Hringborðskirkjan

Hringborðskirkjan

Þegar við sitjum við hringborð, þá horfumst við í augu. Þú getur a.m.k. náð augnsambandi ef þú kærir þig um, við alla þá sem sitja við borðið. Þegar við förum út að borða með vinum okkar, fólki sem við þekkjum þá elskum við að sitja við hringborð. Hugmyndir Jesú Krists um kirkjuna er að hún sé hringborðssamfélag.

Þegar við sitjum við hringborð, þá horfumst við í augu. Þú getur a.m.k. náð augnsambandi ef þú kærir þig um, við alla þá sem sitja við borðið.

Þegar við förum út að borða með vinum okkar, fólki sem við þekkjum þá elskum við að sitja við hringborð, samræðurnar verða skemmtilegar af því að allir geta ávarpað alla, allir geta séð alla, ekkert fer fram hjá þér, þú situr í sömu hæð og aðrir við borðið og þú deilir mat og drykk í félagslegu jafnvægi. Þú sérð hvernig öllum líður við borðið, hvaða tveir eru á spjalli, hverjir eru að hlæja, brosa eða eru alvörugefnir að ræða heimsmálin. Þú ert með í hópi þar sem allir sjá þig og þú sérð alla.

Hugmyndir Jesú Krists um kirkjuna er að hún sé hringborðssamfélag.

Páll postuli endurspeglar þá sýn í Galatabréfinu þar sem segir, “Þér eruð öll Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona, þér eruð öll eitt í Kristi.” Munurinn á Jesú Kristi og okkur er raunar sá að hann þarf ekki að sitja við hringborð til þess að sjá alla, hann þarf ekki að sitja við hringborð til þess að sjá, hver er að brosa, hlægja eða gráta. En við þörfnumst þeirrar stöðu til þess að njóta réttlætis í þessum heimi. Frá því að fyrstu lærisveinarnir tóku að boða fagnaðarerindið hefur kirkjan velt fyrir sér eðli sínu. Við trúum á Guð skapara himins og jarðar, Jesú Krist hans einkason og heilagan anda, en trúum við á kirkjuna eða trúum við kirkjunni? Við trúum kirkjunni eins og við trúum manneskjum þangað til sannleikurinn kemur í ljós. Við trúum á tilvist kirkjunnar, við trúum því að hún hafi tilgang og við vonum að sú trú sé vegurinn að sannleikanum sem er Kristur. Kirkjan er ekki fullkominn frekar en manneskjan. Þegar þú situr við hringborðið og horfir í augu fólksins þá veistu vel að einhver mun svíkja þig og annar mun elska þig, ástæðan fyrir því að þú vogar þér að setjast er sú að þú trúir og vonar að Kristur standi fyrir miðju og þjóni. Að Hann sé vörður þinn, að hann skýli þér og verndi sál þína sem hefur tekið þá áhættu að tilheyra samfélagi sem er ekki alltaf öruggt né heilbrigt en á sér hjálpræði í voninni, í trúnni á þann sem mun koma og dæma lifendur og dauða. Það versta sem getur hent okkur sem kirkju er að við hættum að setjast við hringborð, að við göngum inn í salinn og stillum okkur upp við háborðið og horfum fram í fjarlæg augu þeirra sem sitja út í salnum. Á dögunum heimsótti mig kona frá Suður-Afríku sem tilheyrir anglikönsku kirkjunni í Cape Town. Hennar söfnuður leggur áherslu á hringborðssamfélagið, sem birtist í því að sjá aðstæður meðbræðra og systra sem oft á tíðum eru erfiðar, svo vægt sé til orða tekið. Á hverju hausti tekur þessi söfnuður sig saman og byggir múrsteinshús fyrir nokkrar fjölskyldur í hverfinu sem búa í skúrum. Þá er skipt í hópa og hver hópur byggir eitt hús fyrir fjölskyldu sem í staðinn býður fram veitingar og skjól í sínum skúr fyrir hið vinnandi fólk. Sú gagnvirka samstaða er afar mikilvæg svo að allir fái að halda sinni reisn, fjölskyldan sem þiggur nýtt og manneskjulegra húsnæði fær að hlúa að þeim sem leggja fram krafta sína.

Þessi sami söfnuður leggur jafnframt áherslu á að hjálpa til í baráttunni við alnæmisfaraldurinn sem veldur gríðarlegum þjáningum í þessu landi. Sú hjálp birtist í stuðningi við þær ömmur sem taka við barnabörnunum sínum eftir að mæður barnanna hafa látist úr alnæmi en eins og þið getið ímyndað ykkur þá er það heilmikið álag fyrir roskið fólk að sinna allt í einu barnauppeldi, eiga aftur að fara að aga unglinga, setja mörk og framfleyta þeim. Þetta er veruleiki safnaðarins sem þessi jákvæða og bjartsýna kona sem heimsótti mig, tilheyrir. Eftir að hafa tekið drjúgan tíma í að upplýsa mig um þetta starf gerði konan hlé á máli sínu og horfði á íslenska kvenprestinn sem hafði misst hökuna niður á bringu, hún þagði og brosti og ég skynjaði að hún vildi fá viðbrögð við frásögn sinni. Í raun vissi ég ekkert hvað ég ætti að segja, í gegnum hugann flugu hugsanir um mitt eigið samfélag og ég veit að það hljómar mjög illa en mig langaði eitt stundarkorn til að búa til róttæka mynd af minni þjóðkirkju en þá hefði ég ekki verið að segja satt, svo ég sagði bara “Vá”.

