Ég er alinn upp við ljósmengun. Vanur upplýstum götum og strætum og óvanur yfirþyrmandi myrkri.
Í dag bý ég út á landi á stað þar sem oft er heiður himinn. Þegar horft er upp í heiðskýran næturhimininn þá blasir við manni stórkostleg sýn. Tunglið og óteljandi stjörnur. Maðurinn hefur rannsakað himingeiminn í langan tíma og þekking hans á honum eykst. Við höfum séð myndir af plánetum eins og Mars og Satúrnus vegna þess að stærðarinnar sjónauki er út í geimnum og rýnir út í óendaleikann. Og fegurð himingeimsins er sláandi.
Skáldið forðum hafði ekki öll þessi tækniundur og alla þessa þekkingu sem við höfum í dag. Það sá aðeins þessa ljósdíla á himninum og fannst þeir vera yfirþyrmandi.
Jörðin er ekkert annað en agnarlítill punktur í óendaleika alheimsins. Hvað er þá maðurinn? Skiptir hann einhverju máli innan um allar þessar óteljandi sjörnur, plánetur, sólir, vetrarbrautir og hvað nú allt þetta heitir. Skiptum við nokkru máli þegar kemur að heildarmynd alheimsins?
Skáldið veltur þessu fyrir sér og skrifar: „Hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Slm 8.5)?
Guð hefur allt í hendi sér, stjörnur og sól, tungl og jörð. Maðurinn hrærist í hinum jarðneska veruleika og er hluti af honum. Hann getur gert ótrúlega hluti í sínum mannlega mætti bæði til góðs og ills. Maðurinn vill ráða miklu en hann hefur ekki allt í hendi sér. En það sem maðurinn gerir ólíkt öðrum dýrum er að hann er þenkjandi um það sem í kringum hann er og að hann getur heillast af fegurð nátturunnar.
Ég horfi upp í hin óendanlega stóra himinn og veit að jörðin og heimurinn allur lítur ákveðnu lögmáli. En um leið átta ég mig á því að náttúran getur verið óútreiknanleg. Ég þarf þó ekki að óttast því að Guð hefur allt í hendi sér, stjörnur, sól, tungl og jörð. Allt þetta og svo miklu, miklu meira hefur hann skapað og þar á meðal manninn. Guð elskar sköpun sína og þráir að eiga samskipti við manninn. Þess vegna minnist hann okkar og vitjar barna okkar. Fyrir það sé nafn hans dýrlegt um alla jörðina.