er farið, ég hef fengið að vera með smá pönk og söfnuðurinn og sóknarnefndin sýnt því mikinn og þroskaðan skilning, það hefur verið ómetanlegt og borið söfnuðinum í raun meira vitni en orð fá lýst, það er sýn sem ég hvet ykkur til að varðveita til frambúðar því slíkt rými er undirstaða vaxtar meðal starfsfólks, jafnvel þó við séum ekkert endilega sammála um allt, við eigum heldur ekki að vera sammála um allt. Laugarnessöfnuður er þroskaður söfnuður, sem skilur hlutverk kirkjunnar í samfélaginu, söfnuður sem leggst á árarnar og rær en situr ekki og bíður áfangstaðar í farþegarýminu, en það allra besta þó við þessa kirkju, er að hér á enginn neitt, hér skjóta engir kirkjueigendur rótum og þess vegna er líka rými fyrir fólk og einmitt þess vegna er ég svo uppörvuð þegar ég held til starfa á öðrum skika akursins og vonandi mun ég lifa líkinguna um mustarðskornið á nýja staðnum, að það sem þið hafið gróðursett í hjarta mínu verði öðrum skjól, Guð gefi að svo verði. Og Guð gefi að Laugarnessöfnuður megi halda áfram að vaxa og dafna með öflugu mannræktarstarfi, að börnin og unglingarnir verði áfram fjöreggg kirkjunnar og hreyfaflið verði fyrst og síðast hinn krossfesti og upprisni Drottinn Jesús Kristur. Hér læt ég staðar numið við þessa lokaprédikun úr guðfræðideild Laugarneskirkju og áfram höldum við Nikódemus ferð okkar um lífið, í heiðarlegum vanmætti okkar beggja. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.