Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð.
Þannig skrifar Hallgrímur Pétursson í fjórða Passíusálmi. Þetta er eitt af síðustu versum sálmsins og hefur lifað með Íslendingum í gegnum aldirnar. Sálmurinn fjallar um samtal Krists við lærisveinanna, áður en þeir halda í Getsemane garðinn þar sem Jesús var tekinn höndum. Lokaversins eru túlkun Hallgríms á samtalinu, áminning um það sem máli skipti, bænin má aldrei bresta þig.
Það eru undarlegir og fordæmalausir tímar sem við upplifum um þessar mundir. Skólahald, íþróttastarf, kirkjustarf, vinnustaðir og heimili hafa orðið fyrir miklu raski. Ég upplifi það sem áskorun að halda börnum mínum við námið heima við á sama tíma sem ég reyni að sinna vinnu, kirkjunum sem nú eru tómar en halda þó áfram þjónustu sem er svo nauðsynleg, að boða þá von Krists. Það verður sérstaklega mikilvægt nú er við upplifum ógn og hræðslu af völdum veiru sem fólk um allan heim er að takast á við. Ógnin er ósýnileg og þess vegna er líka erfitt að takast á við hana. Við þessar aðstæður getur verið erfitt að finna orð sem koma að gagni og vert er að spyrja hvað er það sem skiptir máli? Staðreyndin er líka sú að við þurfum sífellt á hvort öðru að halda. Það er sérkennilegt að taka ekki í hendur á fólki, eða faðma þau sem standa manni nærri. Við finnum okkur mismunandi leiðir til að takast á við aðstæður og maður sér ótrúlega hugmyndauðgi á samfélagsmiðlum. Einn kunningi minn les til að mynda daglega nokkra fimmaurabranda, sem í raun eru ekkert fyndnir en samt svo skemmtilegir. Þannig leitum við leiða til að gleðjast er að okkur sækir kvíði eða erfiðleikar. Sjálfum varð mér hugsað til þessa vers sr. Hallgríms, áminning hans um það sem skiptir máli, áminning um bænina. Á sama tíma getur verið erfitt að nálgast Guð, að nálgast hann í bæn, það á allavega við um sjálfan mig að efinn getur orðið nagandi.
Efinn er svo sannarlega mannleg tilfinningin, það er eðlilegt að efast og öll höfum við vafalaust fundið til efa. Að efast um tilveruna, sjálfan sig, fólkið í kringum sig og að sjálfsögðu Guð. Á þessum tímum, er við vitum ekki hvað tekur við, er við höldum fjarlægð hvort frá öðru er það einmitt efi og kvíði sem upp koma. Efinn er þó ekki nýr af nálinni og margir búa við kvíða alla daga. Hlutskipti marga er því erfitt er við tökumst á við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.
Er ég velti fyrir mér biblíulegum tengingum þá leiði ég hugann að Tómasi, lærisveini Krists, sem efaðist um upprisuna. Ef til vill var hún of stór biti fyrir hann til að kyngja, og hvern skal undra?
Tómast vildi raunverulegar sannanir, eitthvað sem hönd var á festandi. Er það ekki einmitt það sem við óskum mörg eftir, er Guð hér, er hann með, mitt í þessu öllu?
Jesú mætti spurningum Tómasar með kærleika, kom hingað með fingur þinn sagði hann. Hann svaraði þörfum Tómas fyrir áþreifanlegar sannanir en benti um leið á að slíkt yrði ekki alltaf hægt.
Það er oft erfitt að trúa, mér finnst að mörgu leyti Tómas hugrakkur, því hann þorði að spyrja þeirra spurninga og gera þær athugasemdir sem við mörg höfum hugsað. Og það er gott að sjá hvernig Jesú mætir slíkum spurningum, með kærleika og umhyggju. Það er leyfilegt að efast og bera fram stórar spurningum.
Já, það er mannlegt að efast, Kristur sjálfur notar efann er hrópar bæn sína á krossinum, bæn úr sálmi 22.
Guð minn, Guð minn! Hví hefur
þú yfirgefið mig?
Ég hrópa en hjálp mín er fjarlæg.
Það er eins og hrópa út í óvissuna, þótt það að ákalla Guð sé um leið vitnisburður um það að svars sé vænst.
Áminning Hallgríms í fjórða Passíusálmi er áminning um það sem skiptir máli, að leita Drottins, þó það sé stundum gert í óvissu. Bænin er leiðin að hjarta Guðs sem og hjarta okkar sjálfra, virkjum þá leið á óvissutímum, minnug þess að það vorar á nýjan leik, að lokum mun snjónum létta, sem og þeirri ógn sem stafar af veirunni.
Að lokum getum við beðið með orðum Caroline Krook er hún leiðir hugann að upprisumorgninum.
Í fyrstu morgunskímunni átti enginn von.
Þar var hvorki von, né eftirvænting.
Eina sem var eftir
var vonbrigði og örvilnan.
Samt gerðist kraftaverkið!
Trú manna getur áorkað
miklu, en ekki þessu.
Vantrú manna getur hindrað
margt, en ekki þetta.
Þakka þér, Guð, fyrir að
raunveruleg von hér í heimi
er ekki háð því sem ég fæ áorkað,
vonað eða séð fyrir.
Mátturinn er þinn, ekki manna.
Amen.