Sagan sem ég las í guðspjallinu segir frá blindum manni frá fæðingu sem fékk sjónina. Jesús læknaði manninn. Smurði augu hans með leðju og sagði honum svo að fara og þvo augu sín úr laug sem var á torgi borgarinnar. Og þá fékk hann sjónina.
Mikið hlýtur maðurinn að hafa orðið glaður. Búinn að vera blindur alla ævi sína, gat t.d. ekkert unnið, var betlari sem sat við veginn með útrétta hönd í von um smáræði til daglegrar lífsbjargar. En nú var hann ekki lengur blindur og kominn með fulla sjón. Gat séð allt.
Ég þekki konu sem missti sjónina í blóma lífsins. Varð alveg blind. Læknarnir sögðu við hana og fjölskyldu hennar, að hún fengi líklega ekki sjónina aftur og yrði blind alla ævi. Þetta var mikið áfall fyrir konuna sem þegar fór að hugsa um hvernig yrði að lifa lífinu í myrkri. Það hafði henni aldrei dottið í hug að gæti komið fyrir sig. Sömuleiðis fjölskylda hennar, og nánustu vinir. Allt yrði breytt. Þetta var algört reiðarslag.
En svo gerðist það dögum síðar, og enginn veit afhverju, þá fékk konan sjónina aftur, fyrst sá hún mjög lítið, en með tímanum óx sjónin og varð góð.
Konan sagði mér frá því, hve það hefði verið sár reynsla að verða blind. En fá svo sjónina aftur, hvílík gleði, en um fram allt, hve sjónin, heyrnin, fæturnir og hendurnar og góð heilsa, er ekki sjálfgefið, heldur svo mikil gæði, sem við eigum og njótum best með því að nýta vel til farsældar lífsins og gleyma aldrei að þakka fyrir.
Það er ekki auðvelt að setja sig í spor þeirra sem eru blindir eða búa við aðra fötlun sem takmarkar lífsgæðin eða hefur áhrif á hegðan og framkomu. Það þykir svo sjálfsagt að vera heilbrigður. Það þykir svo algjörlega sjálfsagt að vera heilbrigður, að á ytra borði þá er yfir og allt um kring krafa um að allir eigi að vera eins, hugsa eins, hafa sömu skoðun, fylgja sömu tísku, og gera allt eins og hinir. Og ef einhver sker sig úr, er öðruvísi, hugsar öðruvísi eða gerir öðruvísi, þá bregður mörgum í brún og sumir taka sig til og dæma með stórum orðum. Það má helst ekkert trufla þægindi daglegs lífs eða fara út fyrir rammann.
Er skortur á umburðarlyndi blinda nútímans? Að við, sem teljum okkur sæmilega heilbrigð með öll lífsins gæði í fanginu, hreykjumst svo upp í gæðum okkar, að við þolum ekki að vera trufluð af þeim sem eru öðruvísi? Eiga allir að vera eins, hugsa eins og gera eins? Er öðruvísi fólk að bjóða þeim byrginn sem telja sig ráða rétttrúnaði tískustrauma? Á dögum Jesú var öðruvísi fólki opinberlega útskúfað og dæmt hart og ekkert farið leynt með það. Hvers konar sjúkdómar og fötlun var talin synd eins og sagan í guðspjallinu vitnar um. Fólkið spurði Jesú hvort maðurinn væri blindur vegna synda foreldra hans eða synda hans sjálfs.
Enginn vafi lék í huga fólksins, að veikindi stöfuðu af vondum verkum eða slæmu líferni. Þetta sýnist fráleitt í dag. En er það alveg svo? Flæða ekki fordómar um allt og einmitt í garð þeirra sem eru eitthvað öðruvísi?
Langt er gengið til að leita skýringa á sjúkdómum, ólíkum skoðunum og misjöfnum aðstæðum fólks og einblínt þá á persónulegt líferni og lífshætti og þá vilja oft fjúka alls konar sleggjudómar. Netmiðlar fræða vel um það.
Einelti getur oft einmitt grasserað af því að einstaklingur virðist eitthvað öðruvísi, sem hópurinn getur svo ekki þolað. Mörgum óar við að taka á móti flóttafólki öðruvísi menningar og telur ógna tilvist sinni. Ekki eru mörg ár síðan samkynhneigð var talin óboðleg kynvilla, og geðfatlað fólk biður nú sérstaklega um virðingu í verki.
Það getur verið þrautinni þyngri að elska náungann eins og sjálfan sig. Auðvelt er að vorkenna fólki, en getur tekið virkilega á að sýna virðingu í verki, og ekki síst ef öðruvísi fólk kemur of nálægt mér, og enn frekar ef það ónáðar mig.
