Í nýjasta hefti Kirkjuritsins (78. árg. 1. h. 2012, bls. 10–16) birti Geir Waage grein er hann nefnir „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“. Nú er grein Geirs ekki fræðilegs eðlis og því óþarft að fetta fingur út í einstök atriði sem þar koma fram. Þó verður ekki hjá því vikist að benda á að lokaniðurstaða hans stenst ekki kirkjusögulegt mat en þar segir hann:
"Eitt er víst, að þegar prestarnir, gjörsamlega rúnir öllu því sem nú kallast atvinnuöryggi verða settir undir sóknarnefndirnar, er kirkjan komin á þann byrjunarreit sem hún var á við upphaf einkakirkjunnar [þ.e. þeirrar kirkju sem hér komst á í kjölfar kristnitöku, innsk. HH] og á þá ekki framtíð fyrir sjer í nokkurri kunnuglegri sögulegri mynd. Hvað hún gæti orðið og til hvers verður tíminn að leiða í ljós." (Bls. 16)
Sá samanburður sem hér er gerður milli íslensku kirkjunnar á fyrstu öldum kristni í landinu og Þjóðkirkjunnar í upphafi 21. aldar er ekki byggður á neinum sögulegum veruleika heldur persónulegum hugmyndum höfundar. Í þessum orðum dregur Geir enda saman þau viðhorf sem hann reifar í greininni. Það sem hann óttast og vill fyrirbyggja er að óvígt forystufólk safnaðanna öðlist aukið hlutverk, áhrif og völd í þjóðkirkjunni en það telur hann vera að „rugla saman regimentunum“ eða valdsviðum vígðra og óvígðra.
Vissulega er það upprunalegur þáttur í lútherskri kirkju að greina milli andlegra og veraldlegra mála og gæta í því efni verkaskiptingar milli presta og annarra safnaðarmanna og þá einkum til að halda uppi reglu í kirkjunni. Hér vekur Geir því máls á álitamáli sem er fullkomlega umræðuvert. Með þungri áherslu sinni á aðgreiningu „regimentanna“ er á hinn bóginn vafamál hvort hann geri ekki lítið úr jafnupprunalegum þáttum lútherskrar hefðar eins og kenningunni um „almennan prestdóm“ sem Lúther skákaði gegn prestaveldi miðaldakirkjunnar. — Raunar vekur grein Geirs upp spurninguna hvort lúthersk kirkja sé fremur kirkja presta eða safnaða. Hann vill sýnilega standa vörð um það sem kallað hefur verið „prestakirkja“.
Hvað er að vera lúthersk kirkja?
Geir Waage segir með réttu að Þjóðkirkjan sé bundin af því að vera „lúthersk-evangelisk“ og að það taki „bæði til fyrirkomulags stofnunarinnar og kenningarinnar“. Stundum er bent á að hvergi í stjórnarskrá okkar eða lögum sé skýrt hvað það feli í sér að vera „evangelisk lútersk“ kirkja eins og segir í 62. gr. stjskr. Af sögulegum ástæðum ríkir þó engin óvissa í því efni þegar um kenninguna er að ræða. Þjóðkirkjunni ber að haga boðun sinni samkvæmt forn-kirkjulegu játningunum þremur, Postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni og Aþanasíusarjátningunni, auk tveggja lútherskra játningarrita, Fræða Lúthers hinna minni (1529) og Ágsborgarjátningarinnar (1530). Þegar kemur að „fyrirkomulagi stofnunarinnar“ vandast málið aftur á móti. Af ofangreindum ritum gefur aðeins Ágsborgarjátningin einhverjar vísbendingar um það sem kalla má kirkjuskipan en með því er átt við samþykktir eða önnur formleg gögn er kveða á um stöðu, stjórn og starfshætti kirkna eða „fyrirkomulag“ kirkjustofnunarinnar. Þar er þó aðeins að finna grófar útlínur enda þurfti að setja einstökum lútherskum kirkjum staðbundna kirkjuskipan í líkingu við þá sem Kristján III Danakonungur setti fyrir ríki sitt 1536/1539. Af þessum sökum er mikið vafamál hvort eitthvað sé til sem kallast getur hið evangelísk-lútherska fyrirkomulag kirkjustofnunar. Líklega er þar um algerlega flæðandi mörk að ræða. Kirkja er væntanlega lúthersk hvað kirkjuskipan áhrærir meðan hún getur rökstutt á boðlegan hátt að svo sé og meðan systurkirkjur hennar viðurkenna hana sem slíka m.a. á vettvangi Lútherska heimssambandsins. Við verðum væntanlega að búa við þá óvissu að lútherskar kirkjur geti í framtíðinni tekið á sig myndir sem víkja frá öllum „kunnuglegum sögulegum myndum“. Enda má spyrja hvort lútherska kirkjan eigi ekki einmitt upphaf sitt í slíkri óvissu eða óreiðu sem Geir virðist standa svo mikill stuggur af. Eða vék ekki söfnuður hans í Wittenberg frá þeim sögulegu myndum af kristnum kirkjum sem þá voru þekktar? Var það ekki einmitt það sem olli spennunni milli safnaðar Lúthers og páfakirkjunnar á 16. öld?
