Flutt 30. mars 2018 í Stöðvarfjarðarkirkju
Mikið er vonin dýrmætt veganesti. Að mega styðjast við haldreipi í
hjarta sínu sem bendir á fallegt og gott fyrir framan sig í tímanum.
Flestir eiga sér göfug markmið, byggja sig upp með áætlunum og stefna á
að megi rætast.
Þegar ég var að alast upp, þá þurfti ég að bíða í tvö ár eftir því að
eignast fyrstu fótboltaskóna mína eða frá því að ég bað mömmu fyrst.
Sama gilti um skíðin, en í minningu bernskunnar var alltaf nægur snjór,
þegar ég var að alast upp og krakkarnir á kafi í leikjum í snjónum.
Fyrstu skíðin mín voru tunnustafir með ól til að smokra skónum í gegnum, svo fann ég eldgömul stór skíði á háloftinu hjá afa og ömmu sem gögnuðust mér lengi. Við þetta undi ég glaður og sáttur, þar til ég fékk fullkomin skíði með stálköntum og gormabindingum í fermingargjöf, en enga skíðaskó. Þessi skíði á ég enn.
Þannig var það þá. Það fékkst ekki allt sem hugur girntist strax. Börnin áttu von um að eignast eitthvað, einhvern tíma, en ekki strax, urðu að rækta með sér biðlund, þolgæði og sætta sig við að gera gott úr því sem í boði var. En ekki að gefast upp. Halda áfram að vona, hlakka til, láta sig dreyma.
Það gildir um lífið sjálft í hinu stóra og líka hinu smærra samhengi.
Þetta fagra og góða, sem við þráum, gerist sjaldnast strax,
fyrirhafnalaust. Oft þarf að bíða, stundum lengi, en halda áfram að
vona, berjast, þrá, undirbúa, en gefast ekki upp.
Er það gott fyrir lífið að fá allt, sem hugur girnist strax, átakalaust
upp í hendurnar? Hvernig verður þá brugðist við, þegar aðstæður í lífinu
taka völdin í sínar hendur, alvaran sjálf sem segir skyndilega: „Nei,
hingað og ekki lengra“. Á ég þá eitthvað forrit til að bregðast við?
Forrit í sálinni sem gerir ráð fyrir þolinmæði, biðlund, þrautsegju,
æðruleysi, Guði?
Forrit sem hefur þrek til að horfast í augu við aðstæður, sem ég get
ekki breytt og ekki annað í boði en að vona. Hef þá glatað þeirri hugsun
að vona og þrá, hef líka glatað þessari dásamlegu tilfinningu að fagna
yfir árangri, þakka og samgleðjast, af því að allt er svo sjálfgefið í
ofdrambi dekurs. Á þá ekkert annað forrit en að kenna öðrum um ófarir
mínar og biðja hina um að vorkenna mér.
Nútíminn með öllum sínum gnægtum, gæðum og tækifærum veltur upp svo
krefjandi spurningum í gjörbreyttu umhverfi. Það er svo örstutt síðan
Íslendingar háðu lífsbaráttu upp á líf og dauða. Að hafa hreinlega til
hnífs og skeiðar,- og deyja bókstaflega ekki úr vannæringu eða hungri.
Nú stendur nútíminn frammi fyrir hinum enda málsins. Hvernig ætlar þjóðin að lifa ofneysluna, frelsið og dekrið af? Það þarf líka sterk bein og þrek að búa við alsnægtir eins og skortinn, - og stendur enn sem Jesús Kristur sagði: Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni.
Þetta vitum við reynslunni ríkari sem höfum gengið í gegnum neyðina sem ofneysla áfengis og vímuefna veldur. Þar gildir í raun aðeins eitt lausnarorð: Von, von um bata, von um líf, von um betri tíð. Þessi von er ekki átakalaus, gerir ekki allt bjart og fagurt strax eða fyrirhafnarlaust. Enn síður að hún verði keypt með fjármunum.
Þessi von er barátta, meira að segja krafa um uppgjöf gagnvart
fortíðinni, en von sem krefst heiðarleika og einlægni gagnvart sjálfum
sér og samferðafólki, von sem verður þá svo innilega gefandi fyrir
framtíðina. Það vaknar nýtt og skapandi líf.
Þessari von verður aldrei á glæ kastað, alltaf til staðar, hvað sem á
dagana drífur. Þetta er von með Guði, vonin sem AA samtökin vitna um,
vonin sem við erum umvafin hér og nú.
Þú sérð þessa von í krossinum sem blasir hér við í kirkjunni, þetta
dauðans tré sem umbreyst hefur í táknið um ástina í sigri lífsins. Mikið
undur er það. Af því að sá sem dó á þessu tré reis upp frá dauðum,
tendraði ljós eilífrar vonar.
Hversu oft höfum við ekki hlustað á frasagnir fólks á AA fundum sem
segja bókstaflega frá því að þau séu gangandi kraftaverk, ættu fyrir
löngu að vera farin, en hafi risið upp og vitni nú um lifandi von. Þar
liggur barátta að baki, oft afar erfið, en gáfust ekki upp af því að
fólkið á vonina til að lifa fyrir.
Ef þetta er svo sett í í samhengi hagfræðinnar, sem stjórnmálamenn skilja best, þá eru AA samtökin líklega afkastamesta sparnaðaraðgerð sem nú á sér stað í íslensku heilbrigðiskerfi.
Guð gefi okkur þrek og styrk til að rækta vonina, ærðuleysi til leyfa henni að blómgast og fyllast ljósi sem stráir geislum sínum yfir hið fagra og góða. Amen.