Ég þekkti móður sem átti fullorðna dóttur sem ákvað að ættleiða svart barn. Það gat móðirin ekki hugsað sér og beitti öllum fortölum til að koma í veg fyrir það. Hún sagði að það hlyti að vera svo erfitt að ala upp svart barn og hafa í för með sér óhjákvæmileg óþægindi fyrir dótturina og barnið að alast upp í hvítu, íslensku samfélagi. Þegar þessar skýringar dugðu ekki, þá var gripið til þeirra raunverulegu, að svört börn væru öðruvísi en hvít, hugsuðu öðruvísi, gerðu öðruvísi og höguðu sér öðruvísi.
En þessi rök högguðu ekki dótturinni. Þá ákvað móðirin, fyrst svo varð, að best væri að hún færi með dóttur sinni út til að sækja ungabarnið og sjá þetta með eigin augum. Og það varð eins og við manninn mælt: Móðirin skipti alveg um skoðun og á því augnabliki, þegar hún fyrst faðmaði svart ömmubarnið sitt örmum sínum og sagði oft síðar, að þetta var það besta sem dóttir sín hafi gert um ævi sína og hvatti hana til að ættleiða annað svart barn, sem hún og gerði.
Það var oft þrautinni þyngri fyrir Jesú að elska náungann. Hann stóð í stöðugu stríði við fordóma tíðarandans. Orðin hans og verk voru sannarlega öðruvísi, enda lét hann lífið fyrir það allt. Sagði elskið hvert annað, takið hvert annað að ykkur. Opnið augun, beitið sjón ykkar til að skerpa víðsýni, eyrun til að hlusta, dómgreindina til að skilja og málið til að elska, rækta umburðarlyndi, safna í æðruleysi og njóta lífsins saman.
Ekki til þess að láta allt yfir sig ganga, ekki til að þola ofbeldi, hatur eða ranglæti, ekki til að láta ráðskast með sig, heldur til að skapa til farsældar, leggja gott og jákvætt til uppbyggingar, fræðast í stað þess að dæma, kynnast fremur en að hæða og elska í stað þess að hata.
Það er einmitt þetta sem kristin trú boðar og felur í sér, að virðing sé borin fyrir misjöfnum aðstæðum fólks af mannúð og umburðarlyndi. En það er ekki sjálfgefið og eðlislægt í lögmáli tilverunnar. Það sjáum við vel, þegar við lítum í kringum okkur í heiminum. Trúarbrögðin móta siðferði þjóða, leggja grunn að menningu og gildismati og næra samskiptin í þjóðlífinu. Það kennir saga aldanna, og nútíminn með staðreyndum sínum. Og þá skiptir máli á hvað er treyst og trúað.
Íslenskt samfélag sótti sín siðrænu viðmið um kærleika og mannréttindi í kristna trú. Og einmitt á Norðurlöndunum, þar sem kristin trú samkvæmt lútherskum sið festi dýpstu rætur, hefur umburðarlyndið með öflugri virðingu fyrir mannréttindum verið í öndvegi og vakið athygli um allan heim. Stöndum áfram vörð um það.
Orð Guðs í Biblíunni fjalla um að opna augun, sjá gæðin sem blómga fagurt mannlíf. Það boðaði Jesús Kristur með lífi sínu í orði og verki. ‚Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra“. Þetta þótti mörgum mikið öðruvísi,- og þykir sumum ef til vill enn.
Nú vilja nokkrir afmá allt sem minnir á Guð og neita að tengja kærleikann við kristna trú, en telja að kærleikurinn geti nærst af mannsins valdi. Það eru trúarbrögð og sækja fram samhliða ofurtrú á að fjármunir leysi allan vanda. Reynsla þjóða af því, þar sem bundið var fyrir augun á fólki svo það hætti að sjá og finna fyrir nærveru Guðs, hefur alltaf endað með skelfingu.
Af því að kærleikur, sem slitinn er úr sambandi við Guð, verður að lyktum tæki eins til að tryggja hagsmuni sína umfram annan í nafni sérgæsku og ágirndar. Það hefur reynsla aldanna skráð skírum stöfum. Í kirkjuskólanum og fermingarfæðslunni erum við að fræðast um hvernig Guð vill að við elskum hvert annað. Um það fjalla sögurnar sem Jesús sagði, boðskapurinn og lífið hans.
Það gerum við líka í bæninni, í persónulegu samtali okkar við Guð, að við biðjum um styrk og þrek til þess að rækta fagurt mannlíf, að elska Guð og elska náungann.
Hjá Guði eru allir jafnir og hjá Guði eru allir velkomnir, hvernig sem aðstæðum er háttað. Það staðfesti Jesús Kristur, og sagan um blinda manninn lýsir svo áþreifanlega.
Guð gefi okkur sjón til að sjá og greina hvað til farsældar og réttlætis horfir, skynja fegurð og tækifæri lífsins og fyllast þreki til að skilja, umbera og elska hvert annað. Amen.