Í rúm 200 ár hefur sú þróun verið uppi að kirkjur Vesturlanda hafa öðlast stöðugt meira sjálfræði (autonomy), þ.e. sjálfstæði og sjálfsstjórn, andspænis ríkisvaldinu. Þjóðkirkjur eða fríkirkjur hafa leyst ríkiskirkjur fyrri alda af hólmi.
Ástæður þróunarinnar
Ástæður þessarar þróunar er að rekja til aðgreiningar hins trúarlega og veraldlega sviðs samfélagsins (þ.e. sekúlaríseringar), lýðræðisþróunar og aukinnar fjölhyggju. Fram hefur komið veraldlegt ríkisvald sem talið er skorta bæði hæfi og hæfni til að fara með trúarleg málefni.
Sumir kunna að sakna fyrra ástands er ríkið studdi og verndaði kirkju þeirra á virkan hátt eða viðurkenndi hana jafnvel sem ríkistrú. Þeir tímar koma þó ekki aftur nema Vesturlönd hverfi að nýju til þess ástands sem nú einkennir ýmis samfélög múslima eða biblíubelti BNA. Þar tengjast íhaldssöm trúartúlkun og stjórnmálastefna enn taustum böndum. Fæstir óska sér slíks ástands hér.
Sókn til sjálfræðis
Því fer fjarri að ofangreind þróun hafi aðeins verið á þá lund að ríkisvaldið hafi snúið baki við kirkjum og trúfélögum. Flestir líta svo á að afskipti ríkisins af starfi trúfélaga skerði óhjákvæmilega frelsi þeirra. Þær trúhreyfingar sem fram hafa komið á síðari öldum hafa því frá upphafi hafnað tengslum við ríkisvaldið. Eldri kirkjur hafa jafnframt keppt að auknu sjálfræði ýmist með aðskilnaði frá ríkisvaldinu eða með stöðugt veikari tengslum við það.
Þjóðkirkja okkar hóf sókn til sjálfræðis þegar í upphafi aldarinnar sem leið. Þá átti sú þjóðkirkjuguðfræði hér miklu fylgi að fagna að sjálfræði — sjálfstæði og sjálfsstjórn — væri þjóðkirkjunni eðlislægt og hún næði ekki að gegna köllun sinni án þess. Því voru settar fram kröfur um kirkjuþing sem æðstu stjórn kirkjunnar í eigin málum.
Þessi stefna náði fram að ganga eftir hartnær 100 ára baráttu með þjóðkirkjulögunum frá 1997 en samkvæmt þeim er þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag sem fer með víðtæka stjórn í eigin málum. Nú, hálfum öðrum áratug síðar, þykir mörgum tími til kominn að taka næsta skref í átt að auknu sjálfræði. Skilaboð í þá veru bárust m.a. frá Stjórnlagaráði nú í sumar sem mælir með að ákvæði um þjóðkirkju þoki úr stjórnarskrá.
Þorum við?
Eigi þjóðkirkjan að öðlast meira sjálfræði en nú er verður hún að axla þá ábyrgð að setja sér sjálf skipan í innri málum sínum, skrifa sinn eiginn kirkjurétt. Sjálfráð kirkja getur ekki til lengdar búið við þá stöðu að veraldlegt þing setji henni innri kirkjuskipan. Lög um stöðu hennar, stjórn og starfshætti verður því að einfalda til muna og færa það efni þeirra sem lýtur að stjórn og starfsháttum yfir í starfsreglur sem Kirkjuþing, æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, setur.
Svo virðist sem margir óttist þá breytingu og telji hana fela í sér los eða óvissu. Því má spyrja: Þorum við þjóðkirkjufólk að stuðla að auknu sjálfræði kirkju okkar?
Getum við?
Til að rísa undir sjálfræði þarf þjóðkirkjan að búa að styrkri, lýðræðislegri stjórn sem endurspeglar hana í breidd sinni og fjölbreytileika. Þá verður hún að hafa þróað með sér trausta stjórnsýsluhætti sem standast samanburð við það sem best gerist meðal annarra sambærilegra stofnana. Hún verður að vera fullgildur aðili í lýðræðislegu réttarríki og helst verður hún að vera þar fyrirmynd annarra.
Í ljósi þessarar siðferðilegu kröfu er rétt að spyrja: Rísum við í þjóðkirkju Íslands undir sjálfræði? Getum við verið sjálfráð kirkja?
Viljum við?
Aukið sjálfræði þýðir að sjálfsögðu að tengslin við ríkisvaldið rakna. Lagaleg staða þjóðkirkjunnar breytist ekki aðeins heldur einnig táknræn staða hennar. Sem dæmi má nefna að ekki er sjálfsagt að forseti lýðveldisins skipi æðstu embættismenn kirkjunnar. Í sjálfráðri kirkju kýs kirkjan sér sína eigin forystu og leiðtogar hennar, þar á meðal biskupar, taka við umboði sínu frá kirkjunni sjálfri en ekki þjóðhöfðingja sem ekki þarf að tilheyra kirkjunni.
Einhverjum kann að virðast þessi breyting og ýmsar viðlíkar lækka risið á kirkjunni. Því má spyrja: Viljum við verða sjálfráðari en við erum nú?
„Já, ég þori, get og vil!“
Fyrir hálfum fjórða áratug sungu stoltar og baráttuglaðar konur: „En þori ég, get ég, vil ég? Já, ég þori, get og vil!“ Tíminn sem liðinn er síðan hefur sannað að þær vildu, þorðu og gátu. Ástæðan er sú að þær höfðu öðlast trausta sjálfsmynd.
Margt bendir til að íslensku þjóðkirkjunni skorti þá sjálfsmynd og það sjálfstraust sem er frumforsenda þess að hún geti risið undir því að vera sjálfrátt trúfélag í tengslum eða án tengsla við veraldlegt ríkisvald. Verkefni dagsins er því að móta þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina — sjálfsskilning sjálfráðrar kirkju sem megnar að standa á eigin fótum og þjóna samfélagi fjölhyggju og fjölmenningar á merkingarbæran hátt.