Síðan skiptumst við á netföngum og ákváðum, áður en við kvöddumst með virktum, að vera vinasöfnuðir, Laugarneskirkja og söfnuðurinn hennar. Þegar hún var farin fór ég að hugsa hvort að sú guðfræði sem söfnuður hennar “praktíserar” eigi kannski ekki heima í svona gósenlandi eins og Íslandi. Kannski á sú birtingamynd sem hún gaf mér ekki stoð í okkar raunveruleika, hér er vissulega ekki hægt að tala um alnæmisfaraldur en við vitum samt að í þessu landi er efnislegum og félagslegum gæðum misskipt, svo það er af nógu taka vilji maður setjast við hringborðið. Tónlistin í þessari messu hér í kvöld á rætur sínar að rekja til þeirrar heimsálfu þar sem hin svokallaða frelsunarguðfræði kom fyrst fram. Sá sem mótaði hugmyndafræði hennar er suður-ameríski presturinn Gustavo Gutiérrez. Gutiérrez er fæddur í Perú árið 1928, hann lagði stund á guðfræði, læknisfræði, bókmenntafræði, sálfræði og heimspeki en mestan sinn starfstíma lifði hann og hlúði að fátæku fólki í Lima, höfuðborg Perú.

Frægasta verk Gutiérres er bókin, Guðfræði frelsunarinnar sem kom út árið 1971. Í þeirri bók útskýrir hann hvernig kristin trú talar inn í aðstæður örbirgðar, hvernig trúin nær að mynda samstöðu í erfiðum aðstæðum um leið og hún andmælir kröftuglega ósanngirninni. Frelsun hefur samkvæmt Gutiérrez þrjár mikilvægar víddir. Sú fyrsta er hin pólitíska og félagslega vídd þar sem barist er gegn þeim öflum er viðhalda fátækt og órétti í samfélaginu. Önnur víddin er frelsun hinna fátæku og undirokuðu, þar á meðal kvenna, undan öllu því sem heftir sjálfsvitund þeirra og sjálfsvirðingu.

Þriðja víddin er svo frelsunarguðfræðin sjálf sem frelsar manneskjuna undan sjálflægni og synd og hjálpar henni til að endurnýja sambandið við Guð og menn. Allar þessar víddir haldast svo í hendur.

Gutiérrez hefur verið harðlega gagnrýndur og í raun ofsóttur af ríkjandi valdhöfum fyrir áræði sitt en margir prestar sem störfuðu eftir sömu hugmyndafræði í Suður- Ameríku í byrjun níunda áratugarins voru hreinlega drepnir, þekktastur þeirra var erkibiskupinn Oscar Romero.

Sá sem trúir á frelsið er ekki hræddur. Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús okkur til að sýna áræði í göngunni um guðsríki. Já um guðsríki sem hann hefur einmitt stofnað með áræði í dauða sínum og upprisu. Sá atburður er forsenda fyrir frelsi kristins manns. “Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.” Kæri söfnuður, þetta er áskorun um breytingar, Kristur er að segja okkur að taka skref til móts við hann í baráttunni fyrir réttlæti og frelsi öllum til handa. “Kristur er að segja, hafðu mig með á þeirri leið,” réttlætið á sér nefnilega uppsprettu í honum, frá honum göngum við að hringborði kirkjunnar til þess að eiga samfélag þar sem allir eru sýnilegir. Þar er Kristur sannarlega fyrir miðju þó hann hafi raunar komið í þennan heim til að lifa og starfa á jaðrinum. Þegar við komum saman sem söfnuður þá erum við að sækja okkur hugrekki til Krists svo við getum óhrædd haft áhrif á lífið.

Mörgum finnst gott að líkja lífinu við fjallgöngu og það ekki að ófyrirsynju, fjallganga reynir á, líkama og sál, við verðum þreytt og stundum hrædd sérstaklega þegar okkur skrikar fótur en við náum líka áföngum í átt að toppnum og þeim áföngum fylgja lífsgæði. Sumir eiga greiða leið upp fjallið, eru í góðum skóm, hafa mikil þol og nægar vistir á meðan aðrir klífa berfættir svo blæðir undan grjótinu. Lexía dagsins er Sálmur 121 þar er lífinu lýst sem fjallgöngu með Drottni, “Ég hef augu mín til fjallanna” segir í upphafi sálmsins “Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun eigi láta fót þinn skriðna. Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér.”

Einmitt þessu verðum við að trúa þegar við höldum á fjallið svo við séum ekki haldin stöðugum ótta um að komast ekki á toppinn. Þessu verðum við að trúa til þess að geta notið göngunnar í samfloti við aðra. Því að í voninni erum við hólpin orðin sama hversu fjallið er bratt. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.