Fjölbreytileg flóra
Til að varpa ljósi á fjölbreytnina sem ríkir varðandi „fyrirkomulag“ lútherskra kirkna má t.d. benda á tengsl þeirra við ríkisvaldið. Líklega eru til tvær–þrjár kirkjur með nánari tengsl við ríkið en Þjóðkirkja okkar hefur en nokkrar með svipuð tengsl. Í langflestum tilvikum eru tengslin miklu veikari og víðast engin umfram það sem gerist um trúfélög almennt í hverju landi fyrir sig. Svipuðu máli gegnir um stjórn kirkjumála. Sumar kirkjur búa að kirkjuþingi líkt og tíðkast hér. Sumar gera það aftur á móti ekki. Sjálfstæði safnaða er mjög mismikið frá einni lútherskri kirkju til annarrar. Guðsþjónustuform lútherskra kirkna eru mjög ólík. Umfram allt er staða presta, ráðningarfyrirkomulag þeirra og „vald“ safnað yfir prestum eða öfugt með mjög ólíku móti. Seint mun ábyggilega takast að finna hið „rétta“ lútherska fyrirkomulag þótt ugglaust megi finna einhvern minnsta hugsanlega samnefnara í þessu efni sem eigi rætur að rekja allt aftur til upphafs lútherskunnar. Geir Waage staðsetur Þjóðkirkju okkar réttilega í hinni fjölbreyttu lúthersku flóru er hann sýnir fram á að allt fram á 20. öld var hún hluti af hinu vestur-skandínavíska afbrigði af lútherskum kirkjum sem þróaðist í Danmörku og í hjálendunum Noregi og Íslandi. Hins getur hann ekki — eða hefur ekki veitt því athygli — að þróun Þjóðkirkjunnar á síðari hluta 20. aldar leiddi ekki til þess að hún hafnaði utan hins lútherska ramma, eins og hann virðist óttast, heldur tók hún að mótast af fyrirmyndum sem skilgreina má sem austur-skandínavískt afbrigði af lútherskum kirkjum. Það þróaðist allt frá 16. öld í Svíþjóð og Finnlandi sem þá var sænsk hjálenda.
Á þessum tveimur greinum er margháttaður munur. Austur-skandínavíska greinin er miklu hákirkjulegri en sú vestur-skandínavíska eins og kemur fram í stöðu biskupsembættisins og helgisiðunum. Þá er hún einnig miklu „stofnunarlegri“ þar sem sterk miðstýring er í kirkjum af þessu tagi í höndum kirkjuþings. Í vestur-skandínavísku greininni er hins vegar ekki um kirkjulega miðstjórn að ræða heldur er yfirstjórn kirkjunnar enn í höndum ríkisvaldsins. Þá hefur lýðræðisþróun verið með mjög mismunandi móti í hefðunum tveimur. Í vestur-skandínavísku hefðinni hefur lýðræðið eðli málsins samkvæmt þróast á safnaðarplaninu en frekar á sviði miðstjórnarinnar í þeirri austur-skandínavísku, þ.e. á vettvangi kirkjuþingsins. Báðar rúmast þessar hefðir innan þess sem kalla má lútherskt „fyrirkomulag“ kirkjustofnunar.
