Elskaðu!

Elskaðu!

„Jón Ásgeir! Ég vil að þú elskir hann Andrés í næsta stigagangi, já þótt hann sé alltaf að skammast og banna ykkur að vera í fótbolta á grasinu! Þú átt að elska hann eins og sjálfan þig!“ EF móðir mín hefði talað til mín á þennan veg, þá hefði ég haldið að hún væri gengin af göflunum! Hvernig er hægt að skipa manneskju að elska?

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

„Jón Ásgeir! Ég vil að þú elskir hann Andrés í næsta stigagangi, já þótt hann sé alltaf að skammast og banna ykkur að vera í fótbolta á grasinu! Þú átt að elska hann eins og sjálfan þig!“

EF móðir mín hefði talað til mín á þennan veg, þá hefði ég haldið að hún væri gengin af göflunum!

Hvernig er hægt að skipa manneskju að elska?

Við vitum það öll sem hér erum að það er ekki hægt.

Það væri nú aldeilis ágætt ef blessaður presturinn gæti sagt við hjónin sem vildu skilja: „Hættið nú þessari vitleysu og elskið hvort annað“ og þau myndu þegar hlýða og yfirgefa skrifstofu prestsins ástfangin sem aldrei fyrr.

En við vitum að þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig.

Þess vegna leitar sú spurning óhjákvæmilega á mig, hvað Drottinn sé eiginlega að fara með hinu æðsta allra boðorða, tvöfalda kærleiksboðorðinu.

Ást – það að elska – heyrir til tilfinningasviði manneskjunnar, hún er tilfinning og tilfinningar er ekki hægt að kalla fram með skipun. Tilfinningarnar eru sinn eigin herra, þær neita að láta stjórnast af rökhugsuninni. Vissulega fléttast tilfinningar iðulega inn í og hafa áhrif á það sem við álítum vera rökrétta ákvarðanatöku og mannlegt siðferði – það er vært hægt að hugsa sér að siðferði væri til staðar ef maðurinn væri ekki tilfinningavera. En v ið finnum ekki til samúðar vegna þess að siðferðisvitund okkar segi okkur að það sé hið rétta að gera. Líklegra er, að samúðin, sem við finnum til án þess að hafa á því nokkra stjórn, leiði til siðferðilegrar hugsunar og hegðunar.

En þrátt fyrir það segir Kristur: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum“ og: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“.

Er Guð að fara fram á hið ómögulega?

Það getur varla verið!

Nærtækasta skýringin á þessu vandamáli er sú, að orðalagið „að elska“ vekir önnur hugrenningatengsl hjá okkur en Kristur ætlaðist til. „Að elska“hlýtur í þessu samhengi valdboðsins að merkja eitthvað, sem hefur með rökhugsun mannsins og hegðun að gera, því það er eingöngu hægt að skipa fólki að gera eitthvað eða gera ekki eitthvað; það er ekki hægt að skipa fólki að finna til eins og áður sagði. Við þurfum því að finna annað orðalag í stað orðalagsins að elska, sem á okkar tungu vísar ótvírætt til tilfinningalífs mannsins en gerði það ekki endilega í menningarlegu samhengi guðspjallanna.

Það að „elska Drottin Guð sinn“ hlýtur því að merkja að bera fyrir honum djúpa virðingu – við getum kallað það lotningu - sem felur í sér að vilja hlýða boðum hans og haga lífi sínu svo honum sé vel þóknanlegt. Í boðorðinu er lögð á það áhersla að öll tilvera mannsins hvíli á þessum grunni, með því að segir „af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum“. Þessi krafa kemur í raun einnig fram í fyrsta boðorðinu af hinum tíu en með öðrum hætti þó, þar sem segir: „þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“.

Það „að elska náunga sinn eins og sjálfan sig“ merkir þá að bera virðingu fyrir náunga sínum, eins og æskilegt er að maður beri virðingu fyrir sjálfum sér. Virðingin fyrir náunganum felur í sér tillitssemi og hjálpsemi og tökum eftir því, að gengið er út frá því að manneskjan beri virðingu fyrir sjálfri sér, því það er vissulega umhugsunarvert hvort manneskja sem skortir sjálfsvirðingu sé fær um að bera virðingu fyrir öðrum, en því verður ekki svarað hér.

Í raun má segja, að Kristur hafi með lífi sínu sýnt hvað það þýðir að fylgja tvöfalda kærleiksboðorðinu. Kærleiksþjónusta hans við náungann er bein afleiðing af djúpri virðingu hans fyrir Guði sem kemur fram í skilyrðislausri hlýðni hans við boð hans, svo skilyrðislausri að hann gaf líf sitt svo að við mættum lifa. Í boðorðunum tíu eru einungis gefin dæmi um óæskilega hegðun gagnvart náunganum, það sem ekki má gera, en Kristur sýndi með lífi sínu hvernig Guð vill að samskiptum manna sé háttað.

* * *

Það vill svo til að þessi vetur er helgaður kærleiksþjónustunni í kirkjunni. Við getum hlýtt kærleiksboðorðinu á svo margan hátt í daglegu lífi okkar, einfaldlega með því að koma fram af virðingu og tillitssemi, en það krefur okkur einnig um að bregðast við neyðarkalli bágstaddra og nauðstaddra, neyðarkalli sem yfirleitt nær eyrum okkar fyrir tilstilli hinna ýmsu hjálparstofnana svo sem Hjálparstarfs kirkjunnar. Það þarf ekki eingöngu að vera í formi fjárhagsstuðnings við einstök aðkallandi og tímabundin verkefni. Við getum tekið þátt í baráttunni gegn fátækt í heiminum með öðrum hætti.

Svo ég nefni aðeins eitt dæmi, þá getum við stuðlað að því að fátækt fólk í þriðja heiminum fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína og dregið úr barnaþrælkun, með því að kaupa vörur með merkingunni Fairtrade, Max Havelar, Gepa eða sambærilegum merkingum sem merkja að viðskiptin með vöruna hafi tryggt framleiðanda hennar sanngjarnt verð. Með því einu að drekka kaffi sem framleitt hefur verið á slíkum forsendum getum við stuðlað að því að fjölskyldur kaffibændanna fái lifað mannsæmandi lífi í stað þess að lepja dauðann úr skel á meðan alþjóðlegar viðskiptasamsteypur græða á vinnu þeirra, blóði, svita og tárum.

Nú gæti einhver haldið að það sem ég hef hér sagt stangist á við þá kenningu Martins Lúthers að góð verk gögnuðust ekkert ef þau væru ekki sprottin af sannri trú en því er til að svara, að Lúther var með þeirri kenningu að svara spurningunni hvort hægt væri að vinna sér inn fyrirgefningu Guðs með góðverkum en ekki hvort vinna ætti góð verk. Hann vildi meina að það væri ekki hægt að öðlast réttlætingu, ef viðkomandi væri ekki sannarlega trúaður, en trúin fæddi hins vegar óhjákvæmilega af sér góð verk. En það er ekki hægt að skipa manni að trúa frekar en elska, enda leit Lúther svo á að trúin væri gjöf Guðs. En það hvort gjöf trúarinnar er nauðsynleg forsenda þess að hlýða boði Krists eða hvort hlýðni geti jafnvel alið af sér sanna trú, það verður að liggja á milli hluta. Það stendur hins vegar eftir sem áður, að krafan um virðingu, tillitssemi og góð verk gagnvart náunga okkar er ófrávíkjanleg þar sem hún birtist í tvöfalda kærleiksboðorðinu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen