Þegar það versta af öllu gerist. Þegar það skelfilegasta sem þú getur hugsað þér kemur fyrir náunga þinn þá gerist eitthvað innra með þér.
Þegar maðurinn sem verslar um leið og þú í matinn eða konan sem þú sérð stundum í ræktinni verður fyrir þungbærasta missinum þá gerist eitthvað innra með þér.
Þú getur ímyndað þér sársauka þeirra. En þó ekki alveg, því bara þinn ímyndaði sársauki verður óbærilegur.
Þú átt svo auðvelt með að setja þig í spor þeirra en þú veist ekki hvernig þú átt að sýna þeim það, í einlægni, án þess að virðast hræsnari.
Þú stendur allt í einu frammi fyrir því að þú sjálf gætir orðið fyrir missi, sorg. Ekki bara einhver annar.
Þú veist þetta alveg.
En þér tekst að gleyma því, að útiloka það á venjulegum degi.
Við breytumst þegar það versta af öllu kemur fyrir náunga okkar.
Þá gleymum við græðginni, samkeppninni, reiðinni og lyginni, já og jafnvel minnimáttarkenndinni. Þá langar okkur af öllu hjarta að vera náunganum sannur náungi þó við vitum ekki alltaf hvernig við eigum að fara að því.
Þegar það versta af öllu gerist þá getum við ekki falið okkur lengur og við verðum sönn.
Mikið vildi ég að við gætum verið jafn sönn og fundið til jafn mikillar meðlíðunar þegar náunganum gengur vel og lífið brosir við honum.
Að við gætum verið náunganum sannur náungi, alltaf.