„Höfum við gengið til góðs...?“
Auðvitað getur fólk greint á um hvort Þjóðkirkja okkar hafi „gengið til góðs“ er hún þróaðist úr vestur-skandínavískri kirkju yfir í austur-skandínavíska. Breytingin hefur þó gert henni mögulegt að greinast frá ríkinu í ríkari mæli henni var mögulegt ella og það hefur tvímælalaust verið jákvætt. Það kemur best í ljós í samanburði við stöðu dönsku kirkjunnar nú og þróunina í Noregi einmitt á yfirstandandi misserum. Þá er raunar hverfandi hætta á að Þjóðkirkjan þróist yfir í „congregationaliskt“ far meðan hún fylgir hinu austur-skandínavíska fordæmi eins og Geir Waage virðist óttast. Slíkt safnaðarsjálfstæði rúmast ekki í kirkju af því tagi. Aftur á móti er ríkur „congregationaliskur“ þáttur til staðar í vestur-skandínavísku hefðinni eins og sjá má í dönsku kjörsöfnuðunum. Þjóðkirkja okkar eins og fjölmargar aðrar lútherskar kirkjur stendur nú „við tímamót“ eins og Geir Waage bendir réttilega á. Þetta á ekki síst við þær kirkjur sem haldið hafa sterkum tengslum við ríkisvaldið fram til þessa. Þeim reynist flestum torveldara en öðrum kirkjum að mæta fjölhyggjunni. Þá eru þær mislangt komnar í því ferli að þróast úr því að vera eins konar trúmáladeildir ríkisvaldsins yfir í að vera trúfélög meðal trúfélaga. Það ferli gengu sumar lútherskar kirkjur í gegnum fyrir löngu síðan. Aðrar voru aldrei í þessari stöðu. Þegar um svo stórstígar breytingar er að ræða verður ekki alltaf byggt á sögulegum fyrirmyndum og séu þær til staðar er ekki alltaf augljóst hvernig byggt skuli á þeim við núverandi aðstæður. Þeir sem horfa fastast til sögunnar verða t.d. að gera sér grein fyrir að veraldlegt, lýðræðislega kjörið ríkisvald í fjölhyggjusamfélagi verður aldrei kallað til sömu eða svipaðrar ábyrgðar gangvart kirkjunni og „furstinn“ um daga Lúthers. Samkvæmt þeirri heimsmynd og samfélagssýn sem þá ríkti hafði „furstinn“ þegið vald sitt frá Guði og bar altæka ábyrgð á þegnum sínum frammi fyrir honum. Sem fremsta eða valdamesta einstaklingnum í hinum kristna söfnuði bar honum líka að fylla það tómarúm sem skapaðist í kirkjunni er valdi páfa var hafnað. Hvorki ríkisvaldið, þjóðin né Þjóðkirkjan gætu sætt sig við að ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur gengi nú inn í það hlutverk.
Óviss framtíð
Þjóðkirkja okkar er nú að feta sig inn í óvissa framtíð. Í þeim sporum getur hún ekki leyft sér að horfa aðeins um öxl og láta sig dreyma um horfna gullöld. Það er ekki mögulegt að benda á neitt eitt tímasnið í kirkjusögu okkar og segja: Þá ríkti hér hið rétta lútherska fyrirkomulag í kirkjunni. Það að vera lúthersk kirkja felst e.t.v. ekki síst í því að þora að laga skipan sína að breyttum aðstæðum í samfélaginu án þess að missa sjónar á minnsta mögulega samnefnaranum sem einkennir lútherskar kirkjur. Það gerir kirkjan ekki í þeirri einangrun sem í sögu- og hefðarhyggju getur falist heldur í samskiptum við aðrar kirkjur — lútherskar og ekki-lútherskar. E.t.v. er það einmitt merkingin í slagorðinu ecclesia semper reformanda þegar dýpst er skoðað.
Í Guðs friði!