Skálholtsjárnið

Skálholtsjárnið

Er hljómundur kirkjunnar það sem skilgreinir Skálholt? Er kannski fræðslustarf Skálholtsskóla mikilvægast? Eða menningartúlkun fyrir ferðamenn það sem skilgreinir framtíð staðarins? Hvað er mikilvægast í Skálholti? Svarið er tengt þér.

Í dag er Skálholtshátíð og í ár eru fimmtíu ár liðin frá vígslu Skálholtskirkju árið 1963. Og þar sem Jesús segir í guðspjallinu frá húsabyggingum kemur í huga saga sem ég heyrði um byggingu Skálholtskirkju. Ég segi þá sögu, spegla hana líka í guðspjallinu og svo verða Skálholtsstef tilefni til að hugsa um okkur, grunn okkar og hlutverk. Skálholt er eins og táknstaður um líf okkar og getur orðið okkur sannleiksspegill. Jesúsagan og tengslin við eigið líf hjálpa okkur til að skilja nútíð Skálholts og jafnvel einnig framtíð höfuðstaðar kirkjunnar á Íslandi. En þá að sögunni sem skemmtilegur sögumaður sagði mér eystra fyrir aldarfjórðungi.

Kirkjujárnið Steypustyrktarjárnið, sem sent var á byggingarstað í Skálholti og átti að nota í kirkjubygginguna, var kolryðgað. Húsið er stórt og járnstaflinn var því mikill. Ljóst var að mikil vinna færi í að bursta það allt upp. Góð ráð voru rándýr og tímafrek. Einhverjir héldu jafnvel og sögðu að járnið væri ónothæft. Byggingarliðinu hraus hugur við dapurlegu og tímafreku púli. Einn iðnaðarmaðurinn stóð hugsi og horfði á allt ryðið. Honum ógnaði vírburstavinnan og vildi ekki lúta ryðráðunum. Þegar byggingarhópurinn gekk til náða fór maðurin út, festi járnadræsu aftan í bíl sinn og dró hana síðan eftir malarveginum út að Spóastöðum og svo til baka.

Hann fór síðan margar ferðir þessa nótt eða þar til allt járnið hafði farið Spóastaðarúntinn. Malarvegurinn varð eins risavírbursti og ofursandpappír. Ryðið svarfaðist af í nuddi og drætti. Málmurinn skein í morgunsólinni við þeim mættu með vírbursta til vinnu til að hefja hreinsunarvinnu. Járnstaflinn var að morgni kraftaverksstafli. Burstarnir féllu og hægt var að byrja járnabindinguna. Burðarvirki Skálholtskirkju varð ekki ryðgrind heldur skýrð jánflétta og hefur þjónað vel. Hún hefur ekki gefið sig því kirkjan hefur staðist alla skjálfta jarðar og áraun tímans. Það er helst að skífan á kirkjuþakinu fljúgi í mestu austan-aftakaveðrum. En í þau skífuskörð má bæta og enginn hefur orðið fyrir fljúgandi grjóti nema biskupshúsið!

Járnsaga kirkjunnar er sem lykilsaga fyrir Skálholt en líka söfnuð Jesú Krists, heimili, fyrirtæki, menningu og þjóð.

Tvö hús – ólík afdrif Og þá er það hin sagan, saga Jesú: Tvenns konar hús og tvenns konar örlög. Annars vegar hús byggt á sandi og hins vegar hús sem byggt var samkvæmt öllum öryggiskvörðum. Annað húsið var byggt í anda skeytingarleysis og ekki tryggt í grunninn. Það féll því ekki hafði verið gerður sökkull og því engin traust undirstaða. Allir sem byggt hafa hús eða verið í húsi sem hefur orðið fyrir jarðskjálfta, flóði eða miklu álagi vita að undirstaða skiptir máli. Og landsmenn Jesú skildu hvað hann átti við því ofankoma í Ísrael getur orðið svo ofsaleg að skyndiflóð skola undan ótraustum mannaverkum. En svo er það hitt húsið, sem var traust og á góðum grunni. Það stóðst álagið.

Þessi Jesúsaga er áleitin. Hún er ekki aðeins um vonda húsbyggingarhætti og byggingarviðmið. Hún varðar okkur um eigið líf, spyr um lífsstefnu. Hvað setjum við í forgang? Hver er grunnur lífs okkar – höfum við hróflað upp skýli, hugmyndum, venjum og félagssamhengi sem dugar þegar allt er í þokkalegu lagi en gefur eftir og jafnvel hrynur þegar síst skyldi? Hvað hentar og hvað dugar þegar við verðum fyrir veikindum, líkamlegum, tilfinningalegum eða félagslegum? Hvað þolir og hvað er traustsins virði? Hús skulu reist á traustum grunni. Þau skulu vel byggð og þola ofurálag. Hvernig er með líf þitt?

Skálholt sem táknsaga Saga Skálholts er merkileg og í dag – vegna hátíðarinnar – staldra ég við það góða holt íslenskrar menningar. Sögu Skálholts má skilja með mismunandi móti og jafnvel túlka sem dæmasafn um hússögu Jesú í guðspjalli dagsins. Til eru forsprakkar í Skálholtssögu aldanna sem hafa framkvæmt eins og vondur byggingarstjóri og án þess að huga að traustinu. Aðrir hafa byggt með góðu ráði og gert allt vel.

Skálholt er stór staður, sem þjónar ólíkum hópum og jafnvel ólíkum markmiðum. Skálholt er raunar margt. Sem sögustaður tengist Skálholt flestu í menningu Íslendinga, líka pólitík. Skálholt er því táknstaður þykkrar sögu. Skálholt er einnig orðinn tónlistarvettvangur síðustu áratugi. Kirkjuhúsið er ómundur og hentar lágstemmdri tónlist og tónlist fyrir katedralhljóm.

Skálholt, sem er hentugur og mikilvægur áfangastaður ferðamanna á gullna hringnum. Safnið, gestastofa, kryddreitir við skólann og Þorláksbúð þjóna t.d. ferðamönnum auk kirkjunnar.

Skálholt er staður fegurðar, hrífandi augnhvíla í sunnlenskri sjónarrönd, sem verður hvað stórkostlegust þegar regnbogar teikna friðartákn á himininn yfir staðnum. Þá verður kirkjan sannkölluð dómkirkja regnbogans. Í Skálholti er biskupsstóll og prestssetur. Skálholt er að auki pílagrímastaður og menningar- og fræðslu-miðstöð kirkjunnar. Svo er Skálholtskirkja sóknarkirkja, þjónustuhelgidómur uppsveita Árnessýslu og dómkirkja.

Traustið og hið mikilvæga Skálholtshlutverkin eru mörg og alls ekki öll talin. Þessi misserin hefur verið rætt um hvort byggja eigi tilgátukirkju í Skálholti. Og rökin með og móti varða hlutverk staðarins, hvort rekstur slíks húss sé traustsins verður eða ekki. Jesúsagan kemur því við sögu byggðar- og hlutverka-sögu Skálholts. Rétt eins við sjálf erum í mörgum hlutverkum gegnir Skálholt einnig mörgum hlutverkum. En hvert þeirra er mikilvægast?

Hvað skiptir þig mestu máli í þínu eigin lífi? Eru það húsakynnin sem þú átt og kemur þér upp eða kaupir til að vernda líf þitt og þinna? Hús eru mikilvæg, en skipta þau mestu máli þegar kreppur verða í lífinu? Varla. Þegar ástvinir falla og heilsa bilar er ytra athvarf mikilvægt en innra athvarfið þó afgerandi. Traust varðar ekki aðeins veggi og glugga heldur innra líf. Þegar sorgin slær varðar meira hvernig útsýni sálarinnar er en hvernig útsýnið er úr eldhúsglugganum. Þegar fólk missir vinnu, vini og ástvini, skolar undan festum lífsins og það ótrausta hrynur. Hvað er það þá sem heldur?

Og aftur að Skálholti. Hvert er mikilvægasta hlutverk staðarins og hvernig á að forgangsraða til að staðurinn nýtist rétt. Hljómundrið er mikilvægt, fræðslustarf Skálhloltsskóla einnig. Menningarvíddin skiptir líka máli. Ferðamennskan þjónar menningartúlkun Íslendinga innávið og útávið. En aðalhlutverkið – hvert er það? Að mínu viti er það hlutverk helgistaðarins. Mikilvægasta hlutverk Skálholts er trúarlegt, að miðla nálægð, elsku og umhyggju Guðs. Skipulag, uppbygging, fjárnotkun og rekstur staðarins ætti að lúta því aðalmarkmiði. Þá getur Skálholt verið sú andlega aðveitustöð, sem helgur staður á að vera. Það er grunnurinn, bjargið, forsendan, samhengið og framtíðin. Aðalmálið varðar Guð. Staðurinn er frátekinn.

Um hvað talaði Jesús? Grunninn og ábyrgð, traust. Og þá erum við ekki aðeins búin að tala um Skálholt, heldur komin heim og jafnvel inn í okkur sjálf. Hvernig er grunntraustið, sökkull þinnar eigin sálar? Fær hið guðlega að vera þín lífsforsenda? Er eitthvað að, ryðgað og ónothæft. Þarftu að fara Spóastaðarúntinn og hreinsast. Það er mannlegt að falla og flekkast en guðlegt að láta hreinsast. Og ef við víkkum út getum við einnig spurt gildisspurningar um kirkjulíf þessarar kirkju og menningarlíf þjóðarinnar. Er grunnurinn traustur eða ekki? Skálholt er eins og þú, kirkja og íslensk þjóð – þarfnast góðrar undirstöðu sem þolir álag og daga flóðsins. Góðu fréttirnar eru að byggingarverkefnið er þekkt en okkar er að velja.

Amen.

Neskirkja 21. júlí, 2013. 8. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Á þessum degi var haldið upp á fimmtíu ára vígsluafmæli Skálholtskirkju.

Textaröð: B Lexía: Jes 26.1-7 Á þeim degi verður þetta ljóð sungið í Júda: Vér eigum rammgera borg, múrar og virki voru reist henni til varnar. Ljúkið upp hliðum svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað, megi inn ganga, þjóð sem hefur stöðugt hugarfar. Þú varðveitir heill hennar því að hún treystir þér. Treystið Drottni um aldur og ævi því að Drottinn er eilíft bjarg. Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum, steypt hinni háreistu borg, steypt henni til jarðar og varpað henni í duftið. Hún var troðin fótum, fótum fátækra, tröðkuð iljum umkomulausra. Bein er braut hins réttláta, þú jafnar veg hans.

Pistill: 1Jóh 4.1-6 Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum. Börnin mín, þið eruð af Guði og hafið sigrað falsspámennina því að andinn sem er í ykkur er öflugri en andinn sem er í heiminum. Falsspámennirnir eru af heiminum. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar og heimurinn hlýðir á þá. Við erum af Guði. Hver sem þekkir Guð hlýðir á okkur. Sá sem ekki er af Guði hlýðir ekki á okkur. Af þessu þekkjum við andann sem flytur sannleikann og andann sem fer með lygar.

Guðspjall: Matt 7.24-29 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“ Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.